eftir Dick Francis. Jove Books 1998. 306 síður. BRESKI metsöluhöfundurinn Dick Francis hefur skrifað eitthvað tæplega fjörutíu spennusögur á sínum ferli sem flestar ef ekki allar bera áhuga hans á veðreiðum og hestamennsku fagurt vitni. Hann á stóran hóp dyggra lesenda og hafa bækur hans verið þýddar á fjölmörg tungumál meðal annars íslensku.

Faðir og sonur,

hross og pólitík ERLENDAR BÆKUR Spennusaga 10 LB. PENALTY

eftir Dick Francis. Jove Books 1998. 306 síður. BRESKI metsöluhöfundurinn Dick Francis hefur skrifað eitthvað tæplega fjörutíu spennusögur á sínum ferli sem flestar ef ekki allar bera áhuga hans á veðreiðum og hestamennsku fagurt vitni. Hann á stóran hóp dyggra lesenda og hafa bækur hans verið þýddar á fjölmörg tungumál meðal annars íslensku. Francis sendir að meðaltali frá sér eina bók á ári og nýlega kom sú nýjasta, "10 lb. Penalty", út í vasabroti. Það er ósköp fáguð en viðburðasnauð saga um samband föður og sonar og er tileinkuð syni höfundarins svo kannski er Francis með henni að brúa kynslóðabilið. Það er aldrei að vita. Leiðin í Downingstræti 10 Heiti bókarinnar er fengið úr máli þeirra sem stunda veðreiðarnar og vísar til þess, ef rétt er skilið, að undir ákveðnum kringumstæðum eru hestar þyngdir með litlum lóðum fyrir kappreiðar til þess að jafna keppnina. Aðalpersóna sögunnar þráir það heitast að verða frægur knapi. Hann er átján ára sonur upprennandi stjórnmálamanns. Karl faðir hans kemur því svo fyrir að hann er rekinn frá efnilegu hrossabúi en fer þess í stað að vinna fyrir föður sinn í kosningabaráttu á landsbyggðinni. Það helsta sem gerist í kosningunum er að skotið er á föður drengsins og honum með því sýnt banatilræði. Einnig er fiktað í Range Rover jeppanum hans. Einhverjum er greinilega mjög umhugað um að karlinn komist ekki á þing en ekki vinnst tími til þess að garfa mikið í málinu því nóg er að starfa, hampa börnum, hitta húsmæður, halda fundi, vinna kosningar. Fyrr en varir er allt um garð gengið, árin líða, faðirinn stefnir á Downingstræti 10 og viti menn, enn er honum hætta búin. Eins og áður sagði er hér um einstaklega átakalitla sögu að ræða sem á auðvelt með að svæfa lesandann. Einfaldleikinn er allsráðandi. Annað hvort eru persónur Francis sérstaklega vel af guði gerðar og glimrandi í öllu því sem þær taka sér fyrir hendur eða þær eru lævísar og ómerkilegar og jafnvel tilbúnar að myrða úr launsátri. Stjórnmálamaðurinn, faðir drengsins, er svo fullkomið valmenni að maður er ekki í minnsta vafa um að hann mun gista Downingstræti fyrr en varir þótt Francis geri máttvana tilraunir til þess að setja stein í götu hans. Gula pressan Almesti þrjótur sögunnar er blaðamaður á vegum gulu pressunnar, ljótur bæði og úrillur, sem hefur yndi af að grafa upp slúður úr fortíðinni; hann er eini karakterinn sem er eitthvað nálægt því að vera skemmtilegur. Sögumaðurinn, sonur verðandi forsætisráðherra, er skynugur strákur en hálfgert dauðyfli; aðdáun hans á karli föður sínum er takmarkalaus og veit ég ekki hvort hún á sér einhverja samsvörun í lífi Francis. Aðrar persónur sögunnar eru lítt áhugaverðar. Francis tekur sinn tíma í að segja söguna og hikar til dæmis ekki við að lýsa nákvæmlega ferðalagi um forsætisráðherrabústaðinn og því sem fyrir augu ber. Tilgangurinn með því er alls óviss og líkt og annað í sögunni ekki líklegt til þess að fá hjarta lesandans til þess að slá örar. Bókin er sjálfsagt ágæt viðbót þeim sem yndi hafa af að lesa sögur Dick Francis og líkar hinn hófstillti og kurteisi breski frásagnarstíll og rólyndislega andrúmsloft. Fyrir spennufíkla er þessi saga þó alls ekki. Arnaldur Indriðason. Dick Francis.