ÁKVEÐIÐ hefur verið, að undangengnu lokuðu útboði meðal fimm erlendra fjármálafyrirtækja, að semja við JP Morgan-fyrirtækið um að annast virðismat á Landsbankanum og ráðgjöf vegna undirbúnings á hlutafjárútboði. Stefnt er að því að útboðið fari fram fyrir mitt sumar og gert er ráð fyrir að hlutafjáraukningin nemi 12­15%. Halldór J.
ÐLandsbankinn semur við

JP Morgan um virðismat

12­15% hluta-

fjáraukning

nú í sumar

ÁKVEÐIÐ hefur verið, að undangengnu lokuðu útboði meðal fimm erlendra fjármálafyrirtækja, að semja við JP Morgan-fyrirtækið um að annast virðismat á Landsbankanum og ráðgjöf vegna undirbúnings á hlutafjárútboði. Stefnt er að því að útboðið fari fram fyrir mitt sumar og gert er ráð fyrir að hlutafjáraukningin nemi 12­15%.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir að fimm af tuttugu stærstu fjárfestingarbönkum heims hafi tekið þátt í útboðinu. Tilboði JP Morgan, sem er fjórði stærsti fjárfestingarbanki heims, hafi verið tekið einfaldlega vegna þess að það hafi verið hagstæðast. Hann segir að tvenns konar markmið séu með úttektinni. "Í fyrsta lagi er þetta virðismat, til að hafa til hliðsjónar við ákvörðun á gengi þeirra hlutabréfa sem boðin verða út í sumar. Í öðru lagi er fjárfestingarbankinn ráðinn til að vera bankanum til ráðgjafar um stefnumótun fyrir hann í breyttu fjármálaumhverfi og koma með hugmyndir varðandi frekari alþjóðavæðingu bankans," segir hann.

Leggur traustan grunn að ákvörðunum vegna hlutafjárútboða

Að fá óháðan erlendan aðila leggur, að sögn Halldórs, annars vegar traustan grundvöll að ákvörðunum vegna hlutafjárútboða hér innanlands og hins vegar getur þessi úttekt stuðlað að því að laða að erlent fjármagn, en í þessari lotu er ekki fyrirhugað að selja erlendum aðilum. Það sé þó háð endanlegri staðfestingu viðskiptaráðherra og ríkisstjórnar. Útgáfan núna er hugsuð fyrir heimamarkað og salan verður dreifð.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að 5% af heildarhlutafé Landsbanka verði boðin starfsmönnum Landsbanka á sérstöku gengi, innra virði. "Þetta kynnti viðskiptaráðherra á fyrsta aðalfundi félagsins í mars," segir Halldór. Gengi hlutabréfanna hefur að sjálfsögðu ekki verið ákveðið, enda mun virðismat JP Morgan liggja til grundvallar ákvörðunar þess. Þó má gera ráð fyrir að söluandvirðið muni nema á bilinu 1,5­2 milljörðum.

Sérstök ástæða er fyrir tímasetningu hlutafjárútboðsins. "Í ágúst stendur fyrir dyrum hjá Landsbankanum að nýta sér áframhaldandi kauprétt á 50% hluta í Vátryggingafélagi Íslands. Þegar við nýtum okkur þann kauprétt hefur það þau áhrif á eiginfjárhlutfall bankans að við verðum að styrkja eigið fé með útboði. Þetta ræður bæði fjárhæð og tímasetningu og fjárhæð útboðsins," segir hann.

Næg eftirspurn

Halldór segist halda að næg eftirspurn verði eftir bréfunum og að bankinn vilji tryggja dreifða sölu innanlands. "Það er auðvitað möguleiki að hluti af bréfunum fari til erlendra aðila, en markhópurinn er innlendur í þessu útboði. Hins vegar er brýnt að tilboðin nú leggi grunn að því að þegar sala á hlutabréfum ríkisins sjálfs hefjist, sem auðvitað er málefni eigandans, sé hægt að bjóða sterkum erlendum aðilum hluta þeirra til kaups. Eins og áður hefur komið fram hef ég haft áhuga fyrir, sem stjórnandi í bankanum, að fá inn erlendan sterkan samstarfsaðila og slík sala gæti stuðlað að því."