LANDSSÍMI Íslands hf. hefur gert samning við Íslandsbanka hf. um að bankinn annist öll bankaviðskipti félagsins. Samningurinn var undirritaður í gær af Guðmundi Björnssyni forstjóra Landssímans og Vali Valssyni bankastjóra Íslandsbanka. Ákveðið var í lok apríl sl.
ÐLandssíminn færir viðskipti sín úr Landsbankanum

Íslandsbanki bauð best

LANDSSÍMI Íslands hf. hefur gert samning við Íslandsbanka hf. um að bankinn annist öll bankaviðskipti félagsins. Samningurinn var undirritaður í gær af Guðmundi Björnssyni forstjóra Landssímans og Vali Valssyni bankastjóra Íslandsbanka.

Ákveðið var í lok apríl sl. að bjóða út öll bankaviðskipti Landssímans og varð niðurstaða útboðsins sú að ákveðið var að bankaviðskipti félagsins yrðu hjá Íslandsbanka, en þau höfðu áður verið hjá Landsbankanum. Hér er um að ræða öll almenn reikningsviðskipti, almenn gjaldeyrisviðskipti, ávöxtun á veltufé, beinlínuþjónustu og innheimtu símreikninga.

Hrefna Ingólfsdóttir, blaðafulltrúi Landssímans, segir ástæðuna fyrir flutningi viðskiptanna ekki vera óánægju með Landsbankann. "Við sáum einfaldlega að fyrirtækið myndi græða á því að versla við Íslandsbanka. Hann bauð best," segir hún. Hrefna vill ekki gefa upp neinar tölur varðandi viðskiptin, en símatekjur Landssímans námu 10,7 milljörðum á síðasta ári og er því ljóst að um miklar upphæðir er að ræða. "Þegar veltan er svo mikil sem raun ber vitni skipta minnstu prósentufrávik í ávöxtun gífurlegu máli," segir Hrefna.

FRÁ UNDIRRITUN samningsins: Valur Valsson bankastjóri Íslandsbanka, Guðmundur Björnsson forstjóri Landssímans og Kristján Indriðason framkvæmdastjóri hjá Landssímanum.