Framleiðandi: John Copeland. Leikstjóri: Mike Vejar. Handritshöfundur: John Michael Straczynski. Kvikmyndataka: John C. Flinn III. Tónlist: Christopher Franke. Aðalhlutverk: Bruce Boxleitner, Mira Furlan, Theodore Bikel, Peter Jurasik, Andreas Katsulas, Robin Atkin Downes, Claudia Christian, Richard Biggs. 90 mín. Bandaríkin. Warner-myndir 1998.
Framtíðarátök Babylon 5: Í upphafi (Babylon 5: In the Beginning) Vísindaskáldsaga

Framleiðandi: John Copeland. Leikstjóri: Mike Vejar. Handritshöfundur: John Michael Straczynski. Kvikmyndataka: John C. Flinn III. Tónlist: Christopher Franke. Aðalhlutverk: Bruce Boxleitner, Mira Furlan, Theodore Bikel, Peter Jurasik, Andreas Katsulas, Robin Atkin Downes, Claudia Christian, Richard Biggs. 90 mín. Bandaríkin. Warner-myndir 1998. Myndin er bönnuð börnum innan 12 ára. Um miðbik 23. aldarinnar hefur maðurinn komist á þann stað á þróunarbrautinni að hann telur að hann sé betri en flestir aðrir, þar með talið þeir sem búa á öðrum hnöttum. Þessi sjálfsánægja mannsins verður til þess að hann vill kanna staði sem öðrum finnst ekki fýsilegir og að lokum verður honum það næstum að falli. Það er gífurlega erfitt að benda á kosti þessarar myndar án þess að hafa þann mikla bakgrunn sem þarf til þess að kunna að meta hana. Geimvísindaskáldsaga Johns Michaels Straczynskis hefur tekið alls fimm ár í flutningi og hefur höfundurinn haft fullkomna stjórn á því sem kemur fram í þeim tuttugu og tveimur 45 mínútna þáttum sem koma út á hverju ári. Persónur breytast, nýjar fléttur myndast, heimsveldi falla og rísa úr öskunni, sagan hefur fyrirfram ákveðna byrjun, miðju og endi, sem er einsdæmi í sjónvarpsþáttagerð fyrr og síðar. Í upphafi er sjónvarpsmynd sem gerð var til þess að koma ákveðnum þætti innan hinnar víðáttumiklu "Babylon 5"-sögu til skila; stríðinu á milli jarðarbúa og hinna háþróuðu Minbara. Sagan er sögð af einni af aðalsöguhetjum þáttanna, Londo Mollari, og án þess að þekkja Minbarana hafa orð hans lítið sem ekkert gildi í frásögninni. Það er ekki annað hægt en að nálgast þessa mynd út frá fullkomlega hlutdrægu sjónarmiði og ég er aðdáandi. Galla er lítið mál að finna, t.d. er hægt að benda á að leikurinn er of sviðslegur, brellurnar ekki á borð við Hollywood-stórmyndir og margir aðrir hlutir sem aðdáendur þáttanna hafa fyrir löngu sætt sig við og jafnvel leita að út frá ákveðnum forsendum. Fyrir þá sem þekkja ekki þessa sjónvarpsþáttaröð eða hafa ekkert gaman af geimvísindaskáldsögum má auðveldlega draga eina stjörnu frá einkunnagjöfinni, en aðdáendur "Babylon 5" ættu alls ekki að verða sviknir. Ottó Geir Borg