HERMT er að vel hafi farið á með þeim David Trimble, leiðtoga Sambandsflokks Ulster (UUP) og forsætisráðherra á N-Írlandi, og Gerry Adams, leiðtoga Sinn Féin, á fundi þeirra á fimmtudag í Belfast.
Þrjátíu ár liðin frá því að átökin á Norður-Írlandi hófust Sögulegur

fundur fornra fjandvina

Sögulegur fundur Davids Trimbles, leiðtoga stærsta flokks sambandssinna, og Gerrys Adams, leiðtoga Sinn Féin, á fimmtudag ber upp á sama tíma og þrjátíu ár eru liðið síðan átökin á N-Írlandi hófust, segir Davíð Logi Sigurðsson . Þessi fundur markar alger tímamót og glæðir vonir um að þrátt fyrir skakkaföll í sumar sé friður innan seilingar. HERMT er að vel hafi farið á með þeim David Trimble, leiðtoga Sambandsflokks Ulster (UUP) og forsætisráðherra á N-Írlandi, og Gerry Adams, leiðtoga Sinn Féin, á fundi þeirra á fimmtudag í Belfast. Trimble vildi þó ekki taka í hönd Adams enda sagðist Trimble ekki telja slíkt handtak tímabært að svo stöddu. Engar myndatökur voru heldur leyfðar á fundi þeirra.

Engum dylst þvílík tíðindi það eru að Trimble, leiðtogi stærsta flokks sambandssinna á N-Írlandi, skuli fallast á að hitta leiðtoga Sinn Féin, stjórnmálaarms Írska lýðveldishersins (IRA). Slíkur fundur hefur í raun verið algerlega óhugsandi allan þann tíma sem vargöldin á N-Írlandi hefur staðið, ef ekki lengur.

Vert er að muna að Adams er leiðtogi þeirra samtaka sem hafa barist gegn yfirráðum n-írskra sambandssinna ekki síður en Breta, og er auk þess grunaður um að hafa verið einn höfuðpaura IRA á áttunda áratugnum. Trimble er hins vegar leiðtogi sambandssinna sem ávallt hafa stutt tengslin við Bretland, og stjórnuðu í skjóli þeirra um áratugaskeið. Þeir eru því í raun tákngervingar tveggja andstæðra fylkinga sem í gegnum tíðina hafa hatast og fyrirlitið hvor aðra.

Fundurinn í vikunni er því sannarlega skref í rétta átt þótt bæði almenningur og fréttaskýrendur viti vel að enn er eftir að yfirstíga hindranir. Hann glæðir vonir um að stjórnmálamönnum á N-Írlandi muni á endanum takast að vinna bug á þeirri tortryggni sem ríkir á milli þeirra, en það er jú lykillinn að því að hægt verði að binda enda á átökin.

Hafa tekið áhættu

Það kom fréttaskýrendum nokkuð á óvart að Trimble og Adams skyldu ræðast við í einrúmi, engir aðstoðarmenn eða milligöngumenn voru viðstaddir fundinn. Eftir fundinn ræddu þeir hvor í sínu lagi við fréttamenn en menn tóku eftir því að Trimble notaði fornafn Adams, Gerry, og þótti það merki um að fundurinn hefði verið vinsamlegur.

Ljóst er að bæði Adams og Trimble hafa tekið verulega áhættu með fundinum, og raunar verkum sínum undanfarin misseri. Fréttaskýrendur hrósa Trimble fyrir að skilja að óbreytt ástand á N-Írlandi var einfaldlega ekki kostur í stöðunni og þykir framganga Trimbles sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að hann náði kjöri sem leiðtogi UUP árið 1995 sem harðlínumaður og ólíklegur til að gefa nokkuð eftir. Hann hefur hins vegar sýnt þroska og ábyrgð og ekki skirrst við að taka pólitíska áhættu í þágu friðar.

Hvað Adams varðar er ljóst að hann hefur stýrt hreyfingu lýðveldissinna út á brautir sem enginn átti von á fyrir tíu árum þegar IRA var enn staðráðið í að hrekja breska herinn á brott með ofbeldisverkum og sprengjuherferð. Adams hefur hægt og sígandi tekist að sannfæra félaga sína um að ofbeldi myndi ekki færa þau úrslit sem menn óskuðu, og að rétt væri að kanna hvort þátttaka í lýðræðislegum stjórnmálum reyndist árangursríkari. Ekki voru allir félaga hans sammála þessari stefnubreytingu og er það skýring þeirra mörgu klofningshópa, eins og t.d. "hins sanna IRA" sem stóð fyrir Omagh-tilræðinu, sem sprottið hafa upp.

Þrjátíu ár liðin

Annars eru einmitt um þessar mundir þrjátíu ár liðin síðan vargöldin á N-Írlandi hófst. Það var fimmta október 1968 sem fyrst brutust út óeirðir þegar lögreglulið Ulster (RUC) lét til skarar skríða gegn kaþólikkum í Derry sem ákveðið höfðu að halda kröfugöngu í borginni þrátt fyrir bann yfirvalda. Harkalegum viðbrögðum lögreglunnar var sjónvarpað beint til annarra íbúa á Bretlandseyjum og jafnvel víðar og í fyrsta sinn gerði umheimurinn sér grein fyrir því að ekki var allt sem skyldi á N-Írlandi.

