ÞEIR sem halda að hlutirnir í Ósló gerist á verslunargötunni Karl Johan hafa rangt fyrir sér, a.m.k á sumrin því þá er það Akerbrygge og Óslóarfjörðurinn sem eiga athygli bæði íbúa og ferðamanna óskipta. Með hækkandi sól vaknar bryggjan úr vetrardvala, líf kviknar á firðinum og heimamenn blandast ferðalöngum yfir bjór og ís á bryggjunni.
Sumar í Ósló Bátar, bjór og bryggjulíf Verslunargatan Karl Johan hefur löngum verið talinn nafli Óslóar. En á sumrin er það Akerbrygge og Óslóarfjörðurinn sem eiga vinninginn. Snæfríður Ingadóttir fékk sér bjór á bryggjunni og kannaði fegurð fjarðarins. ÞEIR sem halda að hlutirnir í Ósló gerist á verslunargötunni Karl Johan hafa rangt fyrir sér, a.m.k á sumrin því þá er það Akerbrygge og Óslóarfjörðurinn sem eiga athygli bæði íbúa og ferðamanna óskipta. Með hækkandi sól vaknar bryggjan úr vetrardvala, líf kviknar á firðinum og heimamenn blandast ferðalöngum yfir bjór og ís á bryggjunni. Yfir vetrarmánuðina er bryggjan frekar daufleg, enda er það sólin og það að geta setið úti, drukkið bjór og borðað góðan mat og um leið fylgst með fjölskrúðugu bátalífi sem dregur fólk að bryggjunni. Þegar veitingastaðirnir setja stóla sína og borð út á vorin er sætispláss fyrir um 6.000 gesti á bryggjunni á alls 35 veitingastöðum.

Marga af veitingastöðunum á Akersbrygge er að finna í bátum sem bundnir eru við bryggju allan ársins hring. Þar á meðal er Fjordflower, stærsti skelfiskveitingastaður Norðurlandanna. Þar borga gestir um 500 nkr. krónur og geta í staðinn í sig látið eins mikið af skelfisk og þá lystir á meðan aldan vaggar bátnum. Þetta er máltíð sem óhætt er að mæla með fyrir aðdáendur skelfisks, en menn ættu að reikna með 3­4 klst. ef vel á að vera. Aðrir staðir á bryggjunni bjóða upp á minni rétti, en sjávarfang af einhverjum toga má finna á þeim flestum.

Útitónleikar og ferskar rækjur En það er ekki bara matur og bjór sem dregur fólk á bryggjuna. Á sumrin eru bryggjan vettvangur alls konar útitónleika og hátíða og götulistamenn af ýmsum toga eru þar tíðir gestir. Tvisvar á ári eru haldnir svokallaðir "Bryggjudagar" með tilheyrandi tilboðum og uppákomum og í ágúst er hið árlega "Dragbåtfestival". Margir veitingastaðanna bjóða upp á lifandi tónlist og báturinn Børs'n býður vikulega upp á uppistand. Á bryggjunni má einnig finna 60 verslanir, nokkur diskótek og glænýtt þrívíddarbíó.

Við enda bryggjunnar er gestahöfn þar sem oftast liggja farkostir frá hinum ýmsu löndum. Þar býðst öll þjónusta fyrir gesti sem koma sjóleiðina til Ósló; sturtur, þvottavélar og ruslalosun. Trillusjómenn hafa líka sinn fasta stað við bryggjuna og selja þar glænýtt fiskmeti alla virka daga. Rækjurnar eru langvinsælastar og kostar lítrinn af þeim 50 nkr.

Nektarströnd og kanínur Þeim sem ekki láta sér nægja að horfa á bátalífið á firðinum frá Akerbrygge geta nýtt sér einhvern þeirra mörgu báta sem bjóða upp á skoðunarferðir með leiðsögumanni um fjörðinn. Hægt er að velja á milli styttri og lengri ferða, með eða án matar. Á Óslóarfirðinum er að finna um 40 eyjar og ganga ferjur frá Ósló út í margar þeirra árið um kring. Í þessar ferjur kostar álíka og í strætó og eru ferjurnar mikið nýttar af borgarbúum sem óska þess að komast burtu frá ys og þys borgarinnar og njóta náttúrunnar um stund. Rétt er að taka fram að þessar ferjur ganga frá Vippetangen en ekki Rådhusbryggen þar sem flestir skoðunarferðabátarnir halda til. Verðmunurinn er nefnilega mikill á ferjunum og þeim.

Eyjarnar sem eru hvað mest heimsóttar af borgarbúum eru Hovedøya, sem státar af klausturrústum frá 1147, og Lindøya sem dregur nafn sitt af hinum mikla fjölda linditrjáa sem prýða eyjuna. Eyjan Gressholmen, öðru nafni "Kanínueyjan", er einnig mjög vinsæl en hún er þekkt fyrir sitt fjölskrúðuga dýralíf og ekki síst fyrir ógrynni af kanínum sem þar lifa villtar. Ef börn eru með í för þá er heimsókn til Gressholmen upplifun sem þau seint gleyma. Allar áðurnefndar eyjar eru friðaðar og eru vinsælir baðstaðir á sumrin. Baðströndin Huuk á Bygdøy, sem státar af afgirtri nektarströnd, á samt líklega vinning hvað varðar fjölda baðgesta á sumrin. Það er þangað sem ferðamennirnir fara enda eru mörg áhugaverð söfn í nágrenninu svo hægt er að slá tvær flugur í einu höggi.

Ekki hafa Óslóarbúar samt notað bikínin mikið í sumar. Hafa þeir kvartað óskaplega yfir vondu sumri enda miða þeir allt við sumarið í fyrra sem var metsumar hvað blíðviðri snertir. Íslendingar búsettir í borginni skilja ekkert í þessu væli heimamanna og eru bara ánægðir með sumarið, því samkvæmt íslenskum mælikvarða hefur ekki verið yfir neinu að kvarta.

Höfundur starfar sem blaðamaður í Ósló Á SUMRIN er Akerbrygge troðfull af Óslóarbúum sem og ferðamönnum sem hittast þar yfir bjór og ís. Alls er pláss fyrir um 6.000 manns í sæti á 35 veitingastöðum.

BORGARBÚAR nota ferjurnar sem ganga út í eyjarnar nálægt Ósló mikið. Eftir um 10 mínútna sjóferð er maður kominn burt úr ys og þys borgarinnar og staddur úti í kyrrlátri náttúrunni.

FÁTT er yndislegra á góðum degi en sigla um Óslóarfjörðinn í eigin bát. Þeir sem ekki eru svo heppnir geta hinsvegar leigt sér bát yfir helgi á ágætis verði. Tryggingarnar eru hins vegar himinháar.

GIRNILEGUR skelfiskur. Á bátnum Fjordflower, stærsta skelfiskveitingastað Norðurlandanna, borga gestir 500 nkr og fá í staðinn fat sem þetta á borðið. Fatið inniheldur 15­20 tegundir skelfisks (árstíðabundið) og er fyllt á fatið alveg þangað til menn standa á blístri.