Fanney (Stella) Jónsdóttir Það var sunnudaginn 10. maí sl. (mæðradaginn). Ég var á námskeiði frá kl. 13­16.30. Á leiðinni heim ákvað ég að koma við í Langagerðinu en hætti snögglega við og sneri við og fór í blómabúð til að færa fósturmóður minni blóm í tilefni dagsins.

Þau, þ.e. fósturforeldrar mínir vildu endilega að ég dveldi fram yfir kvöldmat, sem mér fannst ég með engu móti geta, ég varð að fara heim (þar sem enginn beið). Ekki var ég búin að vera lengi heima, kannski 10­15 mín. þegar síminn hringdi. Það var Sigga, systurdóttir mín, að flytja mér þá harmafregn að móðir hennar væri látin.

Höggið var svo þungt að ég veit ekki hvort ég get risið undir því. Enn var hann kominn maðurinn með ljáinn og fannst mér hann ganga of langt.

Við vorum fimm systkinin, eru nú þrjú farin. Foreldrar okkar létust ung, mamma 37 ára og pabbi 52 ára. Hafsteinn bróðir okkar lést 49 ára, Soffía 43 ára og nú Stella 56 ára. Ég gæti skrifað heila bók um þig Stella mín og geri kannski seinna. Það er bara svo margt er leitar á hugann.

Við fengum að alast upp saman þar til ég var 7 ára og þú 11 ára. En þá lést mamma og pabbi fimm árum síðar. Hópurinn tvístraðist eftir lát mömmu, en við héldum alltaf góðu sambandi. Þú fórst ung út í lífið og stóðst þig vel eins og alltaf. 15 ára held ég að þú hafir verið þegar þið Siggi kynntust. Var ekki laust við að ég væri afbrýðisöm út í hann, sem var mesti óþarfi, því hann reyndist mér sem besti bróðir.

12 ára gömul var ég send í sveit sem oftar norður í land og þið Siggi komuð og heimsóttuð mig sælla minninga. Seinna þegar ég var í Miðbæjarskólanum og þú flutt til Sigga þíns og hans foreldra átti ég oft athvarf þar þegar ég þurfti á þér að halda, sem var æði oft. Við systurnar vorum samrýmdar mjög og alltaf var hún boðin og búin til þess að hjálpa, hugga og hlusta á mig.

Ég hafði selt minn hlut í fyrirtæki sem ég átti helming í og þá sagði hún: "Ertu nú ekki of fljótfær eins og svo oft." En þegar ég keypti aðra stofu 1. febr. sl. komu þau hjón strax til þess að hjálpa mér og þá sérstaklega hún. Hún kenndi mér margt þó svo að ég kæmist aldrei með tærnar þar sem hún hafði hælana.

Elsku systir mín, ég veit að vel var tekið á móti þér og að þér líður vel. Sárt er að sætta sig við að þú sért farin, eins lífsglöð og full af orku og þú alltaf varst. En enginn veit hvenær kallið kemur.

"Við áttum dálítið út af fyrir okkur. Bernskuárin með vonum sínum og skelfingum, leyndarmálum sínum og fyrirætlunum. Aðeins við vitum hvað gerir okkur að því sem við vorum. Aðeins við munum litlu ávinningana og vonbrigðin því enginn annar veit hvað að baki lá. Við þekktum það sem bjó innra með okkur." (Pam Brown.)

Elsku Siggi, Dóra, Soffía, Ragnar, Sigga, Einar, Angantýr, Ella og barnabörn, missir okkar er mikill og bið ég góðan guð að gefa okkur öllum styrk.

Agnes Jónsdóttir (systir).