Jón, sem hefur búið á Raufarhöfn í tvö ár, segist ekkert hafa botnað í því þegar hann kom þangað fyrst að honum tókst ekki að ná Rás 2 á útvarpinu. "Svo fer ég að spyrja fólk í kringum mig hverju þetta sæti og mér er sagt að gleyma því,
Kvartað yfir óviðunandi móttökuskilyrðum Rásar 2 á Raufarhöfn

"Þetta snýst um þjónustu"

MÓTTÖKUSKILYRÐI Rásar 2 á Raufarhöfn eru afar slæm og eru íbúar orðnir langþreyttir á að bíða eftir úrbótum þar á, að sögn eins þeirra, Jóns Eyjólfssonar. Samkvæmt mælingum á sviðsstyrk Rásar 1 og Rásar 2 á Raufarhöfn er styrkurinn þar um eða yfir viðmiðunarmörkum fyrir dreifbýli en verkfræðingur dreifikerfis Ríkisútvarpsins segir að sumir viðtakendur geti þurft að hafa meira fyrir því að ná fullnægjandi viðtöku en aðrir.

Jón, sem hefur búið á Raufarhöfn í tvö ár, segist ekkert hafa botnað í því þegar hann kom þangað fyrst að honum tókst ekki að ná Rás 2 á útvarpinu. "Svo fer ég að spyrja fólk í kringum mig hverju þetta sæti og mér er sagt að gleyma því, það sé búið að reyna allt og ekkert hafi gengið. Fólk hefur talað við Ríkisútvarpið, safnað undirskriftum og talað við þingmenn og ráðherra, en ekkert gerst, svo fólk er búið að gefast upp. En ég er bara þannig gerður að ég sætti mig ekki við svona lagað," segir Jón

Fær reikning fyrir afnotagjöldum RÚV eins og aðrir

Hann segir mjög erfitt að ná útsendingum Rásar 2 inni í þorpinu en skilyrðin séu mismunandi eftir húsum og einnig sé dagamunur á því hvernig þau séu. Þá séu þau aðeins skárri þegar komið er út fyrir þorpið. Hann kveðst ekki sætta sig við svör Ríkisútvarpsins við kvörtunum hans og annarra íbúa og telur lítið réttlæti í því að þurfa að borga afnotagjöld fyrir eitthvað sem hann geti ekki hlustað á.

"Ég er búinn að tala við yfirmenn hjá Ríkisútvarpinu og ég fæ ekki annað heyrt á þeim en að þeir hafi ekki nokkurn einasta áhuga á að bæta úr þessu. Mér finnst þetta óforskammað, maður kemur ekki svona fram við sína viðskiptavini. Þetta snýst um þjónustu. Ég fæ reikning fyrir afnotagjöldum Ríkisútvarpsins eins og aðrir landsmenn og ég vil fá það sem allir aðrir fá," segir hann og bætir við að honum þyki það skjóta skökku við að nú sé hægt að hlusta á útsendingu Rásar 2 hvar sem er í heiminum á Netinu en á sama tíma sé enn ekki lokið við að koma dreifikerfi Ríkisútvarpsins í viðunandi horf.

Sendandi og viðtakandi

mætist á miðri leið

Kristján Benediktsson, verkfræðingur dreifikerfis Ríkisútvarpsins, segir alþjóðlegar viðmiðunarreglur um viðtökustyrk útvarps skilgreina tiltekinn lágmarkssviðsstyrk víðóma FM-útvarpsbylgna í tíu metra hæð frá jörðu. Viðmiðunarmörkin fyrir stórborgir séu 74 dB/uV/m, sem útleggst desíbel yfir eitt míkróvolt á metra, fyrir þéttbýli 66 dB/uV/m og fyrir dreifbýli 54 dB/uV/m. Meiri viðmiðunarstyrkur í borgum og þéttbýli ráðist af því að þar deyfist bylgjurnar meira á leið sinni úr tíu metra hæð á leið sinni til viðtakenda og einnig vegna þess að bylgjurnar dofni óhjákvæmilega frá sendistað og til fjarlægra viðtakenda og mikill kostnaður fylgi því að hafa sama viðmiðunarstyrk hjá öllum. "Þannig gera viðmiðunarreglur ráð fyrir, vegna eðlis útvarpsdreifingarinnar, að sendandi og viðtakandi mætist á miðri leið og þurfi báðir að hafa nokkuð fyrir því, hvor á sinn hátt, og ennfremur að sumir viðtakendur geti þurft að hafa meira fyrir því að ná fullnægjandi viðtöku en aðrir. Þar kemur til að alltaf má bæta viðtökuna með betra loftneti og betur staðsettu og betra viðtæki, þar sem gæði og næmleiki viðtækja er mjög mismunandi," segir hann.

Um eða yfir viðmiðunarmörkum fyrir dreifbýli

Kristján segir að samkvæmt tiltækum mælingum á sviðsstyrk Rásar 1 og Rásar 2 á Raufarhöfn sé styrkurinn þar um eða yfir viðmiðunarmörkum fyrir dreifbýli. Hann bendir einnig á að langbylgjustöðin á Gufuskálum náist með fullum styrk á Raufarhöfn, en hún sendi út til skiptis dagskrá Rásar 1 og Rásar 2. "Eitt er sviðsstyrkur á viðmiðunarmörkum og annað hvernig viðtakendur sætta sig við þá fyrirhöfn sem fylgir því að ná viðunandi hlustun við þær aðstæður. Þarna á milli myndast stundum bil á milli veruleika og væntinga, sem betri upplýsingar gætu að hluta til átt þátt í að brúa."

Hann segir að fyrrnefndur viðmiðunarstyrkur hafi verið talinn nægilegur þegar kerfið hafi verið skipulagt á sínum tíma en í tímans rás hafi kröfur fólks og væntingar aukist og það sé nokkuð sem Ríkisútvarpið þurfi að taka til athugunar. Á hverju ári sé því takmarkaða fé sem til ráðstöfunar sé varið til úrbóta þar sem þörfin sé talin brýnust og tillit sé tekið til kvartana og ábendinga eftir því sem tök séu á. Dreifikerfi RÚV hafi raunar um langt árabil mætt afgangi og það gengið hraðar úr sér en sem nemur þeirri endurnýjun sem á sér stað og því stefni í óefni, verði engin breyting þar á.