Vignir Jóhannsson. Til 15. júní. Opið alla daga frá kl. 12-18, lokað mánudaga. VIGNIR Jóhannsson hefur farið ýmsar krókaleiðir á þeim tæplega tuttugu árum sem ferill hans spannar, því þróunin í myndlist hans hefur átt það til að taka ýmsar vendingar og hliðarspor. Ekki er langt síðan Vignir var að fást við landslagsmálverkið, þ.e.a.s.

Niður

náttúrunnar

MYNDLIST

Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn

MÁLVERK

Vignir Jóhannsson. Til 15. júní. Opið alla daga frá kl. 12-18, lokað mánudaga.

VIGNIR Jóhannsson hefur farið ýmsar krókaleiðir á þeim tæplega tuttugu árum sem ferill hans spannar, því þróunin í myndlist hans hefur átt það til að taka ýmsar vendingar og hliðarspor. Ekki er langt síðan Vignir var að fást við landslagsmálverkið, þ.e.a.s. ekki landslagið sem mótíf, heldur málverk af landslagi sem fyrirbrigði út af fyrir sig, og meðhöndlaði það m.a. með því að "gata" ímyndina, þannnig að sást í beran strigann á bak við. Á sýningu Vignis í Listasafni Kópavogs kveður hins vegar við annan tón, því nú er landslagið í öndvegi og götin orðin að holum í landslaginu.

Vignir sýnir níu málverk og tvö rýmisverk, eina gifsmynd og eina innsetningu. Í málverkunum eru þrír þættir uppistaðan; landslagið í bakgrunn, holur í landslaginu og svífandi höfuð. Landslagið er tómlegt eyðimerkurlandslag, vindblásið og gróðursnautt, í forgrunni eru holur eða pollar í jörðinni, sem virðast fylltar með vatni og yfir þeim svífa búklaus höfuð með lokuð augun. Ímyndirnar eru draumkenndar og fjarstæðukenndar. Myndmálið sem Vignir notar er nokkuð ljóst, myndsviðið er lýsandi fyrir hugarástand, sem er í senn huglægt, en kviknar af upplifun á náttúrunni. Næmleiki fyrir náttúrunni verður jafnframt næmleiki gagnvart innri sálarró. Hlustað er á nið náttúrunnar. Landslagið er bæði í því hlutverki að vera baksvið og aðalatriði. Baksvið þess atburðar sem er að gerast í forgrunni, en það sem er að gerast í forgrunni vísar aftur í bakgrunninn. Hins vegar ber meðferð hans á landslaginu ekki með sér að það sé verið að beina athyglinni að landslaginu sem slíku, eða að það sé verið að sýna það á nýjan hátt. Ef við lítum á þetta sem landslagsmálverk, þá eru ekkert sérlega spennandi hlutir að gerast, miðað við oft áður í verkum Vignis, þar sem vantar ekki tilþrifin. Það er ekki hægt að benda á neitt sem er sérstaklega aðfinnsluvert, en það er heldur ekkert sem fær mann til að reka upp stór augu, hrista höfuðið og skoða betur. Mér hefur oft fundist einkenna verk Vignis að hann virðist taka stef úr verkum annarra höfunda og fella inn í sinn eigin myndheim. Samlíkingar koma upp í hugann, t.d. við svífandi höfuð í málverkum Jóns Axels Björnssonar og götótt landslag Sigurðar Árna Sigurðssonar, þótt að öðru leyti séu ímyndir Vignis frábrugðnar myndverkum þeirra. Myndstefin sem Vignir er að vinna úr eiga líklega eftir að samlagast betur. Það er ekki sama ró yfir sýningunni og myndirnar lýsa. Rýmisverkin á sýningunni eru tvö og býsna ólík innbyrðis. Annað er mótuð mynd úr gifsi, "Numið úr læknum", sem svipar að myndefni til málverkanna. Höfuð og skál eru tengd saman með straumlaga formi, sem gæti verið vatn eða hljóð sem hlustað er eftir. Hitt rýmisverkið, "Þögnin í skóginum", er allt annars eðlis, innsetning úr trjádrumbum sem stinga í stúf miðað við þann stíl sem Vignir temur sér á sýningunni. Stuttir höggnir trjádrumbar liggja á gólfinu, tveir og tveir saman, í kross, og raðað í snyrtilegar raðir. Yfir þá hefur verið sáldrað hvítu dufti, sem liggur yfir eins og snjóföl. Verkið er svo ólíkt hinum að ég á erfitt með að sjá hvað þetta verk er að gera á þessari sýningu. MÁLVERK

Ólöf Oddgeirsdóttir, Albert Ka Hing Liu. Til 21. júní.

