Kristín Bjarney Ólafsdóttir Þegar ég var í Íþróttamiðstöðinni á Akranesi miðvikudaginn 2. september síðastliðinn, sagði Hallgrímur Ólafsson mér að mín kæra vinkona og skoðanasystir, Kristín, systir hans, hefði látist þá um morguninn. Mér varð hverft við og varð hugsað til þeirra hjóna, Kristínar og Kristmundar, sem hafa verið sem eitt í öllum gerðum á sameiginlegri lífsleið. Hvarvetna um landið hef ég hitt fólk sem á einhvern hátt hefur átt samleið og samskipti við Kristínu ljósmóður og Kristmund og ávallt verið beðinn fyrir hlýjar kveðjur til þeirra. Þetta ásamt mörgu öðru hvarflaði um hugann í einveru og þögn í kjölfar orða Halla sem svaraði þegar ég spurði um Kristínu: Hún dó í morgun, vinur, klukkan 11. Svo tókumst við í hendur ­ orð voru óþörf.

Kynni okkar Kristínar hófust fyrir alvöru þegar ég fór að hafa afskipti af stjórnmálum 1984­86. Ég hafði kannast við Kristínu ljósmóður gegnum bræður hennar Samma og Halla og af góðu orðspori við ljósmóðurstörf til langs tíma. Ágætur látinn vinur okkar beggja sem var samstarfsmaður minn og félagi í Sementsverksmiðjunni, Hannibal Einarsson, fyllti síðan út í með lýsingu á gæðamanneskju sem Kristín reyndist mér og öðrum sem áttu með henni samleið.

Starf og félagsskapur Kristínar við okkur í kjördæmisráði Alþýðuflokksins á Vesturlandi og fyrir okkar hönd á flokksþingum og í flokkstjórn Alþýðuflokksins var leyst af einlægni og réttsýni sem við félagarnir þökkum að leiðarlokum. Þátttaka í félagsstarfi Alþýðuflokksfélags Akraness var á sama hátt, allt jákvætt með hvatningu og einlægni.

Undirritaður og fjölskylda hafa notið ógleymanlegrar ástúðar og hlýju Kristínar og Kristmundar á liðnum árum.

Lífshlaup Kristínar verður ekki rakið í þessari grein, en aðeins getið um það sem lýtur að persónulegum kynnum og félagsskap. Kristín vildi enga deyfð heldur kátínu og hresst fólk í kringum sig, þannig munum við hana allir vinir og félagar. Hún vildi ekki ræða um sjúkdóm sinn, heldur hvatti til baráttu fyrir því sem lýtur að almannaheill.

Við kveðjum með söknuði og vottum þér kæri vinur, Kristmundur, og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúð. Við vitum að í minningu Kristínar mun jafnrétti og bræðralagshugsjónin verða okkur leiðarljós á komandi tímum sem væri hún í okkar hópi.

Fyrir hönd kjördæmisráðs Alþýðuflokksins á Vesturlandi.

Edda og Gísli S. Einarsson.