"Það er ekki hægt að orða það á snyrtilegan hátt. Ég hef syndgað," sagði Clinton er hann ávarpaði árlegan fund trúarleiðtoga á föstudag. Í tilfinningaþrunginni ræðu sagði Clinton tárvotur að hann hefði vakað fram eftir nóttu og velt því fyrir sér hvað hann ætti að segja í ræðu sinni.
"Ég hef syndgað"

"Það er ekki hægt að orða það á snyrtilegan hátt. Ég hef syndgað," sagði Clinton er hann ávarpaði árlegan fund trúarleiðtoga á föstudag. Í tilfinningaþrunginni ræðu sagði Clinton tárvotur að hann hefði vakað fram eftir nóttu og velt því fyrir sér hvað hann ætti að segja í ræðu sinni. "Og þótt óvenjulegt sé, þegar ég er annars vegar, þá reyndi ég að koma hugsunum mínum á blað," sagði forsetinn og baðst velvirðingar á því að hann kynni að þurfa að taka upp gleraugu sín til að geta lesið rithönd sína. Clinton sagðist sammála þeim er væru þeirrar skoðunar að hann hefði ekki verið nægilega fullur iðrunar er hann ávarpaði þjóðina í kjölfar yfirheyrslu Starrs í ágúst. "Það er mikilvægt fyrir mig að allir þeir sem ég hef sært viti að sorg mín er einlæg. Í fyrsta lagi og fyrst og fremst fjölskylda mín, þá vinir mínir, starfsfólk og ríkisstjórn, Monica Lewinsky og fjölskylda hennar og bandaríska þjóðin.

Ég hef beðið alla um fyrirgefningu. En fyrirgefning krefst ekki einungis sorgar að mínu mati heldur að minnsta kosti tvenns til viðbótar.

Í fyrsta lagi einlægrar iðrunar, staðfestu til að breytast og til að bæta fyrir þann skaða sem ég hef valdið.

Ég hef iðrast.

Í öðru lagi þess sem Biblían kallar sundurmarinn anda, sannfæringar um að ég verði að njóta aðstoðar guðs til að verða sú manneskja sem ég vil vera, vilja til að veita sjálfur þá fyrirgefningu sem ég æski, höfnun á stolti og reiði sem brenglar dómgreindina og fær fólk til að afsaka sig, bera sig saman við aðra, ásaka og kvarta.

Hvaða þýðingu hefur þetta, fyrir mig og okkur öll?

Fyrir það fyrsta mun ég gefa lögmönnum mínum fyrirmæli um að undirbúa sterka vörn og beita öllum viðeigandi rökum, án þess að nota lagamál til að breiða yfir þá staðreynd að ég hef breytt ranglega.

Í annan stað mun ég halda áfram á braut iðrunarinnar, leita stuðnings presta og annars kærleiksríks fólks, svo það geti gert mig ábyrgan fyrir skuldbindingu minni.

Í þriðja lagi mun ég auka viðleitni mína til að leiða land okkar og allan heiminn í átt til friðar og frelsis, velmegunar og eindrægni, í von um að með sundurmörðum anda og sterku hjarta geti ég þjónað almannaheill, því við njótum blessunar og stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum, og við höfum mörg verk að vinna. Ég bið ykkur um að biðja fyrir því og óska aðstoðar ykkar við að græða sár þjóðarinnar.

Og þótt ég geti ekki komist undan eða gleymt þessu ­ og raunar verð ég ávallt að líta til þess sem varnaðarljóss í lífi mínu ­ er mjög mikilvægt að þjóð okkar stefni fram á við.

Ég er mjög þakklátur því fjölmarga fólki, bæði prestum og almennum borgurum, sem hafa skrifað mér og gefið mér góð ráð. Ég er einlæglega þakklátur fyrir stuðninginn sem mér hefur verið sýndur af svo mörgum Bandaríkjamönnum, sem virðast þrátt fyrir allt gera sér grein fyrir því að mér er annt um þá, að mér er annt um vandamál þeirra og drauma.

Ég er þakklátur þeim sem hafa staðið með mér og sagt að í þessu máli sem og mörgum öðrum hafi friðhelgi einkalífsins verið rofin.

Það kann að vera rétt, en í þessu tilviki gæti það þó hafa verið blessun, því ég syndgaði vissulega. Og ef iðrun mín er einlæg, og geti ég haft bæði sundurmarinn anda og sterkt hjarta, þá getur þetta orðið til góðs fyrir land okkar, sem og fyrir mig og fjölskyldu mína."

Clinton vitnaði í Yom Kippur- bókina, þar sem guð er ákallaður og beðinn um að veita mönnunum styrk til að snúa til betri vegar og viðurkenna misgjörðir sínar, því það kosti mikla áreynslu og sársauka. Í lok ræðunnar óskar Clinton þess sama.

"Ég bið ykkur um að deila bæn minni um að guð muni leita mín og kanna hjarta mitt, reyna mig og þekkja kvíðann sem býr í hjarta mínu, og leiða til mig í átt til eilífs lífs.

Ég bið guð um að veita mér hreint hjarta.

Lát mig breyta samkvæmt trú en ekki sýnd. Ég bið enn um að vera fær um að elska náunga minn, alla náunga mína, eins og sjálfan mig, um að vera verkfæri guðs, um að orð mín, hugsanir og gjörðir leiði til góðs.

Þetta vildi ég segja við ykkur í dag. Þakka ykkur fyrir. Guð blessi ykkur".

Nokkrir þeirra trúarleiðtoga, sem voru viðstaddir, höfðu orð á því að ræða forsetans hefði leitt hugann að 51. sálmi, einum þekktasta iðrunarsálmi Biblíunnar. Sálmurinn er eignaður Davíð konungi, og litið er á hann sem ákall hans til guðs eftir að hann hafði framið hjúskaparbrot með Bathsebu og sent eiginmann hennar í stríð þar sem dauðinn beið hans.

T.D. Jakes, biskup safnaðar í Dallas, var einn þeirra sem áttaði sig á tilvísuninni. Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort Clinton væri nógu sundurmarinn til að iðrast, en samt nógu sterkur til að vera við stjórnvölinn. Í sálminum má finna bæn um að hljóta hvort tveggja, styrk og náð.