HÁSKÓLINN á Akureyri brautskráði 66 kandídata frá skólanum sl. laugardag. Alls stunduðu 422 nemendur nám við háskólann í vetur og hafa aldrei verið fleiri. Sem fyrr voru fjórar deildir starfræktar í Háskólanum á Akureyri, heilbrigðisdeild, kennaradeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild.
66 kandídatar brautskráðir frá Háskólanum á Akureyri Skólinn reiðubúinn að vinna að framgangi byggðastefnunnar

HÁSKÓLINN á Akureyri brautskráði 66 kandídata frá skólanum sl. laugardag. Alls stunduðu 422 nemendur nám við háskólann í vetur og hafa aldrei verið fleiri. Sem fyrr voru fjórar deildir starfræktar í Háskólanum á Akureyri, heilbrigðisdeild, kennaradeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild.

Í máli Þorsteins Gunnarssonar, rektors HA, kom fram að umræða um samspil byggðaþróunar og háskólamenntunar hefði aukist að undanförnu. Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998­2001. Þar er mörkuð sú stefna að fólksfölgun á landsbyggðinni verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.

Heildstæð byggðastefna

komin fram

"Fagna ber þessari þingsályktunartillögu forsætisráðherra og þeim áherslum sem þar koma fram sérstaklega á þýðingu háskólamenntunar og hlutdeild hins opinbera í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Í raun má segja að hér sé í fyrsta skipti komin fram heildstæð byggðastefna á Íslandi sem byggist á almannahagsmunum, tekur mið af aðstæðum á landsbyggðinni og er að einhverju leyti í takt við byggðastefnu þeirra nágrannaþjóða sem við helst viljum bera okkur saman við. Háskólinn á Akureyri er reiðubúinn að vinna að framgangi byggðastefnunnar í samráði við og samkvæmt nánari ákvörðun stjórnvalda."

Þörf á að auka færni stjórnenda

Alls brautskráðust 22 sjávarútvegsfræðingar frá skólanum sl. laugardag og hafa aldrei verið fleiri. Þorsteinn sagði menntunarstig í sjávarútvegi almennt lægra en í öðrum atvinnugreinum og aðeins 1­2% starfsmanna í fiskvinnslu og fiskveiðum hafi lokið háskólaprófi en meðaltal þeirra sem ljúka háskólaprófi í öðrum starfsgreinum er 13­14%. Þorsteinn sagði að í athugun erlendra sérfræðinga hefði komið í ljós að hér á landi væri brýn þörf á því að auka færni stjórnenda til að reka arðbær fiskvinnslufyrirtæki.

"Ætli sjávarútvegurinn að halda velli í nútíma tæknivæddu þjóðfélagi þá er nauðsynlegt að hann hafi yfir að ráða svipuðu hlutfalli af háskólamenntuðu fólki og aðrar atvinnugreinar í landinu. Ég geri því ráð fyrir að á næstu 5­10 árum muni sjávarútvegsfyrirtæki hér á landi skapa störf fyrir að minnsta kosti 1.000­1.500 háskólamenntaða starfsmenn. Jafnframt er brýn nauðsyn að efla starfsmenntun og endurmenntun þeirra sem starfa í sjávarútvegi og hafa ekki lokið háskólaprófi."

Mikil eftirspurn eftir sérfræðingum

Þorsteinn sagði að mikil eftirspurn væri eftir sérfræðingum sem hafi bæði haldgóða þekkingu á rekstri fyrirtækja og á stjórnun upplýsingakerfa. Fyirirtæki séu að átta sig á mikilvægi upplýsingastjórnunar og þeim áhrifum sem hún getur haft á samkeppnislega yfirburði.

"Til að svara þessari þörf hefur menntamálaráðherra heimilað Háskólanum á Akureyri að bjóða upp á nýtt nám í tölvu- og upplýsingatækni. Námið hefst við rekstrardeild haustið 1998. Um er að ræða þriggja ára nám til B.Sc. gráðu. Mikill áhugi er á þessu námi og ljóst að fleiri umsóknir eru um það en hægt er að sinna. Nám þetta mun styrkja mjög stöðu Háskólans á Akureyri varðandi notkun allra starfseininga háskólans á sviði upplýsingatækni. Jafnframt mun námið í framtíðinni efla starfsemi atvinnulífsins á landsbyggðinni sem mjög þarf á þessari þekkingu að halda."

Einnig kom fram í máli Þorsteins að næsta haust hefst nám í ferðaþjónustu og er um að ræða þriggja ára nám til B.Sc. gráðu. Þá hefst í kennaradeild á næsta hausti sérskipulagt nám fyrir starfandi leikskólakennara til B.Ed. gráðu.

Eyjafjarðarháskóli í landsháskóla

Háskólinn á Akureyri mun hefja fjarkennslu í hjúkrunarfræði á Ísafirði næsta haust. Kennslan fer fram með aðstoð gagnvirks sjónvarps sem þýðir að kennari við HA kennir nemendum samtímis á Akureyri og Ísafirði. Einnig er unnið að uppbyggingu háskólamenntunar á Norðurlandi vestra. Gerður hefur verið samningur við Hólaskóla um uppbyggingu náms á háskólastigi í ferðaþjónustu sem fram fer í báðum skólunum og lýkur með B.Sc. gráðu frá HA. Þá eru í gangi viðræður við fulltrúa Austfirðinga um háskólakennslu á Austurlandi og sagði Þorsteinn að fulltrúar frá öðrum landshlutum hefðu einnig sýnt áhuga á að starfsemi skólans næði til þeirra með einum eða öðrum hætti.

"Á þeim 10 árum sem Háskólinn á Akureyri hefur starfað hefur hann þróast hratt frá því að vera Eyjafjarðarháskóli til þess að vera landsháskóli," sagði Þorsteinn Gunnarsson.

Morgunblaðið/Björn Gíslason BRAUTSKRÁNINGARHÁTÍÐ Háskólans á Akureyri var haldin í Glerárkirkju sl. laugardag en þá brautskráðust 66 kandídatar frá skólanum.