Þessir atburðir áttu sér vissulega forsögu þótt margir fræðimenn hefðu miðað við 5. október sem upphaf vargaldarinnar á N- Írlandi. Írskir lýðveldissinnar myndu í þessu samhengi tala um sjö hundruð ára ánauð Írlands á meðan aðrir myndu láta sér nægja að benda á skiptingu Írlands árið 1920, eftir blóðuga sjálfstæðisbaráttu Íra, en sú skipting kom til vegna þess að mótmælendur, sem flestir bjuggu í nyrstu sýslu Írlands, Ulster, kærðu sig alls ekkert um að slíta sambandið við Bretland.

Þeir sem tóku við stjórn á N- Írlandi hugðust byggja "mótmælendaríki fyrir mótmælendur" og létu sig það engu varða að um 35% íbúanna voru kaþólikkar. Kaþólikkar voru beittir misrétti af þessum stjórnvöldum en gátu lítið að gert, hlutskipti þeirra var að vera hinn undirokaði minnihluti.

Á sjöunda áratugnum vöknuðu kaþólikkar upp við vondan draum. Þeir urðu vitni að mannréttindabaráttu svertingja í Bandaríkjunum og spurðu sjálfa sig hvort þeirra hlutskipti væri ekki bara nokkuð sambærilegt. Stjórnvöld á N-Írlandi, sem þó stefndu í umbótaátt á þessum árum, voru engan veginn fær um að koma nægilega til móts við kröfur kaþólikka og höfðu enda sprottið upp harðlínumenn meðal mótmælenda, menn eins og klerkurinn Ian Paisley, sem sáu "pápískt" samsæri í hverju horni og höfnuðu allri eftirgjöf.

Stjórnarkreppa fylgdi í kjölfarið og óeirðir blossuðu upp á götum úti. Harka lögreglunnar í viðskiptum við göngumenn jókst, sem á móti olli enn meiri óánægju meðal kaþólikka. Hatrið sem legið hafði undir niðri um áratuga skeið gaus nú upp á yfirborðið og umsátursástand skapaðist í mörgum hverfum borga eins og Belfast og Derry. Breski herinn var kallaður á vettvang og fögnuðu kaþólikkar komu hans í fyrstu, enda leysti hann af hólmi fordómafulla lögregluna, en er frá leið jókst andúð á honum, ekki síst eftir að hermenn drápu 13 kaþólikka á "blóðuga sunnudeginum", 31. janúar 1972. Á árunum 1969­1972 umhverfðist aukinheldur mannréttindabaráttan, Írski lýðveldisherinn (IRA) tók stjórnina, í fyrstu sem varnarlið gegn bareflum lögreglunnar en síðar sem alræmd hryðjuverkasamtök sem kröfðust þess að Írland yrði sameinað á nýjan leik. Öfgasamtök mótmælenda spruttu einnig upp og áttu sér það markmið helst að svara árásum IRA-manna, og voru ódæðisverk þessara hópa oft og tíðum hryllilegri en orð fá lýst eins og alkunna er.

Atburðir sumarsins

Næsta öruggt er að ársins 1998 verður rækilega minnst í sagnfræðiritum framtíðarinnar á N- Írlandi, enda hefur það verið viðburðaríkt með eindæmum. Minna en ár er síðan sá fáheyrði atburður gerðist að Gerry Adams, leiðtogi Sinn Féin, heimsótti Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í Downingstræti 10 í London. Skrifað var undir sögulegt samkomulag 10. apríl og það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 22. maí með rúmlega 70% stuðningi. Öllum var að vísu ljóst að friður var ekki í höfn en sennilega lét enginn sér detta í hug hvílíkur hryllingur var í vændum þetta sumar.

Eftir að mistókst að leysa deilu vegna árlegrar Drumcree-göngu Óraníumanna í júlí og vandræðaástand myndaðist fyrir framan kirkjuna í Drumcree brenndu öfgamenn úr röðum sambandssinna þrjá kaþólska bræður í bænum Ballymoney inni og olli þessi atburður því að allur vindur fór úr mótmælum sambandssinna við Drumcree enda vakti hann óhug hvarvetna. Sprengjutilræðið í Omagh 15. ágúst þar sem 29 fórust og yfir 200 særðust er síðan mannskæðasta ódæðisverk síðustu þrjátíu ára og átti víst enginn von á því nú á þessum tímum sem kenndir eru við "friðarferli" á N-Írlandi.

Í kjölfar Omagh-tilræðisins fordæmdi Gerry Adams í fyrsta skipti slíkt ódæðisverk og markaði sú yfirlýsing tímamót. Þegar nær dró heimsókn Bills Clintons, Bandaríkjaforseta, jókst einnig þrýstingur á fulltrúa fylkinganna á N-Írlandi að taka skref fram á við. Þetta gerði Sinn Féin er flokkurinn lýsti því yfir að ofbeldi "yrði að vera lokið og það að fullu" en ekki þótti minna máli skipta þegar Martin McGuinness var skipaður fulltrúi flokksins í viðræðunefnd um afvopnun öfgahópa.

