"Samningurinn er virði 1,5 milljarða," sagði Arnfinn Kallsberg, lögmaður Færeyinga, eftir að færeyska landstjórnin samdi við dönsku stjórnina í bítið í gærmorgun. Í samningnum er í fyrsta skipti talað um sjálfstjórn Færeyinga og því er hann talinn marka fyrsta ákveðna skrefið í átt að sjálfstjórn Færeyja.
Færeyingar og Danir friðmælast með samningi um bankamálið

Fyrsta skrefið í átt að

sjálfstæði Færeyja Morgunblaðið. Kaupmannahöfn. "Samningurinn er virði 1,5 milljarða," sagði Arnfinn Kallsberg, lögmaður Færeyinga, eftir að færeyska landstjórnin samdi við dönsku stjórnina í bítið í gærmorgun. Í samningnum er í fyrsta skipti talað um sjálfstjórn Færeyinga og því er hann talinn marka fyrsta ákveðna skrefið í átt að sjálfstjórn Færeyja. Hvorki Kallsberg né Mogens Lykketoft, fjármálaráðherra Dana, sem stjórnaði viðræðunum fyrir hönd Dana, vildu upplýsa í smáatriðum í hverju hin fjárhagslegu atriði væru fólgin og hvort um væri að ræða uppgjöf lána eða uppbætur.

Engin tilviljun er að málið er leyst núna því danska þingið þarf að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnarinnar, svokallaðan "hvítasunnupakka", sem ekki er meirihluti fyrir ef Óli Breckmann, þingmaður færeyska þjóðarflokksins, er á móti. Hann mun nú sitja hjá eins og Jóannes Eidesgaard, þingmaður færeyskra jafnaðarmanna. Færeyska landstjórnin mun hætta við málssókn á hendur dönsku stjórninni, en ekki á hendur Den Danske Bank. Skuldauppgjöf eða uppbót?

Samningurinn er ekki skýr hvað varðar uppbætur og eftirgjöf skulda, en svo virðist sem Færeyingar fái gefnar eftir 900 milljónir danskra kr., ríflega 9 milljarða ísl., af skuldum eyjarskeggja við danska ríkissjóðinn en þær nema um 54 milljörðum ísl. króna og verða ársvextir af þeim 5% í stað 7%. Þar við bætist 500 milljón dkr. lán, sem er án vaxta og afborgana í fyrstu árin og er til tuttugu ára. Þetta metur Kallsberg svo að Færeyingar hafi nú fengið þá 1,5 milljarða, um 15 milljarða ísl., sem Færeyingar álíta að Færeyjabankamálið hafi kostað landstjórnina í kjölfar yfirtöku þeirra á bankanum 1993. Síðar var skýrt frá því að samningurinn kvæði einnig á um vaxtalækkun, sem næmi 700 milljónum dkr., á næstu fimm árum og að framlag Dana til Færeyja hækki um 150 milljónir dkr. næstu árin. Alls er þetta metið á 2,3 milljarða dkr., um 23 milljarða íslenskra.

Lykketoft vill ekki útlista nákvæmlega hver skilningur sinn sé á uppgjörinu og þá heldur ekki hvort meta eigi samninginn sem eftirgjöf skulda eða uppbót. Í samningnum er einnig tekið fram að danska stjórnin eigi að draga sig út úr ýmsum stofnunum í Færeyjum, til dæmis Fjárfestingarsjóðnum, sem fór með samruna bankanna á sínum tíma, húsnæðislánastofnun og atvinnusjóði. Samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu versni

Ljóst er að málið verður rætt í danska þinginu. Anders Fogh Rasmussen, formaður Venstre, segir að með samningnum sé ljóst að reikningurinn lendi hjá dönskum skattgreiðendum eins og sjá hafi mátt fyrir. Úr því stjórnin sjái sig tilneydda að greiða þennan reikning væri áhugavert að sjá hver væri ábyrgur í bankamálinu, en því miður sé ekki þingmeirihluti fyrir að kryfja það mál til mergjar. Úr því svona sé tekið á málinu verði ekki hjá því komist að málið hleypi illu blóði í samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu um langa hríð, enda séu það vinstri flokkarnir sem tryggi líf stjórnarinnar.

Kirsten Jacobsen, þingmaður Framfaraflokksins, segir að danska stjórnin hafi greitt Færeyingum langt fram yfir það sem eðlilegt megi teljast. Dönsk stjórnmál hafa haft áhrif á gang mála, því þessa dagana er verið að ganga frá aðhaldsaðgerðum stjórnarinnar, sem ekki væri meirihluti fyrir ef Jóannes Eidesgaard, annar þingmanna Færeyja á danska þinginu, sæti hjá og hinn þingmaðurinn, Óli Breckmann, greiddi atkvæði gegn þeim. Breckmann var svo ánægður í gærmorgun að hann lýsti því strax yfir að nú sæti hann hjá við atkvæðagreiðslu um pakkann. Þar með er meirihluti stjórnarinnar tryggður og búist er við að hún hafi nú treyst meirihluta sinn. Sjálfstjórn á íslenska vísu? Nú þegar í fyrsta sinn er talað um sjálfstjórn í dansk-færeyskum samningi þurfa Færeyingar að fara að gera upp við sig hvað þeir vilji í sjálfstæðisefnum. Samningur hliðstæður íslensk-danska sambandslagasamningnum 1918 heyrist oft nefndur, þar sem Ísland var lýst frjálst og fullvalda ríki, en í konungssambandi við Danmörk, auk þess sem Danir sáu um utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir Íslendinga. Til þessa var tekið í dönskum fréttum í gær og þá hnykkt á að sambandslagasamningurinn hefði leitt til að Ísland stofnaði lýðveldi og sleit öll tengsl við Dani. Gögn frá þeim tíma er sambandslagasamningurinn var gerður benda eindregið til að Íslendingar hafi þá strax haft í huga fullan aðskilnað með tímanum. Heimsstyrjöldin síðari herti á þeim ásetningi þegar þar að kom.

Hins vegar hafa Færeyingar tæplega enn gert upp við sig hvað þeir vilja nákvæmlega í þessum efnum. Það mun vafalaust hafa áhrif á niðurstöður þeirra þegar í ljós kemur hvort unnt verður að vinna olíu við eyjarnar. Þessi mikilvæga forsenda er að áliti ýmissa nauðsynleg og því sé ekki hægt að taka ákvörðun fyrr en hún liggi fyrir. Óli Breckmann

Mogens Lykketoft