SKÝRSLA sú sem saksóknarinn Kenneth Starr afhenti Bandaríkjaþingi á miðvikudag og gerð var opinber á föstudag hefur valdið pólitísku uppnámi í Bandaríkjunum. Í skýrslunni gerir saksóknarinn ítarlega úttekt á sambandi Bill Clintons Bandaríkjaforseta og Monicu Lewinsky,
Dóms þjóðarinnar beðið

Skýrsla Kenneth Starrs um samband Bill Clintons og Monicu Lewinsky hefur vakið blendin viðbrögð í Bandaríkjunum. Nákvæmar kynlífslýsingar skýrslunnar hafa valdið deilum og saksóknarinn verið gagnrýndur fyrir að ganga alltof langt í rannsókn sinni á málefnum forsetans. Hins vegar ríkir gífurleg óvissa um hið pólitíska framhald málsins og flestir þingmenn virðast vilja bíða og sjá hvernig hinir pólitísku vindar munu blása á næstu dögum.

SKÝRSLA sú sem saksóknarinn Kenneth Starr afhenti Bandaríkjaþingi á miðvikudag og gerð var opinber á föstudag hefur valdið pólitísku uppnámi í Bandaríkjunum. Í skýrslunni gerir saksóknarinn ítarlega úttekt á sambandi Bill Clintons Bandaríkjaforseta og Monicu Lewinsky, er starfaði sem lærlingur í Hvíta húsinu. Starr rekur hvernig samskipti þeirra þróuðust í kynferðislegt samband og tínir til minnstu smáatriði í nánustu samskiptum forsetans og stúlkunnar. Hann styður framburð hennar með framburði fjölmargra annarra vitna, skrám yfir símtöl og viðveruskráningu í Hvíta húsinu svo eitthvað sé nefnt.

Það er niðurstaða saksóknarans að forsetinn hafi gerst sekur um meinsæri er hann neitaði því eiðsvarinn við yfirheyrslu í máli Paulu Jones að hann hefði átt í kynferðislegu sambandi við Lewinsky. Hann hafi svo aftur framið meinsæri í yfirheyrslu hjá kviðdómi Starr í ágúst. Saksóknarinn telur einnig sannað að forsetinn hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar og misnotað embættisvöld sín. Alls nefnir hann í skýrslu sinni ellefu atriði, sem hann telur grundvöll málshöfðunar af hálfu þingsins er leitt gæti til embættissviptingar.

Starr fylgir röksemdafærslu sinni eftir af mikilli hörku í skýrslunni og hvað eftir annað gerir hann lítið úr málflutningi forsetans við yfirheyrslur. Nú bíður forsetans það erfiða verkefni að sannfæra þingið og þjóðina um að hann verðskuldi ekki að verða sviptur embætti. Þegar á föstudag virtist ljóst að forsetinn myndi beita tvíþættri vörn. Annars vegar að halda áfram að lýsa því yfir opinberlega að hann iðrist þess að hafa átt í sambandi við Lewinsky og höfða þar með til samúðar þjóðarinnar. Takist forsetanum að halda fylgi sínu meðal almennings má telja ólíklegt að þingið grípi til málshöfðunar. Hins vegar er ljóst að lögfræðingar forsetans munu ráðast á skýrslu Starrs af fullri hörku, halda fast við að framburður forsetans hafi verið gefinn í góðri trú og reyna að sýna fram á að annarlegar pólitískar hvatir liggi að baki skýrslunni en ekki lagaleg rök og leit að réttvísi.

Einlægni eða stöðumat?

Bill Clinton hóf föstudaginn á því að ávarpa árlegan fund trúarleiðtoga í Hvíta húsinu. Ræða hans þótti mögnuð og einlæg og greinilegt var að erfiðar tilfinningar bærðust í brjósti forsetans á meðan hann flutti hana. Clinton bað alla málsaðila fyrirgefningar en hét því jafnframt að berjast áfram og lýsti því yfir að lögfræðingar hans myndu einskis láta ófreistað til að verjast skýrslu Starrs. "Það má hins vegar ekki breiða yfir það með lögfræðilegum hártogunum að það sem ég gerði var rangt," sagði Clinton.

