TALSVERÐAR áherslubreytingar eru boðaðar í rekstri útvarpsstöðva í eigu Fíns miðils ehf. á næstunni, eftir að nýr útvarpsstjóri tók þar til starfa á mánudag í stað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, sem látið hefur af störfum. Nýi útvarpsstjórinn er Bandaríkjamaður að nafni Bruce Law.
ÐNýr útvarpsstjóri hjá Fínum miðli

Boða bandaríska

fagmennsku í íslensku útvarpi

TALSVERÐAR áherslubreytingar eru boðaðar í rekstri útvarpsstöðva í eigu Fíns miðils ehf. á næstunni, eftir að nýr útvarpsstjóri tók þar til starfa á mánudag í stað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, sem látið hefur af störfum.

Nýi útvarpsstjórinn er Bandaríkjamaður að nafni Bruce Law. Hann hefur komið að rekstri útvarpsstöðva víðsvegar í Bandaríkjunum síðastliðin 18 ár, nú síðast hjá fyrirtæki í Michigan þar sem hann hafði m.a. umsjón með rekstri tveggja útvarpsstöðva og útgáfu tímarits.

Bruce sagði í samtali við Morgunblaðið að hann væri hér staddur sem fulltrúi Saga Communications, sem keypti nýlega helmingshlut í Fínum miðli, og að hlutverk sitt væri að innleiða áherslur þeirra og reynslu á íslenska markaðinn.

Stefnumótun stýrt með markaðsrannsóknum

Bruce segir stefnumótun í útvarpsrekstri í Bandaríkjunum byggjast að mestu leyti á markaðsrannsóknum sem framkvæmdar eru reglulega þar sem markhópar stöðvanna eru spurðir í þaula um viðhorf sitt til þess efnis sem boðið er upp á og skynjun sína á miðlinum.

Þessi vinnubrögð hyggjast þeir innleiða hér á landi og hafa þegar hafist handa í samvinnu við markaðsrannsóknafyrirtækið Coopers og Lybrand. Í könnunum sem framkvæmdar eru símleiðis, eru viðmælendur m.a. látnir gefa álit sitt á lagstúfum og það síðan notað til að marka tónlistarstefnu stöðvanna. Rannsóknarferlið er síðan endurtekið reglulega og niðurstöðurnar hafðar að leiðarljósi við stefnumörkun.

Þannig hafa fyrstu markaðsrannsóknir gefið til kynna að litlar áherslubreytingar þurfi að eiga sér stað í rekstri FM 95,7 þar sem markhópurinn er kvenfólk á aldrinum 18-30 ára og á X-inu þar sem hlustendur eru aðallega karlmenn á aldrinum 15-29 ára. Þá mun rekstur klassísku stöðvarinnar einnig haldast óbreyttur.

Taka upp reglulegan fréttaflutning

Rekstur sígildu stöðvarinnar á 94,3 og Aðalstöðvarinnar á 90,9 mun hins vegar taka nokkrum breytingum á næstu vikum að sögn Bruce: "Þessar útvarpsstöðvar taka mið af hlustendum af báðum kynjum sem komnir eru yfir þrítugt. Fólk á þessum aldri hefur aðrar þarfir og væntingar en þeir yngri og við því ætlum við að bregðast með því að taka m.a. upp reglulega fréttaþjónustu sem hefur ekki verið á boðstólum áður".

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti sjötta útvarpsstöðin sem félagið hefur rekstrarleyfi fyrir verður nýtt en hún mun að sögn Bruce verða tekin í gagnið á næstu mánuðum.

Láta staðar numið í bili

Þátttaka fjölmiðlafyrirtækisins Saga Communications í rekstri útvarpsstöðva Fíns miðils er fyrsta verkefni félagsins utan Bandaríkjanna. Aðspurður af hverju ákveðið hafi verið að ráðast í slíka fjárfestingu hér á landi, segir Bruce að forstjóri Saga, Edward Christian, sem á ættir að rekja hingað til lands auk þess að vera starfandi konsúll fyrir Ísland í Michigan, Ohio og Indiana, sé einfaldlega mikill áhugamaður um land og þjóð en frekari landvinningar séu ekki á dagskrá á næstunni.

Morgunblaðið/Golli Bruce Law.