KYNNINGARBÆKLINGUM um skíðaferðir rignir yfir landsmenn sem þetta árið virðast skipuleggja vetrarfríið sitt með meiri fyrirvara en oft áður. Ferðaskrifstofur eru þegar búnar að bóka hundruð sæta í skíðaferðir til Bandaríkjanna og meginlands Evrópu þótt flestar ferðirnar séu ekki á dagskrá fyrr en eftir jól.
Bókanir Íslendinga í skíðaferðir erlendis fara fyrr af stað í ár en oftast áður

Skíðalendur

í gömlum fjallgörðum freista landans

KYNNINGARBÆKLINGUM um skíðaferðir rignir yfir landsmenn sem þetta árið virðast skipuleggja vetrarfríið sitt með meiri fyrirvara en oft áður. Ferðaskrifstofur eru þegar búnar að bóka hundruð sæta í skíðaferðir til Bandaríkjanna og meginlands Evrópu þótt flestar ferðirnar séu ekki á dagskrá fyrr en eftir jól.

Draumur landans snýst um brattar og mjallhvítar brekkur, logn, bjálkakofa, arineld og heitt kakó. Sumir vilja að vísu hafa brekkurnar aflíðandi, hótelin á mörgum hæðum og romm í kakóinu og ættu þeir ekki síður að finna ferðir við sitt hæfi. Ef marka má kynningarbæklinga er einnig talið skíðasvæðum til tekna ef þar eru verslanir, fjörugt næturlíf, listagallerí, kaffihús, sundlaugar, sánaböð og jafnvel sólbaðstofur! Upp á allt þetta er boðið í meira eða minna mæli á þeim stöðum sem íslenskar ferðaskrifstofur eru með samninga við.

Heimsferðir bjóða nú í fyrsta sinn upp á skíðaferðir og eru aðaláfangastaðirnir Zell am See og Saalbach/Hinterglemm í Austurríki. Flogið er frá Íslandi í morgunsárið og getur fólk verið komið á skíðin strax í eftirmiðdaginn. Helga Liv Óttarsdóttir hjá Heimsferðum segir markhópinn ekki strangt afmarkaðan og eigi fjölskyldur, hópar, byrjendur og skíðafíklar jafnt erindi í ferðirnar. "Við sinnum þeim sem vilja fullkomna pakkaferð með fararstjórn og öllu tilheyrandi en erum einnig í stakk búin til þess að bóka gistingu vítt og breitt fyrir þá sem kjósa að aka um á bílaleigubíl með skíðin á toppnum," segir Helga Liv.

Ekki bein samkeppni við íslenskar brekkur

Samvinnuferðir/Landsýn senda viðskiptavini sína til Madonna di Campiglio sem er með vinsælustu skíðastöðum í ítölsku Ölpunum. Flogið er vikulega til Munchen á tímabilinu 30. janúar til 6. mars og þaðan ekið til Ítalíu.

"Í fyrra vorum við aðeins með tvær skipulagðar skíðaferðir þannig að við rennum nokkuð blint í sjóinn með vikuferðirnar," segir Þorsteinn Guðjónsson, markaðsstjóri S/L. "Við vitum hins vegar að áhuginn er mikill. Það er orðið æ algengara að fólk geymi hluta af fríi sínu til þess að bregða sér á skíði til viðbótar við styttri sólarlanda- og borgarferðir sem farnar eru á vorin og sumrin."

Þorsteinn segir viðskiptavini sína gera kröfu um þægilega gististaði sem standi nálægt skíðabrekkunum og það vilji njóta veitinga og líflegs næturlífs þegar það stígur af skíðunum. "Aðstæður þarna úti eru svo gjörólíkar því sem gerist á íslenskum skíðasvæðum að ég tel ekki um beina samkeppni að ræða. Samt sem áður er þetta að stórum hluta sama fólkið, þeir sem fara í skíðaferðir til útlanda eru líka duglegir í fjöllunum heima."

Í austurrísku jólaskapi

Viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar Úrvals/Útsýnar munu einnig renna sér í brekkum Madonna di Campiglio í vetur, auk annarra svæða á Ítalíu. "Ítalía er á toppnum þetta árið, það ætla allir þangað," segir Lilja Jónsdóttir hjá Úrvali/Útsýn. "Selva Val Gardena er vinsælasti staðurinn í Dólómítafjöllunum og svo er það Canazei Campitello sem er "ítalskara" svæði hvað viðkemur byggingarstíl og stemmningu."

Lilja segir Austurríki vinsælan áfangastað í kringum jólin því þar sé að finna heillandi "jólaandrúmsloft". Aspen í Colorado sé líka valkostur sem njóti vaxandi athygli. "Nú er í fyrsta skipti verulega tælandi að fara til Aspen því farþegar eru komnir þangað að kvöldi þess dags sem þeir hefja ferðina. Flugleiðir bjóða upp á beint flug til Minneapolis fjórum sinnum í viku sem auðveldar ferðina og lækkar ferðakostnað frá því sem áður var," segir Lilja.

Flug, skíði og borgarferð

Flugleiðir selja skíðapakka í samvinnu við Úrval/Útsýn en fljúga auk þess til ýmissa fleiri áfangastaða. Að sögn Jóhanns Gísla Jóhannssonar, sölustjóra, hafa sjálfstæðir skíðaáhugamenn gjarnan flogið til Lúxemborgar í gegnum tíðina "en eftir að beint flug þangað var lagt af finnum við greinilega tilfærslu til Frankfurt. Þar tekur fólk svo bílaleigubíl og ekur til þeirra skíðalanda sem það kýs."

Ferðaskrifstofa Reykjavíkur býður upp á leiguflug með Flugleiðum í vetur og gistingu á sömu skíðasvæðum og Úrval/Útsýn. Að auki er skrifstofan með umboð fyrir hollenska ferðaskrifstofu, Arke Reizen, sem kynnir ferðamöguleika sína í bæklingi upp á þrjú hundruð blaðsíður. "Þetta er traust ferðaskrifstofa sem við höfum skipt við á undanförnum árum, sumar og vetur. Arke Reizen býður fjölbreytt úrval gististaða og skíðalanda í Evrópu, allt frá Noregi til Ítalíu, en héðan er flogið til Amsterdam og þaðan ferðast áfram með flugi eða rútu," útskýrir Kristín Björg Árnadóttir, sölumaður hjá Ferðaskrifstofu Reykjavíkur.

Íslaug Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri sömu ferðaskrifstofu, staðfestir, rétt eins og aðrir viðmælendur Ferðablaðsins, að fólk virðist nú bóka sæti sín fyrr en áður hefur tíðkast og bætir við að skíðaferð til útlanda sé orðinn árviss viðburður í lífi fjölda Íslendinga.

Ljósmynd/Blaine Newham ÞÓTT skíðamenn séu bundnir í báða fætur og styðjist við stafi grípur þá óvíða sterkari frelsistilfinning en í fjallasölum Alpanna. Hér er horft yfir Val d'Is`ere í Frakklandi.