ÞRJÁR sýningar eru í gangi núna í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni. Auk Vignis Jóhannssonar sýna þau Ólöf Oddgeirsdóttir og Albert Ka Hing Liu í einum salnum og á neðri hæðinni er pólski skopmyndateiknarinn Andrzej Mleczko. Albert Ka Hing Liu er rúmlega þrítugur Kanadamaður af kínversku bergi brotinn. Þetta mun vera fyrsta sýning Alberts Lius hérna megin Atlantshafsins. Albert Liu hefur komið hingað áður og dvaldi í gestaíbúð fyrir listamenn á vegum borgarinnar. Að þessu sinni er það Hafnarfjarðarbær sem sýnir honum gestrisni. Málverkin og steinprentin, sem hann sýnir hér, eru ekki ný af nálinni og unnin á árinu 1992. Það hefði óneitanlega verið forvitnilegt að sjá hvernig myndir hans hafa þróast síðan þá, og vekur þá spurningu af hverju hann sýnir einungis sex ára gamlar myndir. Málverkin eru afar einföld og naum að allri uppbyggingu. Myndflöturinn er eins og lóðréttur strimill, hár og mjór. Yfir flötinn allan hafa verið dregnar dökkar, lóðréttar línur með olíulitum og olíukrít. Hlutföll myndflatarins hafa greinilega skírskotun í kínverska myndlistarhefð, þar sem vaninn er sá að mála myndir á ílanga renninga. Síðan býst ég við að tómleiki myndanna eigi sér einnig bakhjarl i kínverskum menningarheimi, taóisma og zen búddisma. Titill einnar myndarinnar, "The Marriage of Heaven and Hell", virðist benda til þess, hugmyndin um upplausn allra andstæðna í tóminu. Það sem manni finnst kannski vanta hér, en er svo víða að finna í myndlist Austurlanda, er ákveðinn fínleiki og léttleiki í öllum dráttum, ásamt sparsemi í meðferð lína og lita. Það eru einhver þyngsli yfir myndum Alberts Liu, sem gerir þær þéttar og óárennnilegar fyrir augað. Ólöf Oddgeirsdóttir útskrifaðist út málaradeild MHÍ 1994 og síðasta einkasýning hennar var í Gallerí Horninu fyrir tveimur árum. Myndefnið sækir Ólöf í gömul útsaums- og vefnaðarmynstur. Hún málar mynstrin og skeytir saman úr ýmsum áttum. Með þessu segist Ólöf vera að undirstrika þátt í menningararfi þjóðarinnar, sem hafi ekki verið áberandi og lítill gaumur gefinn. Ólöf málar í mjög sterkum litum og leggur áherslu á sérkenni útsaumsins. Það er aftur á móti umhugsunarefni hvaða tilgangi það þjónar að mála útsaum, hvað það er sem málverk af útsaumi hefur að bjóða framyfir útsauminn sjálfan. Að mínum dómi nægir ekki aðeins að leita eftir því hvað málverkið sýnir, heldur verður einnig, og ekki síst, að líta til þess hvað málverkið hefur að bjóða sem málaralist. Það var helst í verki nr. 7 (nafnlaust), þar sem málverkið fær að njóta sín. Í hinum vantar áhugaverðari efnistök. Hugmyndin að baki samsýningunni er að þrátt fyrir afar ólíkan menningarlegan bakgrunn, sem báðir listamenn vísa til með myndum sínum, þá sýna myndirnar að það er samt sem áður einhver skyldleiki eða "snertiflötur" milli þeirra. Ég er ekki viss um að ég sjái þann snertiflöt, en það sem heldur sýningunni saman er að formræn uppbygging myndanna er að nokkru leyti sambærileg. Málverk beggja byggjast á lóðréttum samhliða línum, og samfellu yfir allan flötinn, án miðlægs áherslupunkts. Að öðru leyti finnst mér andinn í myndunum talsvert ólíkur.

Gunnar J. Árnason

Morgunblaðið/Jim Smart "HLUSTUN", málverk eftir Vigni Jóhannsson.