Kristín Bjarney Ólafsdóttir Í febrúarmánuði fyrir 76 árum fæddist ömmu minni og afa lítil stúlka að Dynjanda í Leirufirði þar sem Drangajökull gnæfir fyrir enda fjarðarins og skríður fram og hopar eftir eigin lögmálum og umhverfisins. Þessi litla stúlka hlaut nafnið Kristín Bjarney Ólafsdóttir og var fyrsta barn foreldra sinna sem þá voru búsett í föðurhúsum ömmu. Þau fluttu með stúlkuna aðeins nokkurra mánaða gamla og settust að hinum megin við Drangajökul, í Reykjarfirði á Ströndum. Þar ólst hún upp fyrstu fimm árin í stækkandi systkinahópi og þegar afi og amma fluttu í Furufjörð þar sem þau áttu eftir að búa næsta aldarfjórðunginn voru börnin orðin fjögur. Í Furufirði stækkaði hópurinn enn og þau urðu sjö systkinin sem upp komust. Það sem einkenndi þennan systkinahóp var samheldni og væntumþykja öðru fremur enda voru þau alin upp við guðsorð og góða siði hjá kærleiksríkum foreldrum og í samfélagi þar sem samhjálpin var undirstaða þess að fólk kæmist af við erfiðar aðstæður. Og þó fólkið hafi dreifst og aðstæður breyst þá búum við sem yngri erum enn að þessum arfi. Hún Stína móðursystir okkar var glæsilegur fulltrúi þessa góða, trausta og félagslynda fólks úr Jökulfjörðum og af Ströndum.

Starfsval hennar var í beinu framhaldi af þeim bakgrunni sem hún hafði úr foreldrahúsum. Hún bar fallegasta starfsheiti sem til er í íslenskri tungu; ljósmóðir. Það var hún af lífi og sál í hálfa öld. Börnin sem hún hjálpaði í heiminn eru mörg og konurnar sem nutu þess að hafa hana hjá sér á þessari einstæðu stund lífsins minnast hennar með hlýju og þakklæti. Þau þrjátíu ár sem Stína bjó á Ísafirði voru þær margar langt að komnar konurnar sem hún tók inn á heimili sitt og sinnti meðan þær voru að bíða eftir fæðingu. Og oft var hún tímunum saman í burtu frá manni og börnum þegar litlir einstaklingar þurftu að komast í heiminn. Þá er ekki spurt hvernig standi á í heiminum fyrir utan. En allt gekk þetta því maðurinn hennar, hann Bubbi, stóð þétt við bakið á konu sinni og ekki má gleyma systur hans, Önnu, sem var á heimilinu meðan börnin þrjú voru lítil. En Stína frænka var ekki alltaf einhvers staðar að taka á móti börnum. Það var mikill samgangur milli heimilanna meðan við bjuggum á Ísafirði enda amma og afi í sambýli við foreldra okkar í Fjarðarstrætinu. Þegar við fluttum suður minnkaði að vísu samgangurinn en sambandið hélst og í hugum okkar var nærvera Stínu alltaf sterk þó hún væri ekki á staðnum. Enda náði ljósmóðurheitið yfir alla hennar persónu. Frá henni stafaði ljósi manngæsku og kærleika sem allir þeir fundu sem eitthvað höfðu af henni að segja.

Það er margs að sakna og skammt stórra högga á milli í þessum samheldna systkinahóp úr Furufirði. Það er stutt síðan allt var eins og það hafði alltaf verið. En nú eru tvær af systrunum þremur farnar með innan við árs millibili og ein er horfin á vit alzheimersjúkdómsins sem girðir fyrir allt venjulegt líf. Eftir standa bræðurnir þrír og við hin af næstu og þarnæstu kynslóð. Enn ein stoðin í tilveru okkar er fallin og það verður skrítið að koma í Leirufjörðinn næst án Stínu. Þangað fóru þau helst hvert sumar hjónin og sú dvöl gaf þeim óendanlega mikið því ræturnar voru sterkar. Nú sitjum við ekki framar á pallinum fyrir framan tjaldhýsið þeirra við Dynjandisána og njótum náttúrufegurðarinnar við rætur Drangajökuls. Hún gengur ekki með okkur oftar um jörðina á Dynjanda og kennir okkur örnefnin. Og ekki verður úr ferðinni sem við ætluðum að fara í Furufjörð. En svona er lífið. Og þó að Stína sé horfin eigum við minningarnar eftir og þær munum við geyma. Við þökkum bara fyrir allt og allt og vottum Bubba, Lóló, Kiddýju, Svavari og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.

Hulda Björg, Haukur, Anna Margrét og Ólafur Atli.