Trúnaðarmannakerfi Blindrafélags Íslands er ný stuðningsþjónusta blindra og sjónskertra við aðra blinda og sjónskerta, sem og aðstandendur þeirra. Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi segir að Blindrafélagið hafi stefnt að því til margra ára að setja á laggirnar stuðningskerfi fyrir þennan hóp. Undirbúningur stóð yfir síðastliðinn vetur og hinn 1.
­ ­ ­ STOFNANDI:: HELGA \: \: Trúnaðarmannakerfi Blindrafélagsins Stuðningsþjónusta fyrir blinda og sjónskerta

Trúnaðarmannakerfi Blindrafélags Íslands er ný stuðningsþjónusta blindra og sjónskertra við aðra blinda og sjónskerta, sem og aðstandendur þeirra. Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi segir að Blindrafélagið hafi stefnt að því til margra ára að setja á laggirnar stuðningskerfi fyrir þennan hóp. Undirbúningur stóð yfir síðastliðinn vetur og hinn 1. júní í sumar var síðan gerður samstarfssamningur við þrjá blinda og sjónskerta einstaklinga um að gegna starfi trúnaðarmanna, þ.e. þau Arnheiði Björnsdóttur, Ragnar R. Magnússon og Sigrúnu Jóhannsdóttur. Alls sóttu 15 aðalfélagar hæfnisnámskeið til þess að geta sinnt ýmsum málum sem upp kunna að koma að hennar sögn.

­ Hverjir geta orðið trúnaðarmenn Blindrafélagsins?

"Trúnaðarmenn Blindrafélagsins eru blindir og sjónskertir aðalfélagar sem sérstaklega eru ráðnir til þess að veita öðrum blindum og sjónskertum og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning að undangenginni sérstakri þjálfun. Foreldrar blindra og sjónskertra barna geta einnig verið trúnaðarmenn fyrir foreldra í svipaðri stöðu. Sjónstöð Íslands og augnlæknar eru helstu tilvísendur, en félagsmenn og aðstandendur geta einnig óskað eftir þjónustu trúnaðarmanna. Tilvísanir eru sendar félagsráðgjafa Blindrafélagsins sem sér um að koma á tengslum við trúnaðarmann eins fljótt og auðið er."

­ Hvert er verkefni trúnaðarmannsins?

"Starf trúnaðarmanns er að veita andlegan stuðning þeim sem hafa misst eða eru að missa sjón og aðstandendum þeirra. Ef trúnaðarmaður telur þörf á faglegri aðstoð vísar hann málinu til Sjónstöðvarinnar eða félagsráðgjafa Blindrafélagsins. Trúnaðarmaðurinn á að geta veitt upplýsingar um réttindi og þjónustu við blinda og sjónskerta en veiting frekari upplýsinga um félagsleg réttindi verður í höndum félagsráðgjafa Blindrafélagsins. Trúnaðarmanni er til dæmis ætlað að hvetja skjólstæðing sinn til þess að hafa samband við Sjónstöðina ef hann telur að ný hjálpartæki eða endurhæfing komi skjólstæðingi hans til góða. Einnig er ætlast til að hann hvetji skjólstæðing sinn til virkrar þátttöku í samfélaginu standi hugur hans til slíks. Hann getur verið fyrirmynd um það hvernig hægt er að lifa eðlilegu og innihaldsríku lífi sem blindur eða sjónskertur einstaklingur. Trúnaðarmaðurinn bæði gefur af sjálfum sér og miðlar af þekkingu og reynslu en enginn er hæfari til þess að leiðbeina þeim sem eru að missa sjón eða hafa misst sjón en sá sem þegar er blindur eða sjónskertur. Blindur eða sjónskertur trúnaðarmaður getur auðveldlega sett sig í spor þess sem aðstoðina sækir. Loks má geta þess að hann er bundinn þagnarskyldu um það sem hann verður áskynja í starfi sínu sem varðar skjólstæðinga hans. Jafnframt er vinna trúnaðarmannsins undir faglegri stjórn félagsráðgjafa og allir trúnaðarmenn hafa eða munu sækja námskeið."

­ Hvernig hefur reynslan verið af starfi trúnaðarmanna?

"Á undirbúningstímanum að stuðningsþjónustunni varð þegar til biðlisti með nöfnum blindra og sjónskertra sem höfðu óskað eftir því að fá heimsókn einhvers sem sjálfur ætti sömu reynslu að baki. Frá 1. júní síðastliðnum höfum við sinnt 128 einstaklingum. Hluti þeirra kom til vegna beiðni eins og fyrr er getið en þar sem Sjónstöðin er lokuð á sumrin ákváðum við að byrja á því að hringja í alla félagsmenn Blindrafélagsins sem fæddir eru fyrir 1920, eða 97 einstaklinga. Þannig var þeim sinnt sem á einhvern hátt höfðu setið á hakanum í starfseminni og trúnaðarmönnunum jafnframt veitt þjálfun. Hver og einn, sem haft var samband við án þess að hafa óskað eftir því sjálfur, var afskaplega ánægður með að fá slíka upphringingu. Fólk var spurt hvort því þætti vanta upp á þjónustu við sig, hvort það tæki virkan þátt í samfélaginu á einn eða annan hátt eða þyrfti á endurhæfingu að halda. Ekki var um formlega könnun að ræða heldur almennt spjall um lífið og tók hvert símtal að meðaltali um hálftíma. Mjög margir óskuðu eftir heimsókn í framhaldi af símtalinu eða fleiri símtölum. Þessi hópur blindra og sjónskertra sem kominn er yfir áttrætt býr yfirleitt við mikla einangrun og er oft og tíðum einmana fólk. Það tók því fegins hendi að einhver skyldi hringja og láta sér annt um þeirra hag. Þannig að þau sem tóku að sér að vera trúnaðarmenn óraði ekki fyrir því út í hvað þau voru að fara. Vinnan með þessu eldra fólki hefur hins vegar gefið þeim mjög mikið."

Björk Vilhelmsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1963 en var alin upp á Blönduósi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1983 og BA-prófi í uppeldisfræði og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 1990. Að því loknu starfaði hún hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Stígamótum um tíma. Hún vann á kvennadeild Landspítalans og sem framkvæmdastjóri Kvennaráðgjafarinnar um fimm ára skeið en tók við starfi félagsráðgjafa hjá Blindrafélagi Íslands síðastliðið haust. Björk er jafnframt formaður Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa. Eiginmaður hennar er Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir og einn heimildarmanna Morgunblaðsins um berjasprettu. Þau eiga fimm börn.

Trúnaðarmaður er gefandi og miðlar af reynslu

Björk Vilhelmsdóttir