KVIKMYNDAHÁTÍÐINNI í Feneyjum lauk í gær og er mál manna að hún hafi verið litríkari en oft áður. Fjölmargar stjörnur létu ljós sitt skína og þeirra á meðal var leikstjórinn Emir Kusturica frá Sarajevó. Hann hafði heitið því að hann ætlaði aldrei að gera aðra mynd eftir að hann var stimplaður fylgismaður Serba fyrir verðlaunamynd sína Neðanjarðar eða "Underground".
Kvikmyndahátíðin í Feneyjum

Fjölleikahús að hætti Fellinis

KVIKMYNDAHÁTÍÐINNI í Feneyjum lauk í gær og er mál manna að hún hafi verið litríkari en oft áður. Fjölmargar stjörnur létu ljós sitt skína og þeirra á meðal var leikstjórinn Emir Kusturica frá Sarajevó. Hann hafði heitið því að hann ætlaði aldrei að gera aðra mynd eftir að hann var stimplaður fylgismaður Serba fyrir verðlaunamynd sína Neðanjarðar eða "Underground".

Hann heillaðist hins vegar af hugmynd að heimildarmynd um sígaunana sem komu fram í Neðanjarðar og varð afraksturinn "Svartur köttur, hvítur köttur" sem frumsýnd var í Feneyjum á föstudag. Þar snýr Kusturica baki við stjórnmálum og setur á svið fjölleikahús að hætti Fellinis.

"Ef einhver ætlar að gagnrýna myndina út frá pólitík held ég að ég yrði helst sakaður um að halda verndarhendi yfir sígaunum," sagði Kusturica á blaðamannafundi í Feneyjum á föstudag þegar myndin var sýnd.

Viðfangsefnið er ekki nýtt af nálinni. Kusturica gerði myndina Stund sígaunanna eða "Time of the Gypsies" árið 1989. Viðbrigðin eru aftur á móti þau að "Hvítur köttur, svartur köttur" er viðburðaríkt ævintýri með tónlist og gleði og endar myndin á orðunum "Allt fór vel að lokum".

Metnaður í Hollywood

Kvikmynd Anthony Drazans "Hurlyburly" var einnig sýnd á föstudag í Feneyjum. Fékk hún almennt góðar viðtökur þótt leikstjórinn segði að það hefði verið "virkileg barátta" að ljúka gerð myndarinnar.

"Okkur var neitað um það í tvö ár," sagði hann á blaðamannafundi. "Hvert ár gerði okkur vissari um það að myndin væri erfiðisins virði." "Hurlyburly" er byggð á leikriti eftir Daid Rabe og fjallar um þrjá menn í Hollywood sem reyna að skilgreina afstöðu sína gagnvart konum, starfi sínu og hverjum öðrum.

Drazan sagði að í fyrstu hefði verið erfitt að fá fjármögnun vegna þess að kvikmyndaiðnaðurinn hefði séð sjálfan sig í myndinni. "Þetta fjallar ekki um Hollywood," sagði hann. "Þetta snýst um metnað." Talandi um metnað ­ leikararnir eru ekki af verri endanum, Kevin Spacey, Anna Paquin, Sean Penn og Meg Ryan.

Hjartnæm saga af hlaupara

Hollywood hefði ekki getað hitt á hjartnæmari sögu en Úthald eða "Endurance". Hún fjallar um lítinn dreng í fátæku þorpi í Eþíópíu sem deilir einu pari af hlaupaskóm með níu bræðrum sínum og systrum og laumast stundum út með eina batterí fjölskyldunnar til að hlusta á útvarpið.

Innblásinn af sigri eþíópísku íþróttahetjunnar Miruts Yifters í 10 þúsund metra hlaupi á ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 á hann sér draum. Og draumurinn rætist 16 árum síðar eftir stórkostlegan sigur í sömu vegalengd á ólympíuleikunum í Atlanta. Eftir það er honum hampað sem einum af mestu langhlaupurum sögunnar.

Myndin, sem frumsýnd var í Feneyjum, fjallar sem sé um Haile Gebrselassie, hinn 25 ára gamla hlaupara sem hefur sett 14 heimsmet á fjórum árum, unnið gullverðlaun á ólympíuleikum og stefnir enn hærra.

Hann leikur sjálfur í myndinni, sem er tekin í heimaþorpi hans Asela. En glamúrinn sem fylgir kvikmyndum freistar hans ekki. "Ég hef engan áhuga á að snúa mér að kvikmyndum," segir hann í samtali við Reuters og hlær. "Ég ætla að einbeita mér að íþróttum og stefni að heimsmeistaratitli, það er mín framtíðaráætlun, og ég ætla líka að verða maraþonhlaupari."

Leikstjórinn Leslie Woodhead, breskur kvikmyndagerðarmaður, hófst handa við verkefnið árið 1995. Hann sagðist hafa skoðað átta mismunandi hlaupara en fundist Gebrselassie "einstaklega áhugaverður, hlýr, opinskár, mjög gáfaður og með stórkostlega ævisögu."

Þegar við tókum upp keppnina í Atlanta, sem var í upphafi kvikmyndatökunnar, óskaði ég þess heitar en nokkur annar að Haile ynni," sagði Woodhead. "Þegar það rættist vorum við komnir með stjörnu." Faðir Gebrselassie ­ bóndi sem hvatti son sinn til að hætta að hlaupa vegna þess að það myndi "spilla" honum ­ fylgdist með ólympíuleikunum í eina sjónvarpstækinu í þorpinu.

ÍTALSKA leikkonan Asia Argento faðmar leikstjórann, Abel Ferrara, en þau leika í myndinni "New Rose Hotel".

ANTONIO Banderas og Melanie Griffith eru á meðal gesta í Feneyjum.

JENNIFER Lopez og George Clooney fara með hlutverk í Úr augsýn eða "Out of Sight" sem leikstýrt er af Steven Soderbergh.