Flotkví háhyrningsins kemur í næstu viku FULLTRÚAR Frelsið Willy-Keiko stofnunarinnar könnuðu í gær aðstæður í Vestmannaeyjum og í Eskifirði. Enn er ekki ljóst hvor staðurinn verður fyrir valinu sem heimkynni Keikos.
Flotkví háhyrningsins kemur í næstu viku

FULLTRÚAR Frelsið Willy-Keiko stofnunarinnar könnuðu í gær aðstæður í Vestmannaeyjum og í Eskifirði. Enn er ekki ljóst hvor staðurinn verður fyrir valinu sem heimkynni Keikos. Ákvörðunin verður tekin í næstu viku og þá verður flotkví háhyrningsins send með flugvél frá Seattle í Bandaríkjunum.

Hallur Hallson, talsmaður samtakanna hérlendis, segir ákvörðunina verða tekna að vel yfirlögðu ráði og að frá henni verði greint strax í næstu viku. Þá fá Vestmannaeyingar eða Eskfirðingar senda til sín flotkví á stærð við fótboltavöll sem komið verður upp fyrir haustið en áætlað er að Keiko komi "heim" í byrjun september.

Vestmannaeyjar voru heimsóttar í gærmorgun. Þar tóku fulltrúar Vestmannaeyjabæjar, Háskóla Íslands, Rannsóknaseturs Háskólans í Eyjum, Þróunarfélags Vestmannaeyja og Árni Johnsen alþingismaður á móti fulltrúum Frelsið Willy-Keiko stofnunarinnar. Farið var út í Klettsvík þar sem ráðgert er að Keiko verði komið fyrir komi hann til Eyja.

Eftir hádegi héldu fulltrúar Free Willy Foundation til Eskifjarðar. Þar tóku fulltrúar bæjaryfirvalda á móti þeim. Víkin við Mjóeyri utan við bæinn var sérstaklega skoðuð en hún verður heimili Keikos verði hann fluttur til Eskifjarðar.

Morgunblaðið/Sigurgeir FULLTRÚAR Frelsið Willy-Keiko stofnunarinnar í Vestmannaeyjum í gær.