Ingibjörg Indriðadóttir Þegar það fréttist að Ingibjörg Indriðadóttir kennari frá Höfðabrekku í Kelduhverfi væri látin ákváðum við nokkrir nemendur hennar frá árunum 1955­1957 að hittast og rifja upp gamlar minningar. Sú stund var ljúf og mikilsverð fyrir okkur öll.

Skólaárin 1955­56 og 56­57 var barnaskóli Kelduneshrepps til húsa í Höfðabrekku á nýstofnuðu heimili ungu hjónanna Ingibjargar Indriðadóttur og Jóns Stefánssonar, eða Lillu og Jonna eins og þau voru nefnd meðal sveitunga sinna. Þá var kennt í tveimur deildum, yngri og eldri deild, og sóttu þær skólann til skiptis, fjórar vikur í senn. Bjuggu öll börnin á staðnum nema þau sem áttu heima í allra næsta nágrenni. Nemendafjöldi gat farið upp undir 20. Kennt var í stássstofunni, borðað jafnvel í tveimur hollum í eldhúsinu þar sem Kristín móðir Lillu, fyrrum hótelstýra í Lindarbrekku, réð lengst af ríkjum. Þétt var skipað í svefnherbergi og aðrar vistarverur. Flest okkar voru að fara að heiman í fyrsta skipti til langdvalar. Öllum leið vel, já, svo vel að við nemendur minnumst skólavistarinnar með fögnuði. Þegar við skólasystkinin hittumst gagngert til að minnast Lillu og námsvistarinnar hjá henni lukum við upp einum munni. Efst í huga voru umhyggja, öryggi og umburðarlyndi. Það var gaman í skólanum hjá Lillu. Þar ríkti gagnkvæm virðing og væntumþykja. "Maður fékk ekki einu sinni heimþrá þótt maður væri að fara að heiman í fyrsta skipti." Lilla og Jonni komu fram við okkur eins og þeim væri sérstakur heiður að því að hafa hvert og eitt okkar sem gesti sína. Enginn fann fyrir því að vera fyrir heimafólkinu þótt einkalífi væri þröngur stakkur skorinn. Nám og leikur tvinnaðist saman í eitt. Þannig voru okkur búin einstök skilyrði til þroska. Lillu þótti vænt um okkur eins og við vorum, sýndi okkur áhuga og virti okkur sem einstaklinga. Hún leyfði hverjum og einum að njóta sín. Hún hafði gaman af að kenna, var mannvinur og mannþekkjari. Hún fylgdist með okkur löngu eftir að við vorum farin úr skólanum hjá henni og gladdist yfir velferð okkar. Í bland við lífsgleðina, spaugsemina, sönginn og tónlistina var þessi djúpa alvara og festa sem einkenna góða uppalendur. Strákarnir gleyma því ekki þegar þeir léku einn af meðbræðrum sínum fullgrátt. Það gerðu þeir aðeins einu sinni.

Elsku Lilla okkar. Þú varst kennari og uppalandi af guðs náð og nemendum þínum góð fyrirmynd. Þú varst sterk, hlý, falleg, lífsglöð, fordómalaus og víðsýn. Þú varst í senn náttúrubarn og heimsborgari og bjóst yfir miklu innra öryggi. Þú bauðst samtíðinni birginn á góðlátlegan og gamansaman, en umfram eðlilegan hátt og e.t.v. án þess að taka eftir því sjálf. Þér var víðs fjarri sú hugsun að konur gætu ekki að minnsta kosti verið jafnokar karla og að sveitafólk gæti ekki að minnsta kosti verið jafnokar borgarbúa. Þetta viðhorf var býsna mikilvægt ungu fólki sem ólst upp í fremur þröngu samfélagi hefða og gilda. Sumar stelpurnar þínar eru enn að uppgötva hvað þú varst þeim frábær fyrirmynd í að slíta af sér fjötra hefðbundinnar kvenímyndar. Þú gafst okkur nemendum þínum slíkt veganesti að við erum enn að uppgötva gildi þess og gæði. Þú sýndir okkur að virðingin fyrir mönnum, ungum og öldnum, dýrum og gróðri, já, allri náttúrunni, er afsprengi virðingar mannsins fyrir sjálfum sér og þekkingar hans á umhverfi sínu.

Fyrir allt þetta þökkum við nú af alhug. Um leið og við vottum allri fjölskyldu Lillu einlæga samúð þökkum við Jonna fyrir hans óeigingjarna og stóra þátt í að gera okkur skólavistina ógleymanlega. Fyrir hönd keldhverfskra nemenda í fæðingarárgöngum 1945 og 1946.

Kristrún, Ragna Sigrún, Ingveldur, Bjarni, Baldvin og Ólafur Brynjar.