ÞEGAR Carol kom til Íslands í embættiserindum fyrir 16 árum datt henni ekki í hug að hún ætti eftir að taka þvílíku ástfóstri við land og þjóð, að hún keypti íbúð og bíl og eyddi hér hverju sumrinu á fætur öðru.
Heimili

í þremur

löndum

Telst það ekki ákjósanleg staða fyrir fólk vel komið á fullorðnisár að eiga heimili á þremur stöðum í heiminum, búa á hverjum stað eftir árstíma, hafa vinnu í nokkra mánuði á ári og geta þess á milli tekið því rólega og notið þess sem lífið býður upp á? Fyrir Hildi Friðriksdóttur hljómar þetta eins og draumur, en fyrir Íslandsvininum prófessor Carol Pazandac er þetta raunveruleikinn.

ÞEGAR Carol kom til Íslands í embættiserindum fyrir 16 árum datt henni ekki í hug að hún ætti eftir að taka þvílíku ástfóstri við land og þjóð, að hún keypti íbúð og bíl og eyddi hér hverju sumrinu á fætur öðru. Hvað þá að hún léti sér til hugar koma að hún ætti eftir að gifta sig í Landakotskirkju átta árum síðar, þá orðin ekkja.

Carol er einn þeirra Íslandsvina, sem erfitt er að skilja hvað rekur til að leggja á sig ómælda vinnu og viðvik til þess eins að koma landinu á framfæri og greiða götu Íslendinga erlendis. Carol ypptir öxlum brosandi og svarar að eitt hafi leitt af öðru. Henni finnist bara Ísland frábært land og Íslendingar yndisleg þjóð.

Heimili á þremur stöðum

Carol og Joe O'Shaughnessy, síðari maður hennar, misstu maka sína með stuttu millibili fyrir tæpum áratug. Þau höfðu verið góðir vinir en ákváðu að gifta sig og völdu Ísland til að láta gefa sig saman. Með tímanum hafa þau komið því þannig fyrir að þau flytja á milli landa eftir árstíðum. Þau dveljast í Minnesota á vorin og haustin, þar sem Carol kennir við Minnesotaháskóla. Yfir háveturinn eru þau á Hawaii þar sem þau leika golf, hitta vini, fá gesti í heimsókn eða eins og Carol segir "njóta lífsins". Sumarmánuðunum eyða þau á Íslandi og þar blandar Carol yfirleitt saman vinnu og frítíma.

"Ef maður nær þeim punkti á lífsleiðinni, að börnin eru vaxin úr grasi og aðrar ástæður binda mann ekki, þá er þetta hið ákjósanlegasta fyrirkomulag. Ég keypti íbúðina hér fyrir sjö árum en þá hafði ég fengið nóg af því að þurfa að bjarga mér um húsnæði á hverju sumri og kaupa allt til alls. Sama á við um Hawaii. Þar keypti ég húsnæði í fyrra eftir að hafa komið þangað reglulega í mörg ár. Ég hef verið á Íslandi á öllum tímum ársins. Sumrin hér eru hreint frábær og mér líður hvergi eins vel. Eftir sextán ára viðdvöl eigum við líka orðið fjölda vina hér á landi."

Af hverju Ísland?

Ástæðan fyrir komu Carol hingað til lands í upphafi var vegna undirritunar samstarfssamnings milli Háskóla Íslands og Minnesotaháskóla, þar sem kveðið var á um nemenda- og kennaraskipti. Fé til að standa straum af kostnaði íslensku nemendanna er safnað meðal velvildarmanna Minnesotaháskóla og sér Carol um fréttabréf tvisvar á ári. Það sendir hún til ákveðins hóps og biður um áframhaldandi styrk.

Að sögn Carol er nú verið að reyna að efla kennaraskiptin og eru skólamenn í Minnesota áhugasamir um að fá íslenskan kennara til að halda námskeið um land og þjóð út frá breiðum grundvelli. "Ef þeir vilja koma út höfum við í huga að greiða aukafjármagn vegna kennslunnar. Það er eitt að senda skiptinema á milli landa en annað kennara. Þeir hafa mun víðtækari og langvarandi áhrif."

Samstarf skólanna hefur einnig þróast út í samvinnu á sviði jarðfræði og landafræði. "Fyrir nokkrum árum sátum við Gylfi Már Guðbergsson prófessor, sem lést fyrr á þessu ári, á spjalli og ræddum um, hvort ekki gæti verið áhugavert að halda sumarnámskeið í jarð- og landafræði. Ég stakk upp á því að íslenskir nemendur kæmu til Minnesota en bandarískir nemendur gætu komið frá öllu landinu hingað. Gylfa tókst að fá Fulbright-stofnunina til þátttöku. Í þrjú ár gekk allt vel en þá dró Fulbright-stofnunin sig út úr samstarfinu en okkur tókst samt að útvega fé það sumarið. Næsta ár stakk Sveinbjörn Björnsson þáverandi rektor upp á því, að hvor skóli um sig legði fram 1.000 dollara fyrir hvern nemanda sem kæmi og var það gert. Nú lést Gylfi í sumar og því varð ekkert úr námskeiðinu og í Minnesota var enginn kennari sem gat tekið verkefnið að sér, svo ég veit ekki hvernig framhaldið verður," segir Carol og kveður það mjög miður detti það upp fyrir.

