MEISTARAFÉLAG bólstrara, MFB, á 70 ára afmæli á þessu ári og um helgina efnir félagið til afmælissýningar í Perlunni er lýkur klukkan 17 í dag. Eingöngu verður um að ræða innlenda framleiðslu en í fréttatilkynningu segir að íslenskur húsgagnaiðnaður sé í mikilli sókn um þessar mundir. Samtök iðnaðarins standa að sýningunni ásamt MFB.
Afmælissýning Meistarafélags bólstrara í Perlunni "Húsgögn vaxa ekki á trjánum"

MEISTARAFÉLAG bólstrara, MFB, á 70 ára afmæli á þessu ári og um helgina efnir félagið til afmælissýningar í Perlunni er lýkur klukkan 17 í dag. Eingöngu verður um að ræða innlenda framleiðslu en í fréttatilkynningu segir að íslenskur húsgagnaiðnaður sé í mikilli sókn um þessar mundir. Samtök iðnaðarins standa að sýningunni ásamt MFB.

Félagið var stofnað á götuhorni í Reykjavík en nú eru félagar nær 40. Með yfirskrift sýningarinnar, "Húsgögn vaxa ekki á trjánum", er vísað til þess að margir Íslendingar geri sér oft litla grein fyrir umfangi og þróun síðustu árin í innlendri húsgagnaframleiðslu. Alls sýna 13 aðilar framleiðslu sína og vinnu og meðal þeirra eru G.Á. húsgögn, Öndvegi og Lystadún Snæland.

Hafsteinn Sigurbjarnason, formaður félagsins, segir að almenningur geti meðal annars séð hvernig vandaður stóll verði til.

"Við erum fyrst og fremst að kynna bólstrun almennt, góða vinnu og hráefni og viljum sýna fólki muninn á fjaðrabundnum, vönduðum húsgögnum og öðrum þar sem svampur og borðar eða dúkur eru notaðar í grindur.

Þarna verða hálfunnir stólar, fullunnir stólar og aðrir sem unnir eru á ódýran máta án þess að við köllum það fúsk, það verður fólk sjálft að meta. Við kynnum handverkið á Íslandi, sýnum einnig ný og gömul húsgögn og ætlum að sýna hvernig gömul húsgögn eru gerð upp. Fólk vill fá að vita hvað er undir áklæðinu, það er ekki nóg að horfa á stólinn og setjast í hann. Við ætlum að veita faglega ráðgjöf."

Samkeppni við erlenda framleiðslu

Hafsteinn segir að lítið sé selt af íslenskum húsgögnum til útlanda. Atvinnugreinin eigi í harðri samkeppni við ódýr, innflutt húsgögn sem oftast komi frá hinum Norðurlöndunum. "Verðið byggist á gæðunum. Mjög ódýrt hráefni er notað í þessi húsgögn og það dugar stutt. Sumt af þessu er þó þokkaleg húsgögn en annað er drasl, alveg til háborinnar skammar. Oft er notað leður, þá er aðallega verið að selja það en grindin er mjög óvönduð."

Hann viðurkennir að fjöldaframleiðsla erlendis geti haft áhrif í þá átt að þrýsta niður verðinu en segir að fyrst og fremst séu það mismunandi gæði sem valdi verðmuninum.

Sýnd verða meðal annars ýmis verðlaunahúsgögn, ráðherrastóll, fyrsta sveinstykkið sem gert á Íslandi en það er ferðakista, litabreytingar í tölvu, bólstruð bílasæti, antikhúsgögn og leðurhúðir. Hægt er að skoða elstu iðnaðarsaumavélina á landinu og gömul sem ný vinnubrögð við húsgagnasmíði.

Þá fá allir gestir afhentan happdrættismiða og er heildarverðmæti vinninga um 300.000 krónur. Ýmsar getraunir verða í boði og einnig saumakeppni.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

NÝ og gömul húsgögn eru á sýningu Meistarafélags bólstrara og hægt að sjá hvernig vandaður stóll verður til.