Noregur og Marokkó skildu jöfn, 2:2, í frábærum knattspyrnuleik í borginni Montpellier í gærkvöldi. Marokkómenn sýndu allar sínar bestu hliðar og komu norsku víkingunum hvað eftir annað á óvart með hraða sínum og leikni. Liðin eru nú jöfn í A-riðli með eitt stig í öðru og þriðja sæti en Brasilíumenn eru efstir eftir sigurinn gegn Skotum.


Norðmenn heppnir að ná

jafntefli við Marokkómenn

Sýnd veiði

en ekki gefin Noregur og Marokkó skildu jöfn, 2:2, í frábærum knattspyrnuleik í borginni Montpellier í gærkvöldi. Marokkómenn sýndu allar sínar bestu hliðar og komu norsku víkingunum hvað eftir annað á óvart með hraða sínum og leikni. Liðin eru nú jöfn í A-riðli með eitt stig í öðru og þriðja sæti en Brasilíumenn eru efstir eftir sigurinn gegn Skotum. Eftir þennan leik má ljóst vera að Marokkómenn eru sýnd veiði en ekki gefin.

Norðmenn hófu leikinn betur og svo virtist í byrjun sem þeir ætluðu að valta yfir Norður-Afríkubúana. Svo fór þó ekki, Marokkómenn komust meira og meira inn í leikinn og stórkostlegt mark Moustafa Hadji eftir frábæra stungusendingu Tahare El Khalej gaf þeim verðskuldaða forystu um miðjan fyrri hálfleik. Norðmenn gáfust þó ekki upp og jöfnuðu metin á lokamínútu fyrri hálfleiks með slysalegu sjálfsmarki Marokkóbúans Youssef Chippos.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum, en Norðmenn áttu áfram í vandræðum með snögga framherja Marokkóbúanna. Á 59. mínútu náðu þeir aftur forystunni eftir laglegt mark Noureddine Naybets, en tveimur mínútum síðar höfðu Norðmenn aftur náð að jafna metin með skallamarki Eggens eftir misskilning í vörn Marokkó.

Egil Olsen, landsliðsþjálfari Norðmanna, sagði eftir leikinn, að lið Marokkó hefði komið sér á óvart. "Ég átti ekki von á þeim svo sterkum," sagði hann. "Ég er sáttur við jafntefli úr þessari erfiðu viðureign. Þeir voru vel undirbúnir fyrir hinar háu og löngu sendingar okkar, en við náðum þó að ógna þeim verulega í lokin."

Henri Michel, þjálfari Marokkó, var ekki jafn sáttur við úrslitin. "Það er synd, því þetta eru ekki þau þrjú stig sem við áttum skilið og gátum náð okkur í. Við höfðum skipulagt leik okkar mjög vel, en fórum ekki fyllilega eftir því. Við náðum ekki stutta spilinu, sem við erum þó bestir í. Mínir menn voru of mikið í löngu sendingunum sjálfir.

Reuters MAROKKÓBÚINN Moustafa Hadji fagnar ógurlega eftir að hafa komið sínum mönnum yfir gegn Norðmönnum í gærkvöldi.