Viðbrögðin við ræðu forsetans voru misjöfn. Bandarísk blöð hafa eftir sumum ónefndum samstarfsmönnum að þetta hefði verið ræðan sem hann hefði átt að flytja er málið kom fyrst upp á yfirborðið. Aðrir líktu ræðunni við ræðu sjónvarpspredikarans Jimmy Swaggart árið 1988 er bað grátandi um fyrirgefningu eftir kynlífshneyksli. Flestir þeirra trúarleiðtoga er tjáðu sig um málið voru hins vegar hrærðir og töldu forsetann hafa tekið skref í rétta átt.

Í Washington Post í gær er lýst yfir efasemdum um að ræðan muni afla forsetanum samúðar. Haft er eftir stjórnmálasérfræðingi við Harvard-háskóla að ekki sé ljóst hvort ræðan hafi endurspeglað tilfinningar eða stöðumat forsetans. Öðru máli hefði gegnt ef ræðan hefði verið flutt fyrr.

Clinton flutti einnig ræðu á föstudag við minningarathöfn um fórnarlömb sprengjutilræðanna í Kenýa og Tansaníu og á föstudagskvöld var haldin athöfn á suðurtúni Hvíta hússins er forsetahjónin tóku þátt í. Þar heiðruðu Bandaríkjamenn af írskum uppruna forsetann fyrir framlag hans til friðar á Norður- Írlandi. Fjölmargir ræðumenn hældu forsetanum á hvert reipi og fór greinilega vel á með Bill og Hillary Clinton á meðan á ræðuhöldunum stóð. Þau sátu hlið við hlið, hvísluðust oft á og brostu.

Lögfræðingar hefja gagnsókn

Lögfræðingar Clintons höfðu fyrr um daginn hafið daginn gagnsókn, líkt og forsetinn hafði boðað í ræðu sinni í bænamorgunverðinum. Áður en skýrsla Starrs var gerð opinber lagði David Kendall, lögfræðingur forsetans, fram 78 síðna greinargerð þar sem málsmeðferð Starrs er gagnrýnd harðlega og sú ákvörðun að leyfa forsetaembættinu ekki að kynna sér innihald skýrslunnar fyrirfram fordæmd.

Það var ljóst af máli Kendalls að forsetinn mun að hluta til byggja vörn sína áfram á því að ummæli hans við yfirheyrslur hafi verið lagalega rétt þó að þau kunni að hafa verið misvísandi. Kendall lagði áherslu á að þar með væri ekki um meinsæri að ræða óháð því hversu afvegaleiðandi ummælin hefðu verið. Vel gæti verið að einstaklingar minntust einstakra atburða með ólíkum hætti. Þar með væri þó ekki sagt að þeir væru að ljúga.

Þá gerði hann harða hríð að saksóknaranum fyrir að kafa ofan í einkalíf forsetans og velta sér upp úr smáatriðum varðandi kynferðislegt samband hans og Monicu Lewinsky. Markmið Starrs væri að "auðmýkja, niðurlægja og koma pólitísku höggi" á forsetann. Ekkert réttlæti að hafa jafnnákvæmar kynlífslýsingar í skýrslunni og raun ber vitni. "Það eru margar svæsnar ásakanir í skýrslu saksóknarans en engin trúverðug sönnunargögn um að forsetinn hafi brotið af sér með þeim hætti að það gefi tilefni til málshöfðunar," sagði Kendall á blaðamannafundi. Hafnaði hann öllum helstu ásökunum Starrs.

Charles Ruff, lögfræðingur forsetaembættisins, sem einnig sat blaðamannafundinn sagði ásakanir um að forsetinn hefði misnotað embættisvöld sín vera "þvætting".

Kendall sagði að hann væri sannfærður um að málsmeðferð þingsins yrði sanngjörn en hann hefur átt fund með formanni dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar.

