"VÖRÐUR hafsins og samverji" eru hátíðleg einkennisorð norsku strandgæslunnar. Lífið um borð er blanda hermennsku, sjómennsku og löggæslu og afslappaðra en von er á þótt lögregluþjónar hafanna haldi vissulega fast í reglur, m.a. um klæðaburð, að minnsta kosti meðan gestir eru um borð.
Vörður

hafsins

Norsku strandgæslunni er ætlað að fylgjast með 2 milljóna ferkílómetra hafsvæði. Urður Gunnarsdóttir sigldi með K/V Nordkapp frá Svalbarða til Lofoten, fylgdist með lífinu um borð, veiðieftirliti, köldu baði í Norður- Íshafi og hlustaði á náin kynni hnúfubaks við jafnvægisstilla skipsins.

"VÖRÐUR hafsins og samverji" eru hátíðleg einkennisorð norsku strandgæslunnar. Lífið um borð er blanda hermennsku, sjómennsku og löggæslu og afslappaðra en von er á þótt lögregluþjónar hafanna haldi vissulega fast í reglur, m.a. um klæðaburð, að minnsta kosti meðan gestir eru um borð. Þegar fréttist að einn þeirra sé Íslendingur verða sumir dálítið kyndugir á svip, og grínið um borð verður mest á kostnað hans. Styggðaryrði um íslenska sjómenn berast hins vegar ekki í íslensk eyru og greinilegt að strandgæslan telur þetta kærkomið tækifæri til að sýna fram á að samskipti hennar og íslenskra skipa séu öll eftir settum reglum og að þjóðum sé ekki mismunað á úthöfum. Hvort öllum efa um það er eytt, skal ósagt látið.

K/V Nordkapp hefur verið á siglingu í tvær vikur um verndarsvæðið við Svalbarða og í Smugunni, þegar leiðin liggur til Svalbarða. Teknar eru vistir og gestir og þegar haldið í suðurátt til eyjarinnar Hopen, þar sem sækja á einn vísindamann. Gott er í sjóinn en þoka og þegar skipið nálgast Hopen er þokan svo mikil að ekki er hægt að fljúga þangað. Vísindamaðurinn verður því að bíða næstu ferðar.

Stórhreingerning fer fram daginn eftir og þeir lægst settu sveifla tuskum og hreinsiefni af mikilli elju. Annars er lítið við að vera fram eftir degi, þeir sem ekki eru á vakt, en þær eru að jafnaði fjórir tímar og svo átta tíma hvíld, sofa, sitja og spjalla, eða bregða sér í líkamsrækt, gufubað og ljós. Geir Eikeland, skipherra, segir nauðsynlegt að áhöfnin geti haldið sér í formi og komist í ljósabekk, ekki síst yfir háveturinn, þegar dimmt er allan sólarhringinn. Þá grípur einstaka skipverji í bók, t.d. einn vaktmannanna í brúnni, sem leggur stund á lögfræði samhliða vinnunni.

Fjórar konur í áhöfn

Áhöfnin er ung að árum, margir hinna óbreyttu eru undir tvítugu og elsti maðurinn um borð, næstráðandinn, er fertugur. Eikeland segist kjósa svo unga áhöfn, þar sem léttara reynist að móta yngra fólk í anda strandgæslunnar en hið eldra. Flestir í áhöfninni eru frá strandhéruðunum og margir hafa einhverja reynslu af sjómennsku. Stunda sjóinn líka í frístundum, m.a. skipstjórinn, sem á seglskútu heima í Bergen.

Af 45 manna áhöfn eru fjórar konur og segir Eikeland tilkomu þeirra í strandgæsluna vera nýjung. Þær starfa í vélarrúmi, á þyrludekki, við hreingerningar og í brúnni. Eikeland segir fyrirrennara sinn hafa verið mótfallinn því að hafa konur í áhöfn þar sem slíkt kallaði á tóm vandræði. Eikeland segist ekki sammála því, vera stúlknanna um borð verði til þess að skapa eðlilegra andrúmsloft. Það dragi úr töffarastælunum og strákarnir þrífi sig betur. Þess eru dæmi að pör hafi orðið til um borð en skipstjórinn leggur áherslu á að það sé ekki vel séð að unga fólkið sé að stinga saman nefjum um borð. Þó er greinilegt að þær reglur eru ekki að fullu virtar, þegar yfirmennirnir sjá ekki til hrekkja strákarnir stelpurnar rétt eins og á skólalóðinni í tíu ára bekk.

