POUL Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem nú er í heimsókn í Færeyjum, segir að þótt Færeyingum sé í sjálfsvald sett hvort þeir lýsi yfir sjálfstæði vilji hann gjarnan halda sambandinu við eyjarnar.
Nyrup vill halda sambandinu við Færeyjar

Þórshöfn. Morgunblaðið.

POUL Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem nú er í heimsókn í Færeyjum, segir að þótt Færeyingum sé í sjálfsvald sett hvort þeir lýsi yfir sjálfstæði vilji hann gjarnan halda sambandinu við eyjarnar.

"Ég tel að Færeyingar og Danir hafi margt að færa hvorir öðrum. Og það skal ekki leika nokkur vafi á því að ég óska þess að Færeyjar verði áfram í ríkjasambandi við Danmörku," sagði Rasmussen.

Högni Hoydal, sem fer með sjálfstjórnarmál í færeysku stjórninni, hefur lýst yfir ánægju sinni með heimsókn Rasmussens. Hann leggur áherslu á að Færeyingar óski ekki sjálfstæðis vegna óánægju með Dani, heldur vegna þess að þeir vilji bera fulla ábyrgð á landi sínu.