UM 90 fyrirtæki og stofnanir taka þátt í Atvinnuvegasýningu Vestfjarða 1998 sem haldin verður um helgina í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði. Yfirskrift sýningarinnar er Tindur, sækjum á brattann. Markmið Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. sem stendur fyrir sýningunni er að beina sjónum að vestfirsku atvinnulífi, spennandi vaxtarmöguleikum og uppbyggingu í fjórðungnum.


Sækjum á

brattann

UM 90 fyrirtæki og stofnanir taka þátt í Atvinnuvegasýningu Vestfjarða 1998 sem haldin verður um helgina í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði. Yfirskrift sýningarinnar er Tindur, sækjum á brattann.

Markmið Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. sem stendur fyrir sýningunni er að beina sjónum að vestfirsku atvinnulífi, spennandi vaxtarmöguleikum og uppbyggingu í fjórðungnum.

Í íþróttahúsinu á Torfnesi verður aðalsýningarsvæðið en í næsta húsi í Framhaldsskóla Vestfjarða verður starfandi verksmiðja, fólk verður þar starfandi við iðju s.s. postulínsmálun, körfugerð, glerskurð, blómaskreytingar, tréskurð og sitthvað fleira.

Í sama húsnæði verða fyrirlestrar báða dagana (stofu 9) m.a. um gróðurfar á Vestfjörðum, markaðsmál, vegamál, ferðaþjónustu og þjóðmenningu, hafið, galdra á Ströndum og fleira.

Útimarkaður verður á reit á milli húsanna, skóla- og íþróttahúss og fyrir fram íþróttahúsið verða bílar og tæki. Á sviði innanhúss verða skemmtiatriði m.a. tónlist og tískusýning og ungt fjöllistafólk mun setja svip á sýninguna með ýmsum hætti.

Yfirskrift Atvinnuvegasýningar Vestfjarða 1998 er: Tindur ­ sækjum á brattann. Uppbygging, kraftur og bjartsýni er leiðarljósið í vestfirsku atvinnu- og mannlífi sem mun endurspeglast í Atvinnuvegasýningu Vestfjarða 1998, segir í fréttatilkynningu.

Sýningin er opin báða dagana 13. og 14. júní ­ kl. 12­18 og aðgangur er ókeypis.

Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson VERKEFNISSTJÓRN atvinnuvegasýningarinnar á Ísafirði, f.v. Sigríður Magnúsdóttir, Guðjón Jóhannesson, Þórunn Gestsdóttir verkefnisstjóri og Úlfur Úlfarsson.