Lögmenn forsetans voru spurðir á blaðamannafundi á föstudagskvöld hvort þeir teldu líkur á að forsetinn gæti sætt sig við mildari refsingu en málshöfðun til embættismissis, á borð við þingvítur. Ruff svaraði spurningunni ekki beint en á orðum hans mátti skilja að ekki væri hægt að útiloka þann kost.

Eftirsjá meðal þingmanna

Þær opinskáu lýsingar á kynferðislegu sambandi Clintons og Lewinsky, sem lesa má í skýrslu Starrs kom mörgum í opna skjöldu. Vissulega hafði verið ljóst um nokkurt skeið að lýsingar á kynferðislegum athöfnum yrðu hluti skýrslunnar en fæstir áttu von á því að sumar fréttastofur myndu telja sig knúnar til að merkja einstök fréttaskeyti með viðvörun til viðkvæmra lesenda.

Svo virðist sem sumir af hörðustu andstæðingum Clintons hafi séð eftir því að hafa gert skýrsluna opinbera eftir að hafa kynnt sér innihald hennar. "Ég hef líklega aldrei lesið jafnbersöglar lýsingar áður," sagði repúblikaninn Mark Souder, sem hvatt hefur til afsagnar Clintons. Í samtali við Washington Post segir Souder að líklega sé enginn Bandaríkjamaður sáttur við að kafað sé þetta djúpt ofan í kynlíf annars einstaklings. Annar þingmaður repúblikana, Clay Shaw, krafðist þess að skýrslan yrði tekin af netinu nokkrum klukkustundum eftir að hann hafði greitt tillögu um opinberun hennar atkvæði.

Demókratinn James Moran, sem greiddi atkvæði gegn tillögunni, sagði að þingmenn hefðu tekið ákvörðun um að breyta bandarísku þjóðinni í "gluggagægja".

Rök Starrs fyrir því að tína til einstök smáatriði kynferðislegra athafna eru þau að það hafi verið nauðsynlegt til að sýna fram á að forsetinn hafi logið eiðsvarinn. Margir bandarískir lagasérfræðingar létu hins vegar í ljós þá skoðun, eftir að hafa séð skýrsluna, að þetta væri óþarft. Hægt hefði verið að lýsa því sem fram fór án þess að tína til smáatriði. Einn þeirra sagði að til samanburðar mætti nefna að ekki þyrfti að sýna afskorið höfuð fórnarlambs til að sanna að viðkomandi hefði látið lífið.

Sumir voru þó þeirrar skoðunar að Starr hefði verið knúinn til að semja skýrslu sína á þennan hátt. Ekki hefði verið nóg að sanna að kynlíf hefði verið í spilinu heldur að tilteknar kynferðislegar athafnir hefðu átt sér stað sem stönguðust á við framburð forsetans. Paul Rothstein, lagaprófessor við Georgetown-háskóla, segir nauðsynlegt að sýna fram á eðlis málsins vegna hver hafi snert hvern og hvar. "Það er hins vegar hræðilegt að þetta sé niðurstaðan," sagði hann.

Mikið áfall fyrir forsetann

Flestir þingmenn sem hafa tjáð sig um málið virðast sammála um að viðbrögð almennings við skýrslunni muni ekki skýrast fyrr en eftir nokkra sólarhringa. Margir sögðust vilja kynna sér efni skýrslunnar fyrst og sjá andsvör forsetans. Ljóst er þó að skýrslan er mikið áfall fyrir Clinton þó svo að ljóst hafi verið um nokkurt skeið að hún yrði honum síður en svo hagstæð. Bent hefur verið á að það sé forsetanum í óhag að umræðan byggist ekki lengur á vangaveltum heldur tilteknum staðreyndum.

Það er síðan annað mál hvort skýrslan gefi jafnríkt tilefni til málshöfðunar til embættismissis og Starr telur. Nokkrir stuðningsmanna forsetans hafa látið að því liggja að málið snúist um persónulega herferð Starrs gegn forsetanum. "Þetta er ekki traustur grunnur fyrir málshöfðun," sagði þingmaðurinn Chakah Fattah.

