HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi á þriðjudag fertugan Reykvíking í fjögurra mánaða fangelsi, greiðslu sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á 0,5 grömmum af amfetamíni fyrir fíkniefnabrot og þjófnað. Hann var sýknaður af ákærum um líkamsárásir og hótanir. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa stolið sjónvarpstæki úr áfangaheimili SÁÁ við Miklubraut 31.
4 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot og þjófnað HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi á þriðjudag fertugan Reykvíking í fjögurra mánaða fangelsi, greiðslu sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á 0,5 grömmum af amfetamíni fyrir fíkniefnabrot og þjófnað. Hann var sýknaður af ákærum um líkamsárásir og hótanir.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa stolið sjónvarpstæki úr áfangaheimili SÁÁ við Miklubraut 31. október 1996 og fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft 0,5 g af amfetamíni í fórum sínum 5. júní 1997. 21. apríl sl. höfðaði ríkissaksóknari annað opinbert mál á hendur manninum fyrir líkamsárás og hótanir gagnvart tveimur konum. Dómurinn sýknaði hann af þeirri ákæru.

Í dóminum kemur fram að samkvæmt sakavottorði hafi maðurinn alls 19 sinnum sætt refsingu fyrir dómi, hlotið 15 refsidóma frá árinu 1975. Brotin sem hann var nú dæmdur fyrir voru framin á skilorðstíma reynslulausnar og rauf maðurinn með því skilorð.

Maðurinn var dæmdur til að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 45.000 krónur í þóknun og saksóknarlaun 50.000 krónur. Dóminn kvað upp Steingrímur Gautur Kristjánsson.