Grímur Aðalbjörn Grímsson Vinur minn Grímur Aðalbjörn Grímsson er látinn. Hann varð aðeins 46 ára gamall. Aldurinn er sannarlega ekki hár en eigi að síður var Grímur búinn að reyna afskaplega margt á sinni stuttu ævi og síðustu árin þreyttu sálina. Einhvern veginn fór svo margt öðruvísi en það átti að gera og væntingarnar létu á sér standa. Hann var þó sannfærður um betri daga sem eflaust hefðu orðið, hefði honum enst ævin lengur.

Grímur var afar trúaður maður og minnist ég þess ekki að hafa rætt við óskyldan jafn opinskátt og af meiri einlægni en við Grím. Þykir mér gott að minnast þess nú og mun geyma þá minningu vel. Þetta viðhorf Gríms reyndist mér dýrmætt er ég sjálfur gekk í gegnum mína erfiðustu daga síðastliðinn vetur. Grímur hafði stórt hjarta þó skelin væri hörð. Þeir sem einu sinni hittu hann gleymdu honum ekki, jafnan kappsfullur, stóð fastur fyrir á eigin skoðunum og nokkuð vel, hávær oft á tíðum, enda skapstór. Það gustaði vel af honum hvar sem hann var. Vinnuþjarkur mikill og flest fór honum verklega vel úr hendi.

Fyrirferðarmiklir einstaklingar eru oftar en ekki umtalaðir og þannig var með Grím. Stundum er betra að loka augunum til að sjá betur. Mér reyndist Grímur góður drengur, þó ekki hafi samband okkar verið árekstralaust. Margar góðar stundir átti ég með Grími og einnig með þeim hjónum, nú síðast í Portúgal, þar sem þau hjón ásamt dætrum okkar gerðu afmælisdag minn ógleymanlegan. Maður lærir svo lengi sem andann dregur.

Fyrir mig mun lífshlaup Gríms vera lærdómsríkt og nýtast mér á línudansi lífsins.

Þeim sem honum voru kærastir, eiginkonunni Sigrúnu og börnunum, Öddu, Róbert og Ellu votta ég mína samúð.

Í trúnni fá þau styrkinn og eftir dimma nótt rís bjartur dagur á ný.

Örn Reynir Pétursson.