RÍKISSTJÓRNIR á Vesturlöndum ákváðu í gær að hætta um sinn við að kalla sendimenn sína heim frá Hvíta Rússlandi en þá hafði Alexander Lúkashenko, forseti landsins, gefið þeim vikufrest til að yfirgefa sendiherrabústaðina um stundarsakir. Segja hvítrússnesk stjórnvöld það nauðsynlegt vegna viðgerða.
Vestræn ríki hótuðu að kalla sendiherra heim frá Hvíta Rússlandi

Reknir á húsgang

vegna viðgerða

Mínsk. Reuters.

RÍKISSTJÓRNIR á Vesturlöndum ákváðu í gær að hætta um sinn við að kalla sendimenn sína heim frá Hvíta Rússlandi en þá hafði Alexander Lúkashenko, forseti landsins, gefið þeim vikufrest til að yfirgefa sendiherrabústaðina um stundarsakir. Segja hvítrússnesk stjórnvöld það nauðsynlegt vegna viðgerða.

Þetta undarlega mál hófst á mánudag þegar yfirvöld í Hvíta Rússlandi tilkynntu, að allt starfsfólk margra sendiráða, þar á meðal Rússlands og flestra vestrænna ríkja, yrði að flytjast burt fyrir miðvikudag vegna viðgerða. Eru sendiráðin í byggingasamstæðu fyrir vestan höfuðborgina, Mínsk, og er því haldið fram, að pípulagnir og margt annað sé ónýtt. Byrjaði málið raunar með því, að járngrindahlið að byggingasamstæðunni var soðið aftur og olli það mikilli reiði Bandaríkjamanna, sem hótuðu að grípa til ótilgreindra gagnráðstafana.

Brot á Vínarsáttmála

Vestrænu sendirherrarnir mótmæltu brottrekstrinum harðlega og bentu á, að með honum væri verið að brjóta Vínarsáttmálann. Auk þess væri hægur vandi að vinna að nauðsynlegum viðgerðum án þess, að flutt væri úr húsunum. Ákváðu ríkisstjórnir flestra vestrænna ríkja að bregðast við með því að kalla sendiherrana heim.

Lúkashenko, forseti Hvíta Rússlands, framlengdi í gær frestinn um viku og þá var hætt við heimkvaðningu sendiherranna, í bili að minnsta kosti. Tekið var þó fram, að aldrei yrði fallist á, að sendiherrarnir reknir út úr húsi.

Rússar, sem eru einu bandamenn Hvítrússa, segjast hafa áhyggjur af þessu máli og hugsanlegt var talið, að það yrði rætt á fundi, sem Sergei Kíríjenko, forsætisráðherra Rússlands, átti með Lúkashenko í Mínsk í gær.

Refsivert að móðga forsetann

Vestrænar ríkisstjórnir hafa margoft gagnrýnt Lúkashenko fyrir einræðistilburði og fyrir að standa í vegi fyrir umbótum í landinu. Líður hann ekki neina andstöðu við sig og í síðustu viku var það leitt í lög, að það væri glæpsamlegt að móðga forsetann og varðaði allt að fimm ára fangelsi.