ÞETTA hafa sumir haft sem aðalsmerki, en í nútíma þjóðfélagi heyrum við ýmislegt annað en okkur langar til að heyra hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hér er átt við þá hávaðamengun sem dynur yfir okkur úr öllum áttum og margir telja einn af stærstu mengunarvöldum dagsins í dag. Eins getur staðhæfingin í fyrirsögninni verið vegna þess að viðkomandi sé að afsaka skerta heyrn.
VINNÍS ­ "Ég heyri bara það sem ég vil heyra" Með fyrirhyggju, segir Árný Sigurðardóttir , má koma í veg fyrir vanda vegna hávaða eða draga úr honum. ÞETTA hafa sumir haft sem aðalsmerki, en í nútíma þjóðfélagi heyrum við ýmislegt annað en okkur langar til að heyra hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hér er átt við þá hávaðamengun sem dynur yfir okkur úr öllum áttum og margir telja einn af stærstu mengunarvöldum dagsins í dag. Eins getur staðhæfingin í fyrirsögninni verið vegna þess að viðkomandi sé að afsaka skerta heyrn. Hávaðamengun getur verið af ýmsum toga, þ.e. heyrnarskemmandi og einnig síbylja hljóða sem ekki eru endilega heyrnarskemmandi en hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega líðan.

Áhrif hávaða á heyrn og vellíðan

Hávaði og hljóð geta eins og áður sagði haft áhrif, bæði á líkamlega og andlega líðan. Þessir tveir þættir geta síðan verið nátengdir hvor öðrum.

Heyrnarskemmdir eru alvarlegasta líkamlega afleiðing hávaða og eru þær oft varanlegar. Tímabundið heyrnartap getur einnig átt sér stað og er eyrnasuð þekkt í því sambandi, sem getur staðið yfir dögum saman t.d. eftir hávaðasama hljómleika. Varanlegar heyrnarskemmdir geta einnig átt sér stað ef einstaka hljóðtoppar eru nægilega háir og getur verið jafnvel um sekúndur að ræða ef hljóðið er nægilega hávært. Margir virðast halda að einungis mikill hávaði geti valdið heyrnarskemmdum, en það er ekki rétt því að lægri hljóð yfir lengri tíma geta einnig valdið varanlegum heyrnarskemmdum. Þetta er þekkt hjá þeim sem vinna við vélar ýmiss konar, leika í hljómsveit o.fl. Ef eyrað fær ekki nægjanlegar hvíldir milli endurtekins hávaðaálags má búast við varanlegum skemmdum á heyrn. Varanlegar heyrnarskemmdir eru tilkomnar vegna þess að sköddun hefur orðið á taugafrumum sem bera hljóðið, en taugafrumur getur líkaminn ekki endurnýjað.

Hávaði og ýmis óvelkomin hljóð eru þekkt fyrir að valda streitu sem t.d. truflar einbeitingu, viðbrögð og svefn. Þessi atriði geta síðan brotist út í líkamlegum einkennum s.s. hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, vöðvaverk og einkennum frá meltingarfærum.

Skilyrði til vinnu og afkasta geta minnkað stórlega ef hávaði er viðvarandi í umhverfinu. Ófriður í kennslustofum er gott dæmi um þetta. Talað er um að hljóðin í umhverfinu yfirgnæfi hljóðstyrk talaðs máls og upplýsingar verða illskiljanlegar. Þetta gerir það að verkum að sá sem þarf að koma einhverju á framfæri talar hærra og eykur þ.a.l. samanlagðan hávaða í umhverfinu, nokkurs konar "snjóboltaáhrif".

Hvað er til ráða?

Það mikilvægasta í þessu sambandi er fyrirbygging hvers kyns hávaða. Oft á tíðum þurfa ekki að koma til nema einfaldar tæknilegar breytingar til að bæta hljóðvist stórlega. Það kemur oftast í ljós þegar hávaðavandamál eru skoðuð að með fyrirhyggju hefði mátt koma í veg fyrir vandann eða draga úr honum. Í dag er þekkingin á hönnun húsnæðis og umhverfi þess það mikil að hægt er að koma í veg fyrir að hávaði valdi ónæði bæði innan- og utandyra. Mikil þekking er til um eiginleika byggingarefna til að hefta útbreiðslu hljóðs og ýmis konar útbúnaður er fáanlegur eins og t.d. hljóðeinangrunargler, hljóðdeyfðar loftrásir í svefnherbergi sem koma í stað opnanlegs glugga, ef ekki er hægt að takmarka uppsprettu hljóðsins, og hljóðveggir. Á vinnustöðum þar sem hávaði er óhjákvæmilegur vegna véla o.þ.h. þarf starfsfólk að nota heyrnarhlífar eða eyrnatappa til að vernda heyrnina. Enginn efast um hin góðu áhrif kyrrðar á líðan okkar í leik og starfi. Umhverfi okkar þarf því að vera hannað m.t.t. þess að við getum átt kost á næði þegar þess er óskað.

Kyrrðin er dýrmæt.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur. Árný Sigurðardóttir