KRISTÍN BJARNEY ÓLAFSDÓTTIR

Kristín Bjarney Ólafsdóttir fæddist á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi N-Ísafjarðarsýslu 21. febrúar 1922. Hún andaðist í Landspítalanum 2. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Matthías Samúelsson, fæddur í Skjaldabjarnarvík á Ströndum 21. maí 1890, d. 17.8. 1960 og Guðmundína Einarsdóttir fædd á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi, 15.12. 1901, d. 4.8. 1987. Þau bjuggju í Reykjafirði til ársins 1927 en þá fluttust þau til Furufjarðar og voru búsett þar til 1944 og fluttust þá til Ísafjarðar. Systkini Kristínar eru: 1) Guðný, f. 29.10. 1919, d. 6.6. 1969. 2) Inga Hanna, f. 22.7. 1923 3) Hallgrímur, f. 21.10. 1924. 4) Magna, f. 14.9. 1926, d. 6.12. 1997. 5) Einar Jakob, f. 29.8. 1928, dó hálfu ári síðar. 6) Samúel, f. 29.8. 1928. 7) Einar Bærings, f. 6.10. 1930, d. 17.6. 1965. 8) Kristján, f. 22.2. 1941.

8. apríl 1944 giftist Kristín Kristmundi Breiðfjörð Bjarnasyni, bifreiðstjóra á Ísafirði og síðar starfsmanni Rafveitu Akraness, f. 24. janúar 1914. Foreldrar Kristmunds voru Ólína Salóme Guðmundsdóttir ljósmóðir, f. 9.5. 1880, d. 16.8 1970 og Bjarni Einar Kristjánsson, járnsmiður og landpóstur, f. 8.3. 1873, d. 24.8. 1960. Börn Kristínar og Kristmunds eru: 1) Ólöf Guðmunda, f. 12.8. 1943 á Ísafirði, maki Samúel Þór Samúelsson. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. 2) Kristín Breiðfjörð, f. 18.9. 1944 á Ísafirði, maki Ríkharð Óttar Þórarinsson, d. 23.1. 1996. Þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn. 3) Svavar Cesar, f. 2.8. 1947, maki Guðný Helga Kristjánsdóttir. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn.

Kristín útskrifaðist sem ljósmóðir 1942 og starfaði við það alla sína starfsævi, fyrst í Eyrarhreppi N-Ísafjarðarsýslu, síðan á Ísafirði, en fluttist á Akranes um 1972 og starfaði á Sjúkrahúsi Akraness til 69 ára aldurs er hún lét af störfum.

Útför Kristínar fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 14.