STEINGRÍMUR J. Sigfússon alþingismaður segir eðlilegt að gera í grófum dráttum upptækan allan sérstakan hagnað eða söluhagnað, sem tengist veiðiréttindum. "Það var aldrei, er ekki og á ekki að vera, markmiðið með fiskveiðistjórnarkerfi að búa til einhverja gullgerðarvél fyrir handhafa veiðiréttarins," sagði hann í ávarpi í tilefni sjómannadagsins í Neskaupstað.
Steingrímur J. Sigfússon í Neskaupstað Söluhagnaður veiðiréttinda verði gerður upptækur

STEINGRÍMUR J. Sigfússon alþingismaður segir eðlilegt að gera í grófum dráttum upptækan allan sérstakan hagnað eða söluhagnað, sem tengist veiðiréttindum. "Það var aldrei, er ekki og á ekki að vera, markmiðið með fiskveiðistjórnarkerfi að búa til einhverja gullgerðarvél fyrir handhafa veiðiréttarins," sagði hann í ávarpi í tilefni sjómannadagsins í Neskaupstað.

"Ég geri skýran greinarmun á annars vegar öllum þessum hugmyndum um flata skattlagningu á alla greinina í formi auðlindaskatts, þar sem þeir fjármunir væru teknir út úr sjávarútveginum vegna afnotaréttarins," sagði Steingrímur.

"Ég vara við slíku nema það sé mjög hóflegt til að standa straum af kostnaði vegna rannsókna. Hitt að menn geti selt þessi réttindi fyrir stórfé og hirt þann gróða þegar þeir eru að hætta útgerð er allt annað og á því hef ég viljað taka. Ég hef meðal annars lagt til að sett verði sérstök ákvæði í tekjuskattslög um sérstaka skattlagningu á söluhagnað veiðiheimilda. Þannig yrði reynt að ná til þeirra, sem eru að hirða til sín verðmæti um leið og þeir fara út úr greininni," sagði Steingrímur.

Sameiginlegir hagsmunir

Steingrímur vék í ávarpi sínu að kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna og benti m.a. á að þessir aðilar ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta og nefndi sem dæmi mikilvægi þess fyrir alla, sem tengdust sjávarútvegi að greinin byggi við hagstæð starfsskilyrði og að afkoman væri þannig að allir sem á sjónum störfuðu og þeir sem störfuðu í landi, gætu búið við mannsæmandi kjör.

"Þessir aðilar eiga að sjálfsögðu sameiginlegra hagsmuna að gæta í því að sjómannaafslátturinn sem með reglubundnum hætti er sótt að sé varinn," sagði hann. "Þessir aðilar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í því að sjávarútvegurinn sé varinn fyrir offorsi þeirra skattheimtumanna sem telja það allra meina bót og lausn á öllum vanda að leggja auðlindaskatt svo milljörðum eða milljarða tugum nemur á sjávarútveginn og draga fjármuni út úr greininni."

Hann sagði að sennilega væri ekkert brýnna fyrir sjávarútveginn en sanngjarnar leikreglur varðandi framsal á veiðiréttindum og eðlilega skattlagningu á söluhagnað afnotaréttarins eða veiðiheimilda.