Bjarney Sigríður Jóhannsdóttir Elsku amma okkar er látin. Við kveðjum þig með söknuði og þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við geymum margar fallegar minningar um þig sem eiga eftir að fylgja okkur um ókomna tíð. Þú varst ávallt svo góð við okkur krakkana, alltaf með nýbakaðar vöfflur eða pönsur þegar við komum í heimsókn. Þú varst alvön í eldhúsinu, starfaðir sem matráðskona í mörg ár. Sérstaklega er það okkur minnisstætt þegar við komum til þín í heimsókn þar sem þú vannst á Flókadeildinni. Þá fengum við alltaf eitthvað gott í gogginn í eldhúsinu sem í okkar barnsaugum var risastórt.

Efst í okkar huga er ást þín til alls sem lífsanda dró, hjálpsemi þín og falslaus fórnarlund. Friðarins guð þig sveipi helgri ró, elsku amma.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem) Hjartans kveðjur frá barnabörnum í Bandaríkjunum, Magneu, Lee, Esther og Donald.

Camilla, Haukur, Bjarney, Petrea, Ágústa og Arnar.