"Góðan daginn, mér skilst að þið séuð að leita að karlmönnum í keppnina um Herra Ísland." "Já, alveg logandi ljósi," svarar hressileg rödd í símann. "Hefur þú áhuga?" "Ætli ég sé nú ekki orðinn dálítið of gamall," segir blaðamaður og speglar sig hálfsvekktur í tölvuskjánum. "En þú getur kannski frætt mig aðeins um keppnina...
Sætir strákar óskast

"Góðan daginn, mér skilst að þið séuð að leita að karlmönnum í keppnina um Herra Ísland."

"Já, alveg logandi ljósi," svarar hressileg rödd í símann. "Hefur þú áhuga?"

"Ætli ég sé nú ekki orðinn dálítið of gamall," segir blaðamaður og speglar sig hálfsvekktur í tölvuskjánum. "En þú getur kannski frætt mig aðeins um keppnina ..."

Elín Gestsdóttir, framkvæmdastjóri Fegurðarsamkeppni Íslands, segir að leit standi yfir og eyðublöð liggi frammi á líkamsræktarstöðum og sólbaðsstofum.

"Við höfum fengið um 60 ábendingar, bæði frá kunnugum og drengjunum sjálfum," segir hún og bætir hlæjandi við, "ef þeir þora."

Valinu lýkur 23. september og liggur þá fyrir hvaða 10 til 12 strákar verða þátttakendur frá höfuðborgarsvæðinu.

Keppnum úti á landi lýkur í október og verður svipaður fjöldi þaðan. Lokakeppnin verður svo haldin 27. nóvember á Broadway.

Tímaþjófurinn fær slæma dóma

KVIKMYNDIN "Voleur de Vie" eða Tímaþjófurinn, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, fær dræma dóma í tímaritinu Variety.

Gagnrýnandinn Lisa Nesselson segir að myndin sé "þunglamaleg, líflaus vitleysa sem gefur sig út fyrir að vera þrungin merkingu.

Tveir helstu leikarar Frakka... ná ekki að gæða myndina lífi og myndin verður hvorki fugl né fiskur þrátt fyrir óspara notkun myndmáls. Sagan af nánum samskiptum tveggja systra reiðir sig of mikið á þrungnar þagnir og klisjulegan symbólisma. Þessi þriðja mynd leikstjórans Yves Angelo er líkleg til að njóta talsverðrar aðsóknar vegna leikaranna, en áhorfendur ættu frekar að fara í smiðju gömlu skandinavísku meistaranna sjálfra heldur en að horfa á Tímaþjófinn, sem reynir án árangurs að vera í stíl Bergmans."

Nokkru seinna í dómnum stendur: "Það sem hugsanlega hefur virkað í skáldsögunni gengur ekki upp á hvíta tjaldinu. Þrátt fyrir að myndataka sé ágæt er umhverfið óraunverulegt og fjarrænt."

"Það eina sem stendur upp úr í myndinni er ágætt kynlífsatriði, ein góða játningarræða og eitt ágætt draumkennt myndskeið. En þegar á heildina er litið er myndin alltof löng og til að bæta gráu ofan á svart líður helmingur þessa langa tíma í algjörri þögn. Tímaþjófurinn er andvana fædd kvikmynd," eru lokaorð þessa harkalega dóms í Variety.

"Í ógöngum" frumsýnd í London

NÝ STUTTMYND, Í ógöngum eða "Stranded" er frumsýnd í London í dag. Leikstjórinn er Írinn Ian FitzGibbon og aðalleikarinn er Paul Hickey sem menn kannast við úr Björgun óbreytts Ryan. Myndin er byggð á leikritinu Paparnir eftir Brian FitzGibbon. Sverrir Guðjónsson kontratenór syngur titillag myndarinnar, sem gefið verður út á plötunni Epitaph sem er væntanleg í útgáfu franska útgáfufyrirtækisins Opus 111. Kvikmyndin er 25 mínútna löng og er sýnd í kvikmyndahúsinu Screen West við Bramley Road í London.