DAÐI BJÖRNSSON

Daði Björnsson fæddist á Straumi á Skógarströnd 2. október 1911. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 2. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Katrín Daðadóttir og Björn Kristjánsson. Systkini Daða voru fjögur, Kristján, María og Ragnheiður, sem öll eru nú látin, en eftirlifandi er Ragnar. Daði ólst upp á Straumi og var þar til ársins 1927, en þá fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Stykkishólms. Á sínum yngri árum stundaði Daði hin ýmsu störf, svo sem vegavinnu og sjómennsku. Daði lauk hinu minna vélstjóraprófi og stundaði vélstjórnarstörf í mörg ár. Hann gerði síðan hlé á sjómennsku sinni og vann í mörg ár hjá Agli Vilhjálmssyni. Eftir það var hann nokkur ár í siglingum á fraktskipum. Eftir að hann hætti sjómennsku stundaði hann byggingarvinnu til starfsloka. Daði var ókvæntur og barnlaus. Útför Daða fer fram frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.