Lykilatriði hér er að McGuinness er álitinn "grasrótarmaður", í góðum tengslum við þá er kippa í spottana fyrir IRA og er jafnvel talið að hann hafi sjálfur á sínum tíma verið helsti leiðtogi IRA. Skipun hans í þetta hlutverk þykir því sýna að lýðveldissinnum er alvara, og að þeir hafi hugsað sér að afvopnast þegar fram líða stundir.

Þingið af stað að nýju

Í júní kusu íbúar N-Írlands sér þing, eins og ákvæði páskasamkomulagsins höfðu sagt til um. Þingið hefur þegar kosið sér forsætisráðherra og aðstoðarforsætisráðherra, David Trimble og Séamus Mallon, en eftir helgi er áætlað að það hefji eiginleg störf sín.

Ýmis erfið deilumál bíða úrlausnar þingsins og nú fyrst kemur í ljóst hvort stjórnmálamenn á N-Írlandi séu raunverulega reiðubúnir að takast á við vandann. Páskasamkomulagið segir svo fyrir um að samsteypustjórn allra flokka verði komið á fót. Þetta kemur m.a. til af því að kaþólikkar vilja ekki hverfa aftur til þeirra tíma er sambandssinnar fóru með völd, í krafti meirihluta síns, þegar N-Írland hafði heimastjórn 1920­1972.

Fundur Gerrys Adams og Davids Trimbles er skref í rétta átt, segja má að búið sé að brjóta ísinn en nú þurfi að þíða hann. Enda er enn eftir að leysa það vandamál sem snýr að afvopnun IRA og var það helsta umræðuefni "félaganna" á fundinum á fimmtudag. Adams mun hafa ítrekað við Trimble að hann geti ekki skipað IRA fyrir í þessum efnum en Trimble leggur áherslu á að afvopnun verði að hefjast eigi Sinn Féin að fá að taka sæti sín í ríkisstjórn. Adams hefur bent á að slík forskilyrði eru ekki fyrir hendi í páskasamkomulaginu og að verið sé að setja stein í götu flokksins þegar síst skyldi. Ljóst er hins vegar að Trimble vill að Adams komi til móts við sig hvað þetta varðar, að öðrum kosti megi búast við uppreisn í flokki Trimbles, sem myndi gera framhaldið erfitt enda Trimble lykilmaður eigi samkomulagið að halda.

Á föstudag var síðan fyrstu sjö föngunum sleppt úr haldi en páskasamkomulagið segir til um að allir fangar öfgahópanna eigi að hafa hlotið lausn innan tveggja ára.

Eftir kosningarnar í júní á Sambandsflokkur Ulster (UUP) rétt á þremur ráðherrum, en úr UUP kemur einmitt forsætisráðherrann Trimble, og sömuleiðis flokkur hófsamra kaþólikka (SDLP), en þaðan kemur aðstoðarforsætisráðherrann Séamus Mallon. Sinn Féin og Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP), flokkur Ians Paisley, eiga síðan rétt á tveimur ráðherrum hvor. Eftir er að sjá hvort Paisley og félagar taka sæti í ríkisstjórn með fulltrúum Sinn Féin og þættu nokkur tíðindi að sjá Paisley og Adams við sama borðið, svo ekki sé meira sagt. En menn áttu heldur aldrei von á því að Adams fengi að hitta breskan forsætisráðherra og því gæti ýmislegt óvænt gerst enn.

Sér fyrir endann á 30 ára átökum?

Slíkar getgátur eru auðvitað ótímabærar því ljóst er að Trimble hyggst koma í veg fyrir að ríkisstjórnin taki til starfa á meðan IRA hefur ekki afvopnun. Fundur Trimbles og Adams, leiðtoga Sinn Féin, þykir hins vegar tímamótafundur og vekur væntingar um að þessir fornu fjendur eigi, þegar fram líða stundir, eftir að geta starfað saman með einum eða öðrum hætti.

Á þessari stundu virðist því sem Omagh-tilræðið ætli á einhvern ótrúlegan hátt að verða til þess að auka líkur á friðsamlegri framtíð heldur en hitt. Kannski þurftu íbúar N-Írlands að sjá berum augum hvers konar hyldýpi biði þeirra ef þeir þrömmuðu ekki áfram veginn í samkomulagsátt.

Reuters

DAVID Trimble og Gerry Adams ræddust við í fyrsta sinn á fimmtudag þrátt fyrir að hafa báðir átt þátt í og skrifað undir samkomulagið frá páskum. Einum ljósmyndara tókst þó á þeim tímamótum að ná mönnunum saman á mynd sem þó virtu hvor annan ekki viðlits. Má segja að bilið á milli mannanna á myndinni sé táknrænt fyrir það bil sem þarf að brúa á N-Írlandi til að friður náist.

Ársins 1998 verður lengi minnst

Búið að brjóta ísinn, nú þarf að þíða hann