Bakhjarl námsráðgjafa

Það sem varð þó til þess að Carol tengdist Háskóla Íslands og Íslendingum meir en aðrir kennarar Minnesotaháskóla var að hún var fengin til að aðstoða við að koma á námsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún hafði mikla reynslu af þess konar starfi frá Minnesota. "Þáverandi rektor, Guðmundur Magnússon, hafði nýlega ráðið Ástu Kr. Ragnarsdóttur til að byggja upp námsráðgjöfina og það kom í minn hlut að veita ráðgjöf. Það má segja að ég hafi fest í þessu," segir hún brosandi og kveðst ekki vera óánægð með það.

Hún segir að síðan hafi eitt leitt af öðru. Ásta fór utan til að kynna sér námsráðgjöf í bandarískum háskólum og meðal annars í Minnesota. Sjálf kom Carol hingað í frí 1984 og kenndi á einu námskeiði. Í kjölfarið segist hún hafa bent á, að formlegt nám yrði að vera fyrir hendi innan háskólans, ef námsráðgjöf á Íslandi ætti að geta þróast. "Gerður Óskarsdóttir var þá kennslustjóri í kennslufræði og við ásamt Ástu unnum tillögur að uppbyggingu náms í námsráðgjöf. Fyrirmyndin var meistaranám í náms- og starfsráðgjöf við Minnesotaháskóla."

Carol hefur síðan verið námsráðgjöfum í Háskóla Íslands góður bakhjarl. Hún segist mjög ánægð með hvernig aðstoð við nemendur hafi þróast, en tekur fram, að þrátt fyrir að verið sé að gera þar góða hluti sé nauðsynlegt að efla starfsemina og fjölga ráðgjöfum.

Henni finnst einnig skorta skilning á starfi námsráðgjafa innan skólans. "Þegar ég var deildarforseti í Minnesota sinntum við nemendum á svipaðan hátt og námsráðgjöf HÍ gerir. Þar fyrir utan reyndum við að leysa úr því, ef kennari átti í vandræðum með nemanda eða nemandi með kennara, einnig ef nemandi vildi hætta. Við reyndum að grafast fyrir um ástæðuna og á hvern hátt skólinn gæti komið til móts við þarfir nemandans, hvort sem var vegna fjárhagsástæðna eða annarra ástæðna."

Líður best með því að hafa nóg fyrir stafni

Carol varð sjötug síðastliðið vor en ber það ekki með sér. Hún er kvik í hreyfingum og þeir sem til hennar þekkja segja hana hafa ómælda orku. Hún sé stöðugt að, enda segir hún aðspurð að sér líði best hafi hún nóg fyrir stafni.

Þrátt fyrir aldurinn kveðst Carol ekki vera sest í helgan stein. Hún hætti sem fastakennari fyrir fimm árum vegna krabbameins, en ekki leið á löngu þar til hún gerðist gistiprófessor við háskóla í Finnlandi og tók síðan að sér kennslu aftur við Minnesotaháskóla. "Ég er því ekki hætt, ég "emeritus"," segir hún svo brosandi. Hún svarar með semingi þegar gengið er á hana, að svo geti þó farið eftir haustnámskeiðið, að hún hætti að kenna við Minnesotaháskóla, því þar séu breytingar í vændum. Í stað þriggja missera náms verður þeim breytt í tvö. "Þar með breytast dagsetningarnar og þá getur verið að ég verði að vera of langt fram á veturinn í Minnesota ... og það vil ég ekki."

Daginn eftir viðtalið sneri Carol til baka til Minnesota, þar sem hún mun kenna á námskeiði, sem fjallar um Ísland. Hún ljómar þegar hún segir frá því: "Ég var beðin um að halda kynningarnámskeið fyrir fólk sem lokið hefur doktorsnámi en hefur ekki enn ákveðið hvað það ætlar að taka sér fyrir hendur. Ég mátti leggja til nokkur efni og stakk upp á námskeiði um að velja sér starfsvettvang, kynnast aðstæðum fatlaðra í nútímaþjóðfélagi eða fjalla um Ísland. Þegar ég nefndi Ísland lifnaði yfir prófessornum og hann sagði strax: "Við tökum það. Það er mest spennandi."

Ég hef haldið slíkt námskeið einu sinni áður. Þar kem ég inn á fjölmörg málefni, svo sem menntakerfið, landafræði, efnahagsmál, sögu, tungumálið, vinnuaflið, hefðir og venjur, svo nokkuð sé nefnt. Ég er búin að kaupa bækur um Ísland fyrir hundruð dollara. Og nú hlakka ég til að byrja að kenna.

En ég kem aftur næsta sumar. Það er engin hætta á öðru!"

Morgunblaðið/Golli PRÓFESSOR Carol Pazandac hefur gegnum tíðina lagt ýmislegt á sig til að vinna að framgangi Íslands og Íslendinga í Minnesota.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson HJÓNIN Carol Pazandac og Joe O'Shaughnessy ræða við vini í kveðjuhófi sem haldið var þeim til heiðurs áður en þau héldu af landi þessu sinni.

"Ef maður nær þeim punkti á lífsleiðinni, að börnin eru vaxin úr grasi og aðrar ástæður binda mann ekki, þá er þetta hið ákjósanlegasta fyrirkomulag. Ég keypti íbúðina hér fyrir sjö árum."