VERIÐ er að kanna skemmdir á flugvél Landgræðslunnar, Páli Sveinssyni, sem nauðlenda varð á Selfossflugvelli í fyrradag eftir að eldur kom upp í öðrum hreyfli hennar. Er með öllu óvíst hvenær hún fer í loftið aftur.
Óvíst hvenær Páll Sveinsson flýgur á ný

VERIÐ er að kanna skemmdir á flugvél Landgræðslunnar, Páli Sveinssyni, sem nauðlenda varð á Selfossflugvelli í fyrradag eftir að eldur kom upp í öðrum hreyfli hennar. Er með öllu óvíst hvenær hún fer í loftið aftur.

Hjá Landgræðslunni fengust í gær þær upplýsingar að flugvirkjar Landhelgisgæslunnar, sem sjá um viðhald vélarinnar, hafi skoðað hreyfilinn strax í fyrrakvöld og áfram í gær. Mun liggja fyrir í dag eða á morgun hvaða varahluti þarf til að gera vélina flughæfa á ný.

Páll Sveinsson, sem er rúmlega fimmtíu ára gömul flugvél af gerðinni DC-3, hefur verið notuð í áburðarflug fyrir Landgræðsluna í rúma tvo áratugi.