SKULDABRÉF styrktust aí gær vegna nýrrar ringulreiðar í Asíu, en seigur Dow í New York hafði jákvæð áhrif á evrópskum verðbréfamörkuðum. Í gjaldeyrisviðskiptum beindist athyglin að veikleika jensins, sem vakti ugg um gengisfellingar í Kína og Hong Kong og leiddi til allt að 5% lækkunar á asískum hlutabréfamörkuðum.
Órói í Asíu styrkir stöðu skuldabréfa

SKULDABRÉF styrktust aí gær vegna nýrrar ringulreiðar í Asíu, en seigur Dow í New York hafði jákvæð áhrif á evrópskum verðbréfamörkuðum. Í gjaldeyrisviðskiptum beindist athyglin að veikleika jensins, sem vakti ugg um gengisfellingar í Kína og Hong Kong og leiddi til allt að 5% lækkunar á asískum hlutabréfamörkuðum. Áhyggjur af Asíu drógu úr áhrifum ummæla Greenspans seðlabankastjóra þess efnis að vextir verði ef til vill að hækka ef ekki dragi úr eftirspurn. Sérfræðingar töldu ólíklegt að bandaríski seðlabankinn tæki upp á því að valda ókyrrð á mörkuðum með því að hækka vexti á tíma mikillar óvissu í heiminum. Þeir töldu líklegra að Greenspan héldi áfram að beita fortölum til að reyna að koma í veg fyrir spákaupmennsku -- en hann sagði einnig að erfitt yrði að viðhalda háu verði hlutabréfa. Í Evrópu urðu mestar hækkanir í Frankfurt, þar sem hlutabréf hækkuðu um 0,4 % og nýtt met var sett. Í París varð 0,2% hækkun, þótt viðskipti væru dræm vegna HM. Í London varð 0,54% lækkun vegna slæmrar stöðu Hong Kong-tengdra hlutabréfa eftir 4,91% lækkun Hang Seng vísitölu, sem hefur ekki mælzt lægri í þrjú ár. Bréf í HSBC Holdings lækkuðu um 4,55% og í Standard Chartered um 2,87%. Gengi rússneskra bréfa lækkaði eftir fund sjö helztu iðnríkja og lækkaði RTS hlutabréfavísitalan um 6,2%, sem var mesta lækkun í 10 daga.