UMBOÐSMAÐUR Alþingis, Gaukur Jörundsson, telur að ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að veita Valgerði Sigurðardóttur lausn frá störfum í hafnarstjórn og frá starfi formanns hafnarstjórnar hafi farið í bága við fyrirmæli í sveitarstjórnarlögum.
Umboðsmaður um breytingar á hafnarstjórn í

Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili

Brýtur í bága við

sveitarstjórnarlög

UMBOÐSMAÐUR Alþingis, Gaukur Jörundsson, telur að ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að veita Valgerði Sigurðardóttur lausn frá störfum í hafnarstjórn og frá starfi formanns hafnarstjórnar hafi farið í bága við fyrirmæli í sveitarstjórnarlögum. Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag mynduðu meirihluta bæjarstjórnar eftir kosningar 1994 en eftir að upp úr samstarfinu slitnaði 1995 ákvað nýr meirihluti að kosið skyldi að nýju í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla og var það gert í febrúar 1997.

Nýjan meirihluta mynduðu fulltrúar Alþýðuflokks og tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Valgerður og Magnús Gunnarsson, hinn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem ekki stóð að hinum nýja meirihluta, mótmæltu tillögunni um nýja kosningu í bæjarstjórninni. Þau sendu stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytisins í mars 1997 og kröfðust þess að ákvarðanir nýja meirihlutans hvað þetta varðaði yrðu felldar úr gildi. Vitnuðu þau til sveitarstjórnarlaga og reglugerða og töldu að hafnarstjórn og skólanefnd, sem kjörnar voru við upphaf kjörtímabils, væru rétt kjörnar til loka kjörtímabils þar sem hvorki hafnarreglugerð né lögum um grunnskóla hefði verið breytt.

Ráðuneytið taldi ekki hafa verið brotið í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga og í framhaldi af því kvartaði Valgerður Sigurðardóttir við umboðsmann Alþingis. Í niðurstöðu hans segir að yfirleitt séu atvik þannig þegar upp úr meirihlutasamstarfi slitni að nýr meirihluti hafi ráðandi stöðu í nefndum á vegum sveitarstjórnar en málið horfi öðruvísi við þegar tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks myndi nýjan meirihluta með öðrum flokki og tveir fulltrúar séu í "stjórnarandstöðu".

Önnur viðhorf en hjá meirihlutanum

Í bréfi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar til umboðsmanns Alþingis 11. september 1997 kemur fram að tilgangur ákvörðunar bæjarstjórnar með að veita hafnarstjórnarmönnum lausn frá störfum hafi verið byggður á því sjónarmiði að meirihluti hafnarstjórnar hefði önnur viðhorf til stjórnunar bæjarins en meirihluti bæjarstjórnar. Umboðsmaður bendir á ákvæði í 2. mgr. 40. greinar sveitarstjórnarlaga þar sem segir: "Sveitarstjórnarmaður er einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála og honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi."

Segir hann að telja verði að þetta gildi einnig um þá sem sitja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélaga og telur hann það byggjast á svipuðum viðhorfum og fram koma í 48. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína en ekki við neinar reglur frá kjósendum. Umboð þingmanna verði því ekki afturkallað þótt þeir skipti um stjórnmálaflokk eða gangi gegn skoðunum flokks síns í ákveðnum málum.

"Á sama hátt er hlutverk 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga að tryggja, að þeir, sem sitja í sveitarstjórnum eða nefndum á vegum sveitarfélaga, séu sjálfstæðir í starfi. Verður nefndarmönnum ekki veitt lausn frá störfum þótt skoðanir þeirra séu ekki þóknanlegar ríkjandi meirihluta í sveitarstjórn. Fór sú ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, að veita Valgerði lausn frá störfum í hafnarstjórn vegna viðhorfa hennar til stjórnar bæjarfélagsins því í bága við ákvæði 5. mgr. 63. gr., sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Á grundvelli þessara sjónarmiða var einnig ólögmætt að víkja Valgerði úr sæti formanns hafnarstjórnar og kjósa nýjan í hennar stað," segir í greinargerð umboðsmanns Alþingis.