Annar þingmaður, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði við Washington Post að ef Clinton þraukaði næstu viku yrði það bakslag fyrir Starr. Almenningi byði við að "rusl" af þessu tagi væri fært inn á heimili þeirra.

Hins vegar gerir það stöðuna flóknari að einungis sjö vikur eru til þingkosninga og líklega munu flestir þingmenn bíða með að taka endanlega afstöðu til málsins þangað til þeir sjá viðbrögðin í kjördæmum sínum. Það verður því fylgst grannt með skoðanakönnunum næstu daga. Nokkrar kannanir eru þó þegar farnar að benda til að fylgi Clintons fari dvínandi, ekki síst meðal eldri borgara.

Sumir þingmenn létu í ljós vantrú á því að forsetinn gæti endurheimt fyrri stöðu. Öldungadeildarþingmaðurinn Robert Bennet sagði að hugsanlega myndi Clinton geta hangið í embætti líkt og Lyndon B. Johnson á sínum tíma. "Hann mun hins vegar hvergi njóta virðingar. Samúðar hugsanlega, en ekki virðingar," sagði Bennet.

Fáir leiðtoga demókrata hafa viljað lýsa eindregnum stuðningi við Bandaríkjaforseta síðustu daga. Dæmi um viðbrögð demókrata er yfirlýsing Madeleine Albright utanríkisráðherra, er varði forsetann með oddi og egg er málið kom upp í byrjun árs. Eftir ríkisstjórnarfund á föstudag, sagðist hún telja gjörðir forsetans rangar, svo og blekkjandi ummæli hans til ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar. Hún hefði hins vegar ákveðið að taka afsökunarbeiðni hans til greina.

Valkostir Clintons

Færa má rök fyrir því að þótt örlög Clintons séu nú formlega séð í höndum þingmanna verður það þróun almenningsálitsins, sem mun ráða úrslitum. Blaðið New York Times segir í fréttaskýringu í gær að stjórnkerfið í Washington hafi í raun ekki hugmynd um hvernig það eigi að bregðast við. Engin fordæmi séu fyrir þessari furðulegu uppákomu. Enn sem komið er bendi jafnframt ekkert til annars en að Clinton myndi ná endurkjöri ef kosið væri nú og hann gæti boðið sig fram. Þingmenn muni því vart hrófla við sitjandi forseta, er tvívegis hefur verið kjörinn af þjóðinni, nema þeir telji að þeirra eigin starfsferill sé í hættu.

Blaðið segir að forsetar séu ávallt veikir fyrir á síðari hluta síðara kjörtímabils þeirra. Það veiki svo stöðu Clintons enn frekar að tengsl hans við þingið séu veik. Clinton hefur aldrei setið á Bandaríkjaþingi og ekki eytt miklum tíma í að efla tengsl sín við þingmenn. Margir þingmenn demókrata telja sig því ekki skuldbundna forsetanum á neinn hátt. Tom Daschle, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hefur til að mynda lýst því yfir í samtali við Wall Street Journal að hann líti ekki á það sem hlutverk sitt að vera talsmaður forsetans heldur að tryggja að hann fái sanngjarna meðferð. Á því sé mikill munur.

Blaðið segir að sú staðreynd að lögfræðingar Clintons hafi ekki viljað útiloka einhvers konar málamiðlun við þingið um að samþykktar verði vítur á forsetann geti komið í veg fyrir að málið dragist á langinn. Annars geti málið tekið marga mánuði og það sé langur tími í pólitík.

Þá verði forsetinn að gera það upp við sig á hvaða forsendum hann vilji sitja áfram í embætti. Hann muni vissulega halda flugvél forsetaembættisins og lúðrasveit, hitta erlenda leiðtoga jafnt sem innlenda verði hann ekki hrakinn úr embætti. Hin siðferðislega forysta er geri forsetann að valdamanni sé hins vegar í molum og erfiðara geti reynst að bæta úr því en að afla nægilegs fylgis í öldungadeildinni til að koma í veg fyrir embættissviptingu.