SKÝRSLA STARR KÝRSLA Kenneth Starr, sérlegs saksóknara, til Bandaríkjaþings um samband Clintons Bandaríkjaforseta og ungrar stúlku, Monicu Lewinsky, hefur eins og við mátti búast vakið gífurlega athygli um allan heim.
SKÝRSLA STARR

KÝRSLA Kenneth Starr, sérlegs saksóknara, til Bandaríkjaþings um samband Clintons Bandaríkjaforseta og ungrar stúlku, Monicu Lewinsky, hefur eins og við mátti búast vakið gífurlega athygli um allan heim. Í skýrslu þessari er lýst með nákvæmum hætti kynferðislegu sambandi forsetans og stúlkunnar og jafnframt er hann sakaður um brot á ýmsum lögum í viðleitni til þess að halda þessu sambandi leyndu.

Við lestur skýrslunnar verður ljóst, að upphaf þessa máls er framhjáhald Bandaríkjaforseta, sem hann hafði áður neitað en viðurkenndi fyrir nokkrum vikum, að hefði átt sér stað. Framhjáhald er ekki refisverður verknaður að bandarískum lögum. Hins vegar snýr spurningin að því, hvort Bandaríkjaforseti hafi brotið lög, hvort tilraunir hans til að leyna framhjáhaldinu hafi leitt hann út í lagabrot en lagatúlkanir í Bandaríkjunum eru ótrúlegur frumskógur.

Að því leyti til má segja, að hliðstæða sé á milli þessa máls og Watergate-málsins svonefnda. Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, braust ekki sjálfur inn í höfuðstöðvar demókrata í Watergate-byggingunni. Hann var hins vegar talinn hafa brotið lög með þeirri markvissu yfirhylmingu, sem fylgdi í kjölfarið og stjórnað var úr Hvíta húsinu.

Bandaríska þingið þarf að taka afstöðu til skýrslu Starr. Fyrstu fréttir benda hins vegar til þess, að þótt í skýrslu hans séu leidd rök að því að Bandaríkjaforseti hafi brotið lög með því að reyna að leyna sambandi sínu við Lewinsky muni ákvörðun þingsins byggjast á pólitískum sjónarmiðum en ekki lagarökum.

Annar þáttur þessa máls er hlutverk hins sérlega saksóknara, sem á sínum tíma var skipaður til þess að rannsaka allt annað mál, þ.e. viðskiptamál Clinton-hjónanna í Arkansas. Í skýrslu Starr er ekki að finna orð um það mál. Sú staðreynd að rannsókn hans tekur þá stefnu að rannsaka framhjáhald Bandaríkjaforseta vekur upp þá spurningu, hvort eðlilegt sé að skipaður sé sérstakur saksóknari til þess að rannsaka nánast allt líf Bandaríkjaforseta. Má búast við því að það verði fastur þáttur í bandarískum stjórnmálum í framtíðinni?

Þriðji þáttur málsins er pólitískar afleiðingar þess fyrir Clinton og ríkisstjórn hans. Hver svo sem skoðun manna er á því, hvort eðlilegt sé að hefja rannsókn á máli af þessu tagi fer ekki á milli mála, að skýrsla Starr hefur veikt pólitíska stöðu Bandaríkjaforseta mjög, svo að ekki sé meira sagt. Fyrstu viðbrögð Clintons benda til þess að hann muni hefja mikla gagnsókn. Sterkasti bandamaður hans í þeirri gagnsókn er eiginkona hans, sem nýtur vaxandi virðingar fyrir framkomu sína í þessu máli og raunar atbeina hennar allan eftir að hún kom í Hvíta húsið. Þá getur það einnig orðið forsetanum að liði, að fólki ofbjóði kynferðislýsingarnar í skýrslu Starr og skilji ekki nauðsyn þess að opinbera einkalíf forsetans með þeim hætti. Það breytir hins vegar engu um það, að forsetinn berst fyrir pólitísku lífi sínu og langt frá því að útséð sé um lyktir þeirrar baráttu.

Á meðan Clinton berst fyrir pólitískri stöðu sinni er ljóst, að hann hefur engan styrk til þess að taka upp baráttu fyrir þeim umbótamálum í bandarískum stjórnmálum, sem hann hefur haft á stefnuskrá sinni og lýsti m.a. rækilega í ræðu til Bandaríkjaþings snemma á þessu ári. Og með því má ef til vill segja, að pólitískir andstæðingar hans hafi náð markmiði sínu, þ.e. að lama hann svo mjög pólitískt, að hann hefði enga möguleika á að koma þeim stefnumálum í framkvæmd.