Ísbað á Bjarnarey

Er líður að kvöldi birtist Bjarnarey skyndilega í þokunni. Þar bíða tveir vísindamenn þess að verða sóttir og þar sem ekkert sérstakt liggur fyrir er þeim hluta áhafnarinnar sem ekki hefur komið þangað leyft að spóka sig á þessum eyðilega stað. Ellefu manns eru að jafnaði þar við ýmiskonar vísindarannsóknir og í tengslum við fjarskipti en þegar komið er í land eru aðeins tveir viðlátnir; hinir hafa brugðið sér á fjöll eins og sönnum Norðmönnum sæmir. Rúmlega 400 metra hátt fjall er á eynni og kofi þar við, sem freistaði vísindamannanna.

Boðið er upp á kaffi og kökur, og að því búnu haldið í pósthúsið, sem hlýtur að teljast eitt hið afskekkasta í heimi. Þaðan eru send póstkort í gríð og erg og fátæklegt minjagripaúrvalið hreinsað upp.

Aðalerindi skipverja er hins vegar að skella sér í sjóbað í Norður- Íshafi. Nær allir skipverjarnir státa af því að vera félagar í nektarsjóbaðsfélagi Bjarnareyjar og þeim sem ekki hafa slíkt skírteini upp á vasann því eins gott að verða sér úti um það. Skipverjar eru heppnir, sjórinn er 4 hlýr og tíu manna hersing dembir sér út í íshafið.

Spennan eykst

Ferðinni er nú heitið í Síldarsmuguna en áður en þangað er komið verður vart fimm togara á svæðinu. Spennan eykst þegar ljóst er að þrjú skipanna eru að veiðum á fiskverndarsvæðinu. Flogið er yfir svæðið og ákveðið að senda þyrluna að nýju, að þessu sinni með veiðieftirlitsmenn. Þeir eru látnir síga um borð í norskt síldveiðiskip, en skipstjórnarmenn þar segjast ekki hafa haft hugmynd um að þeir hafi verið að veiðum á verndarsvæðinu, auk þess sem þeir hafi haldið að Norðmenn mættu veiða þar. Skipstjórinn sleppur með áminningu, þar sem hann hafði ekki kastað og bátur er sendur eftir eftirlitsmönnunum.

Er líður á kvöldið er ákveðið að fara um borð í tvö skip til viðbótar, einnig norsk. Er rætt er við skipstjórana í talstöð reynast þeir í þann veginn að kasta og eru ókátir með afskiptin. En ekki verður komist hjá eftirliti, sem stendur fram á miðja nótt.

Skipstjórnarmenn leggja mikla áherslu á að þeir mismuni ekki þjóðum, þótt ljóst sé að þeir sem ekki hafa veiðireynslu hljóti harðari móttökur en hinir. Það eigi m.a. við um Íslendinga. Segja þeir það t.d. af og frá að bera saman Sigurðar-málið svokallaða, þar sem íslenskur togari var tekinn við veiðar á Jan Mayen-svæðinu og færður til hafnar, og töku rússnesks togara á verndarsvæðinu við Svalbarða. Togurum, sem verið var að færa til hafnar þaðan, var sleppt gegn loforði um að öll rússnesk skip á svæðinu héldu þegar á brott. Það er greinilegt að Sigurðar-málið hefur komið illa við starfsmenn strandgæslunnar, sem fagna því að málinu hafi verið áfrýjað til hæstaréttar í Noregi, því verði skipstjóri Sigurðar sýknaður af broti á tilkynningaskyldu sé nánast verið að færa Íslendingum veiðleyfi á svæðinu upp í hendur.

