Kristín Bjarney Ólafsdóttir Elsku Stína mín. Ég vil þakka þér fyrir allar yndislegu stundirnar sem við höfum átt saman í gegnum tíðina. Ég kynntist þér fyrst 1975 er ég kynntist honum Óla mínum. Svo þegar ég átti von á okkar fyrsta barni 1977. Þá baðstu um það svona óbeint að þú yrðir kölluð út þegar að fæðingunni kæmi. Það var gert kl. sjö á sunnudagsmorgni. Enga hefði ég kosið frekar en þig til að vera hjá mér þá, því hann Óli minn var úti á sjó. Sú stund og allar hinar eru sem gimsteinar í minningunni um þig elsku frænka.

Þú gast ekki verið hjá mér þegar hann Gunni fæddist en hugsaðir um mig allann tímann á spítalanum. Svo kom að Jóni Val. Þú hafðir alltaf svo miklar áhyggjur af honum og hefur alltaf sagt að hann hafi byrjað fyrirferðina sem fóstur í móðurkviði. Dýrmætasta stundin sem ég hef átt með þér er þegar þú tókst á móti Guðnýju Birnu. Stundin sem við áttum saman eftir fæðinguna, þegar við vorum bara tvær eftir einar og féllumst í faðma og grétum báðar. Þá trúðirðu mér fyrir því að þú hefðir alltaf kviðið svolítið fyrir þessu. Við vitum allt um þetta ég og þú, elsku Stína mín.

Ég á svo margar góðar minningar um þig í þessi 23 ár og þær ætla ég að geyma. Þakka sér elsku frænka fyrir allt og allt, allan hlýhug og elsku í okkar garð alla tíð. Guð blessi þig.

Þín

Sigþóra.