Hrafnhildur Brynja Flosadóttir

Tíminn er afstæður og minningarnar sem fljúga um í huga mínum eru miklu nær en árin sem þær tilheyra. Eldri börn Flosa bróður míns og yngri börnin mín eru á sama aldri, og það voru aldrei margir dagar á milli þess að þau hittust og léku sér saman. Aðalsteinn elstur og stærstur, Gulla og Kata mín jafngamlar, og Hrafnhildur og Gunnar minn jafngömul.

Oft var farið saman í hin ýmsu ævintýri og allir pössuðu alla. Síðan eru liðin mörg ár. Það tognar úr börnunum og það teygist á tímanum. Alltaf finnst manni maður hafi tíma til að segja bráðum hittumst við en svo kemur punktur. Eitthvað allt annað tekur í taumana og tíminn er útrunninn. Hún Hrafnhildur litla er orðin stór, búin að ljúka sínu lífshlaupi og það er ekki lengur tími til að kynnast fullorðinni bróðurdóttur sinni.

Síðast þegar ég hitti þær systur, Guðlaugu og Hrafnhildi, höfðu þær eignast hvor sinn drenginn og voru báðar hinar myndarlegustu mæður. Það var ár á milli þeirra Axels Óla og Úlfars Hrafns og saman hafa þær, með móður sína sem hinn trausta bakhjarl, annast þá. Alltaf hafa þær mæðgur staðið saman í blíðu og stríðu, stutt hvor aðra og glaðst saman.

Mér finnst það lýsa Hrafnhildi best sem manneskju, hvern starfsvettfang hún valdi sér. Það er sannarlega ekki öllum gefið að geta annast þá sem eru minni máttar, ­ þá sem þurfa reglulega ummönnun. En þar var Hrafnhildur réttur aðili á réttum stað. Glaðværð hennar og dugnaður var öllum hvatning til góðra verka. Samstarfsfólk hennar á Kópavogshælinu vottar það heilshugar og sýnir það vel á kveðjustund.

Elsku Rannveig mín, Addi og Gulla, og ekki síður Flosi, Laufey og hálfsystkin Hrafnhildar, megi tíminn græða sár ykkar og góðar minningar um lífsglaða stúlku lifa með ykkur og gleðja í framtíðinni. Að lokum langar mig að skila góðri kveðju frá Hiddu systur og fjölskyldu hennar sem nú er stödd í Noregi.

Þórdís frænka og frændsystkinin.