Þrjú þúsund manna skip í Sundahöfn EITT stærsta skip sem lagst hefur að bryggju í Sundahöfn í Reykjavík hafði dagsviðdvöl þar í gær. Var það skemmtiferðaskipið Vision of the Seas og er það aðeins tveggja mánaða gamalt, gert út af Royal Caribbean Cruise Line, er með þúsund manna áhöfn og tekur tvö þúsund farþega.
Þrjú þúsund manna skip í Sundahöfn

EITT stærsta skip sem lagst hefur að bryggju í Sundahöfn í Reykjavík hafði dagsviðdvöl þar í gær. Var það skemmtiferðaskipið Vision of the Seas og er það aðeins tveggja mánaða gamalt, gert út af Royal Caribbean Cruise Line, er með þúsund manna áhöfn og tekur tvö þúsund farþega.

Skipið er 78 þúsund tonn að stærð og 280 metra langt. Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nesskipa, sem hefur umboð fyrir skipið, sagði að vel hefði gengið að koma skipinu upp að þrátt fyrir strekkingsrok og hældi skipstjóra og hafnsögumönnum Reykjavíkurhafnar fyrir lipurðina.

Strax og búið var að binda streymdu farþegar í land í skoðunarferðir en fjöldi langferðabíla var reiðubúinn á bryggjunni. Ráðgert var að skipið léti úr höfn í gærkvöld. Síðdegis í gær lét einnig úr höfn í Reykjavík skemmtiferðaskipið Silver Cloud og voru þetta tvö síðustu skemmtiferðaskip sumarsins.

Morgunblaðið/Árni Sæberg ALLS eru um þrjú þúsund manns um borð í Vision of the Seas sem er varðandi mannfjölda á við meðalstóran bæ, t.d. Ísafjörð eða Húsavík.