RÍKISSTJÓRNIN hefur ítrekað rætt þá stöðu sem upp er komin á heilbrigðisstofnunum vegna uppsagna 6-700 hjúkrunarfræðinga, sem taka gildi um næstu mánaðamót. Hefur meðal annars verið rætt um að setja á laggirnar nefnd embættismanna að minnsta kosti þriggja ráðuneyta, forsætis-, heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis,
ÐRíkisstjórnin hefur ítrekað fjallað um uppsagnir hjúkrunarfræðinga

Sérstök yfirstjórn

fjalli um vandann

RÍKISSTJÓRNIN hefur ítrekað rætt þá stöðu sem upp er komin á heilbrigðisstofnunum vegna uppsagna 6-700 hjúkrunarfræðinga, sem taka gildi um næstu mánaðamót. Hefur meðal annars verið rætt um að setja á laggirnar nefnd embættismanna að minnsta kosti þriggja ráðuneyta, forsætis-, heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis, til að hafa með höndum yfirstjórn þess hvernig tekið verður á vandanum og hver viðbrögð yrðu ef niðurstaða fæst ekki áður en til uppsagnanna kemur.

Byrjað er að búa aðstandendur undir að þeir gætu þurft að taka við sjúklingum heim og funduðu til dæmis deildarstjórar hjúkrunar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í gær um stöðuna ef málið leystist ekki fyrir mánaðamótin.

Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra sagði að það væri umhugsunarvert að þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu gert langtímasamning til ársins 2000 við hjúkrunarfræðinga haustið 1996 væri þessi staða komin upp á miðju samningstímabilinu. Þetta gerðist æ oftar hjá heilbrigðisstéttum. Hér væri ekki um venjulega launadeilu að ræða heldur uppsagnir og því væri málið allt miklu erfiðara og flóknara en ella. Hins vegar tryði hún ekki öðru en því að deiluaðilar yrðu tilbúnir til að koma til móts við þær stofnanir sem í hlut ættu varðandi öryggisþjónustu. Þannig hefði það alltaf verið þegar deilur heilbrigðisstarfsmanna væru annars vegar, enda ynnu þeir samkvæmt ströngum siðareglum.

Ingibjörg sagði að ríkisstjórnin liti málið mjög alvarlegum augum og væri að meta stöðuna. Leita yrði leiða til þess að sætta þau sjónarmið sem uppi væru, en jafnframt yrði að búast við því versta og vera tilbúin að bregðast við því.



Aðstandendur/10