ÞRJÁTÍU ár verða á morgun liðin frá komu varðskipsins Ægis til Reykjavíkur, en það var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1968. Á þessum þriggja áratuga ferli hefur skipið siglt samkvæmt lauslegri áætlun um 744 þúsund sjómílur, sem samsvarar um 34 hnattsiglingum um miðbaug.
Þrjátíu ár eru á morgun liðin frá því Landhelgisgæslan tók varðskipið Ægi í notkun Hefur siglt um 744 þúsund sjómílur

ÞRJÁTÍU ár verða á morgun liðin frá komu varðskipsins Ægis til Reykjavíkur, en það var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1968. Á þessum þriggja áratuga ferli hefur skipið siglt samkvæmt lauslegri áætlun um 744 þúsund sjómílur, sem samsvarar um 34 hnattsiglingum um miðbaug.

Ægir tók við af "gamla" Ægi sem þjónað hafði Landhelgisgæslunni frá 1928 og hafa því aðeins tvö skip Landhelgisgæslunnar borið þetta nafn á síðustu 70 árum. Halldór B. Nellett skipherra segir að "nýi" Ægir, sem lengst af hefur verið nefndur svo, beri aldurinn vel, hafi ávallt verið vel haldið við, en á síðasta ári voru gerðar vel heppnaðar breytingar á skipinu í Póllandi. Halldór fletti dagbókunum í tilefni af þessum tímamótum og fann meðal annars eftirfarandi:

Nærri 80 skip dregin til hafnar og af strandstað

"Kafarar Ægis hafa á þessum 30 árum skorið úr skrúfum 142 skipa og hefur það gerst við ýmsar aðstæður, úti á rúmsjó, í höfnum eða inni á fjörðum. Þá hafa 69 skip af öllum stærðum verið dregin til hafnar og 10 skip hefur Ægir dregið af strandstað. Ýmis aðstoð hefur verið veitt alls 30 skipum og má til dæmis nefna flutning á slösuðum, aðstoð við að ná upp veiðarfærum, slökkvistörf, fylgd skipa og leit og raunar margt fleira."

Halldór hóf feril sinn hjá Landhelgisgæslunni 16 ára sem messagutti og segist hafa unnið flest störf um borð í varðskipi nema í vél.

­ Hefur þá ekki mikið breyst á þessum árum?

"Jú, það er óhætt að segja það. Verkefni varðskipanna eru að vísu svipuð, við erum í margs konar eftirliti og þjónustu og alltaf til taks vegna björgunarstarfa. Í lögum um Landhelgisgæsluna eru verkefnin skilgreind þannig að hún eigi að hafa með höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi, veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska, sjúkraflutningar, veita afskekktum byggðum nauðsynlega hjálp, sjá um sjómælingar, aðstoða við framkvæmd almannavarna, vitaþjónustu og fleira. Þetta eru enn verkefni okkar.

Ég hugsa að meðal helstu breytinga sé aukin sjálfvirkni í sjómennskunni og um leið hefur orðið fækkun í áhöfn varðskipanna, en hún má þó ekki verða meiri. Áður voru 25 til 26 manna áhafnir á varðskipunum en í dag erum við 18. Við allar venjulegar kringumstæður er það nægur mannskapur en það getur skipt máli þegar við þurfum kannski að senda nokkra menn yfir í annað skip vegna aðstoðar eða til eftirlits, þá deilast störfin í varðskipinu á færri menn og það munar um hvern og einn," sagði Halldór.

En áfram með söguyfirlitið og Halldór rifjar upp að stærstu skip sem Ægir hefur bjargað eru sænska olíuskipið Staholm sem var um 19 þúsund brúttótonn og flutningaskipið Euro Feeder sem er 6.000 brt. "Það var í nóvember árið 1969 sem Staholm varð vélarvana skammt undan grynningum við Eldey og var mikil hætta á að skipið ræki þar upp. Skipverjum á Ægi tókst að koma dráttartaug um borð í skipið og draga það frá grynningunum áleiðis til Reykjavíkur. Í apríl 1994 brotnaði sveifarás í Euro Feeder um 670 sjómílur suðvestur af landinu en skipið var um 120 metra langt og farmurinn 200 gámar. Ægi tókst að draga skipið til Reykjavíkur en fárviðri tafði mjög ferðina," sagði Halldór.

Verkefnin alltaf að aukast

"Verkefnin hafa verið að aukast heldur en hitt síðustu árin og það er meðal annars vegna þess að almennt eftirlit er í dag meira en áður var, til dæmis eftirlit með smáfiskadrápi, athuganir á ýmsum réttindamálum skipverja, eftirlit með öryggisbúnaði og fleira."

­ Og á Ægir eftir að þjóna Landhelgisgæslunni lengi enn?

"Ég geri alveg ráð fyrir því, en okkur hjá Landhelgisgæslunni er það mikið ánægjuefni að loks skuli vera hafinn undirbúningur að smíði nýs varðskips sem leysa á Óðin af hólmi, en hann verður 40 ára á næsta ári."

Morgunblaðið/Árni Sæberg ÁTJÁN manna áhöfn er á Ægi. Í aftari röð eru frá vinstri: Ögmundur Guðmundsson smyrjari, Óskar Skúlason háseti, Vigfús Morthens smyrjari, Jóhann Sigurjónsson háseti, Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður, Gísli Hallsson háseti, Björn Straumland háseti, Sigurður Óskarsson háseti, Hjördís Halldóra Sigurðardóttir viðvaningur og Ingibjörg Sigursteinsdóttir viðvaningur. Í fremri röð frá vinstri eru Walter Riedel bryti, Jóhannes B. Jóhannesson annar vélstjóri, Rúnar Jónsson fyrsti vélstjóri, Ólafur Pálsson yfirvélstjóri, Halldór B. Nellett skipherra, Einar H. Valsson yfirstýrimaður, Guðmundur Guðmundsson annar stýrimaður og Björn Haukur Pálsson þriðji stýrimaður.

ÆGIR við Þrídranga í fyrradag, en skipið kom í gær úr 16 daga vitaleiðangri. Næsta verkefni segir skipherrann vera sjómælingar og venjubundin eftirlitsstörf sem farið verður í eftir helgina.