HAGNAÐUR af reglulegri starfsemi Póls hf. á Ísafirði, nam um tveim milljónum króna fyrstu sex mánuði þessa árs. Hann var tæplega 2,5 milljónir allt árið í fyrra, þar af nam hagnaður af sölu hlutabréfa rúmri einni milljón króna. Eigið fé fyrirtækisins nam ríflega 23,8 m.kr. á fyrri árshelmingi og er það sama fjárhæð og í ársuppgjöri 1997. Veltufjármunir námu 47,5 m.kr.

Hagnaður Póls hf. 2 milljónir

HAGNAÐUR af reglulegri starfsemi Póls hf. á Ísafirði, nam um tveim milljónum króna fyrstu sex mánuði þessa árs. Hann var tæplega 2,5 milljónir allt árið í fyrra, þar af nam hagnaður af sölu hlutabréfa rúmri einni milljón króna.

Eigið fé fyrirtækisins nam ríflega 23,8 m.kr. á fyrri árshelmingi og er það sama fjárhæð og í ársuppgjöri 1997. Veltufjármunir námu 47,5 m.kr. á fyrri árshelmingi þessa árs en voru 40,9 m.kr. allt árið í fyrra.

Ánægður með útkomuna

Hörður Ingólfsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, segist ánægður með útkomuna. Hann segir að glöggt sjáist að fyrirtækið sé að sækja í sig veðrið ef miðað er við afkomu alls ársins í fyrra. "Hagnaðaraukningin er í raun meiri en kemur fram í milliuppgjörinu því í fyrra nutum við ákveðinna styrkja vegna þróunarverkefna, sem komu fram í tölunum í ársuppgjörinu. Slíkir styrkir eru ekki inni í uppgjörinu núna sem þýðir að við erum að gera betri hluti en á síðasta ári," sagði Hörður.

Hagnaður þrátt fyrir hærri laun

Hann sagði að allt stefndi í að rekstraráætlun fyrirtækisins upp á 7 milljóna króna árshagnað stæðist og verkefnastaða þess væri góð.

"Við höfum hækkað laun hjá starfsmönnum og erum samt að hagnast og erum mjög ánægðir með það," sagði Hörður en hjá fyrirtækinu vinna nú 25 manns.