Grímur Aðalbjörn Grímsson Hve allt sem í skóla skeði

skín í heillandi ljóma,

andvökur, áminningar,

ástir og fjárhaldsmenn.

Og ýmislegt af þessu stendur

ennþá í fullum blóma

og jörðin er yndisleg enn.

(Tómas Guðm.) Þegar Sigrún hringdi til mín á annan dag hvítasunnu og tilkynnti mér andlát Alla Gríms eins og við skólasystkinin kölluðum hann, komu ótal minningarmyndir upp í huga mér.

Hugurinn hvarflaði til haustsins 1966 þegar hópur af unglingum víðs vegar að af landinu hóf nám í 1. bekk í Reykjaskóla við Hrútafjörð.

Eins og gengur þekktust einhverjir innan hópsins, en bekkurinn var ekki samstilltur til að byrja með, en á þessum aldri er fólk fljótt að kynnast, og fyrr en varði var hópurinn orðinn kröftug heild.

Þarna kynntist ég Alla fyrst og hélst okkar vinátta meðan báðir lifðu.

Á þeim þremur vetrum sem Reykjaskólanámið stóð yfir, var Alli hrókur alls fagnaðar, tilbúinn að spjalla um öll hugsanleg mál sem tekin voru fyrir og hafði oftar en ekki sínar ákveðnu skoðanir á umræðuefninu.

Þá hafði hann ánægju af að stunda frjálsar íþróttir og körfubolta og var einn af bestu fulltrúum bekkjarins í þeim greinum.

Einnig hafði hann gaman af að taka þátt í alls konar sprelli og prakkarastrikum sem stundum voru á dagskrá á þessum árum. Má þar t.d. nefna að hann var einn af okkar hæfustu mönnum að ná mjólk úr eldhúsinu, sem síðan var ef til vill dregin í plastbrúsa upp á efri gang á nýju vistinni, þar var síðan blandað saman við hana með öruggum handtökum Royal búðingi, hann hristur og síðan var haldin veisla meðal hluthafa.

Þegar hópurinn útskrifaðist 1. júní 1969 vorum við 59. Síðan þá hafa verið haldin fjögur ógleymanleg nemendamót. Fimmta nemendamótið verður haldið næsta ár, þá mun þeirra Alla Gríms og Bjarna Frímanns verða sárt saknað af okkur bekkjarfélögunum, en við erum þakklát fyrir að hafa fengið að þekkja Alla þessi ár, og allar minningar honum tengdar eru okkur dýrmæt eign.

Elsku Sigrún og fjölskylda, við vottum ykkur öllum dýpstu samúð okkar og biðjum algóðan Guð að veita ykkur styrk í sorginni.

F.h. skólasystkina frá Reykjaskóla,

Rafn Benediktsson.