ÉG FÆ EKKI SÉÐneitt í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar undir lokin sem breytir trúarsannfæringu hans. Hann er að sjálfsögðu reynslunni ríkari og hálfum öðrum áratug eldri en þegar hann flytur prófræðuna og áramótaræðuna í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þess sjást engin merki að hann hafi sætt sig við guðlaus náttúrulögmál ein saman og yfirgefið forsjón sína og leiðarljós.
ÉG FÆ EKKI SÉÐ neitt í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar undir lokin sem breytir trúarsannfæringu hans. Hann er að sjálfsögðu reynslunni ríkari og hálfum öðrum áratug eldri en þegar hann flytur prófræðuna og áramótaræðuna í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þess sjást engin merki að hann hafi sætt sig við guðlaus náttúrulögmál ein saman og yfirgefið forsjón sína og leiðarljós. Hann horfir þvert á móti til himins og handlásar sig að "hæstum guði",

Blessi jörð, en verðum

vinnu dýrri sinna,

hæstur guð, sem mesta

hylur von góðs sonar

eins og skáldið segir í öðru af tveimur síðustu erindunum sem hann orti þessa heims. Þá var örstutt liðið frá því að hann hafði sagt í Annesjum og eyjum að hann væri bringubrotinn, "úr bjarginu hrundi að mér". Þessi orð lýsa hugarástandi fremur en umhverfi. Þá var örstutt frá því hann orti Sólhvörf, 22. des. 1844, þar sem hann snýr sér til eilífs guðs, eins og hann kemst að orði, með þá ósk efst í huga að hann megi lifa áfram og líta enn "sól renna" og varpar fram þeirri spurningu hvort nokkuð sé jafn glatt og "hið góða / guðsauga". Skáldið snýr ekki bæn sinni til náttúruaflanna; né náttúrulögmálanna. Hann treystir öðru afli, nærtækara; persónulegum guði sem stjórnar allri þessari eftirvæntingu; þessari dýrð; hlýju og yl, ekki síður en snjóköldu föli dauðans. Hann lítur til himins síðustu áramót sem hann lifir. Finnur það er hækkandi sól í huga hans.

Og guðsaugað fylgir honum undir þessa hreinu og hvítu blæju þar sem jafnvel snjóbreiðan logar í skínandi birtu og gröfin er enginn áfangi í sjálfu sér þótt jörðin sé mjúkhent og umhyggjusöm móðir; heldur er ferðinni heitið inní ljósbrigði himneskra fyrirheita; af þungum krossi jarðneskrar reynslu hverfur hugur okkar að hæstum guði; að himni sem er og verður óskilgreint hugtak um það sem við getum ekki skýrt; og ekki skilið til fulls. Skáldið á augsýnilega við himin guðs. Og hann er af öðrum heimi.

Hannes skáld Pétursson hefur bent á að erfiljóð sem ég hef áður minnzt á, ort á dönsku 1842 um Drejer, ungan grasafræðing sem lézt tæplega þrítugur að aldri, sé öðrum þræði glíma við guðstrúna og má það til sanns vegar færa, þótt það fjalli einnig og ekki síður um hinn sanna vísindamann og leitina að sannleikanum sem var Jónasi háleitt markmið. Í þessu kvæði birtast hugmyndir Jónasar um guð á skýran hátt og augljóst að hann hefur í engu breytt þeirri trú sem hann boðaði ungur í dómkirkjunni forðum daga. "Þar birtast forsendurnar fyrir þeim guðsskilningi hans og eilífðartrú", segir Hannes, "sem setur svo mjög mark sitt á annað minningarljóð frá árinu áður, um Tómas Sæmundsson. Ef svo skyldi vera að þær reyndust skakkar þegar til kæmi - handan líkamsdauðans, þá er herra lífsins ekki faðir þess, segir hann, og sá guð, sem þeir Drejer trúðu á, ekki þeirra guð." (Kvæðafylgsni, 228.) Jónas kemst þannig að sömu niðurstöðu og Páll Postuli í Korintubréfinu.

Í öðru dönsku kvæði yngra, Blomsterkampen í Sorø, segir Jónas að guð hafi ávallt verið heimsins bezti garðyrkjumaður. Kvæðið er ort 1843-'44 og Matthías Þórðarson segir að það minni á 56. kvæði í Lyrisches Intermesso í Buch der Lieder eftir Heine, en Jónas "þýddi" kvæði hans um svipað leyti.

Eins og guð gegnir sólin sérstöku hlutverki í ljóðum Jónasar; sérstöku og svipuðu. Jónas lýsir sólinni með litríkum orðum og þegar hann nefnir hana fylgja henni fegurstu lýsingarorðin úr smiðju hans, guðfögur sól í Saknaðarljóði; sorglaus sól í kvæðinu Undir annars nafni. Orðið guð kemur um fimmtíu sinnum fyr ir í frumkveðnum ljóðum Jónasar, drottinn 23svar sinnum, faðir og alfaðir tíu sinnum. Önnur orð um hið sama sjaldnar. Guð er alls nefndur um hundrað sinnum með einhverjum hætti í fumsömdum ljóðum Jónasar. Tilbrigðin eru mörg, til að mynda geislar/guðs sólar í Dagrúnarharmi.

Tilbrigðin eru mörg, en guð er einn. Og sólin er hans verk. Vincent van Gogh uppgötvaði sólina í málverkinu; Jónas uppgötvaði hana í íslenzkri ljóðlist og hafði því skýra vegvísa eins og Sólarljóð.

Guð Jónasar Hallgrímssonar er kærleiksríkur vinur; skapari. En umfram allt faðir. Jónas talar við hann vandræðalaust og án milliliða. Það eiga ekki allir svo sterka trúarsannfæringu. Flestir snúa sér til Krists eða dýrlinga. Þeir eru eins og millistykki til að ná sambandi við guðlegan kraft. En það er engu líkara en Jónas þurfi ekki milliliði þegar hann snýr sér til guðs föður. Milli þeirra er harla persónulegt samband, án stéttaskiptingar. Og hann kallar þennan vin sinn föður eins og efni standa til og kristnum mönnum er kennt. Guð Jónasar er enginn óskilgreindur eða ópersónulegur náttúruandi, ekkert blint náttúruafl, heldur höfundurinn sjálfur sem setti lögmálin og stjórnar allri tilveru; ráð okkar eru í hans hendi, það kemur oft fram í skáldskap og viðhorfum Jónasar. Rödd hans heyrist; vilji hans birtist með ýmsum hætti. Hann talar jafnvel í alþögn svo vitnað sé til Einars Benediktssonar. Það er engu líkara en Jónas skynji guðdóminn sem hversdagslega reynslu; eins og hann skynjar lífið á sveitabæ. Hann er handgenginn bóndanum sem er vinur hans og velgjörðarmaður og gengur honum í föður stað. Návistin við hann veitir Jónasi gleði og traust. Hann er ekki eins berskjaldaður og ella. Hann á skjólgóðan faðm ef í nauðir rekur. Þess má þá einnig geta að í 2. kap. hugleiðinga Mynsbers er jafnvel talað um "guðs ráðstafanir", en Jónas átti mikinn hlut að þessum þýðingum.

M.