Spennandi starf

"Stefna norskra stjórnvalda í sjávarútvegi snýst fyrst og fremst um skynsamlega meðhöndlun fiskistofna og það vefst hvorki fyrir mér né öðrum hér um borð að framfylgja henni," segir Eikeland skipherra. "Vissulega geta komið upp erfið tilfelli en við eigum að búa yfir nægilegri þjálfun til að takast á við þau. Þegar ljóst er að viðbrögð okkar kunna að hafa póltískar afleiðingar leitum við aðstoðar og ráðgjafar í sjávarútvegs-, dóms-, og utanríkisráðuneytinu, og förum því hærra upp í kerfið sem brotið er alvarlegra.

Það sem mér finnst mest spennandi við vinnuna í strandgæslunni er að þurfa að taka skynsamlegar ákvarðanir á skömmum tíma, oft byggðar á takmörkuðum upplýsingum. En ég er heldur ekki að óska eftir vandamálum, af þeim er nóg samt. Þetta er krefjandi starf og gefur lífinu gildi."

Svæðið sem heyrir undir strandgæsluna í Norður-Noregi er gríðarlegt, um 1,7 milljónir ferkílómetra, en Eikeland segir stærð þess þó ekki yfirþyrmandi. "Veiðarnar eru t.d. ekki dreifðar um allt svæðið, heldur á vissum stöðum, og með hjálp nútímatækni, svo sem radara og gervihnatta, er auðveldara en áður að fylgjast með því sem fram fer á svæðinu."

Náin kynni við hval

Síðasti dagurinn í þessu úthaldi er runninn upp. Stefnan er tekin á Sortland, aðalhöfn Strandgæslunnar í Norður-Noregi, og ekki laust við að þeir yngstu í áhöfninni séu farnir að iða í skinninu eftir að komast í land. Snemma morguns vakna margir hins vegar við mikinn dynk. Stuttu síðar er tilkynnt í hátalarakerfinu að eitthvað hafi skemmt annan jafnvægisstilli skipsins og allt bendi til þess að það hafi verið hvalur. Það reynist rétt vera og grunur fellur á hnúfubak, sem sást við skipið nokkrum mínútum fyrir dynkinn.

Síðasta daginn setjast yfirmenn niður við skýrslugerð, undirmennirnir kýla í sig sælgæti og bíða óþreyjufullir eftir því að komast í land. Undir morgun sést til hins tilkomumikla Lofotenveggjar og í morgunsárið er lagt að bryggju í Sortland. Það gengur þó ekki þrautalaust vegna strauma í höfninni og ónefndur skipstjórnarmaður bölvar í hljóði dreifbýlispólitíkinni, sem hafi orðið til þess að aðalstöðvum strandgæslunnar var valinn staður þar sem hafnarskilyrði séu með því versta sem gerist í Norður- Noregi.

En Nordkapp leggst að bryggju, skipverjar í sínu fínasta pússi raða sér á dekk. Óbreyttir skipverjar eru lausir allra mála við komuna, en yfirmannanna bíða fundahöld lungann úr deginum með áhöfninni sem við tekur, áður en haldið er heim í langþráð frí.

Morgunblaðið/UG GEIR Eikeland skipherra, t.h., í brú Nordkapp. Allt var með kyrrum kjörum fram eftir degi en spennan jókst skyndilega er vart var við togara að ólöglegum veiðum.

Morgunblaðið/UG ÞOKAN grúfði sig yfir Bjarnarey við komuna þangað.

Á bryggjusporðinum blasir við þetta skilti, sem minnir menn á hversu langt þeir eru frá fastalandinu.

BUSLAÐ í köldu Norður-Íshafi í fjöruborðinu við Bjarnarey.

Morgunblaðið/UG LYNX-þyrla strandgæslunnar býr til til flugtaks.

Morgunblaðið/UG HLUTI áhafnarinnar kominn á dekk og bíður þess að Nordkapp leggist að bryggju.