NOKKRIR krakkar úr skátafélaginu Ægisbúum gengu Kjalveg hinn forna í ágúst. Hann liggur frá Hveravöllum að Hvítárnesi við Hvítárvatn, 44 kílómetrar. Til forna var vegurinn aðalsamgönguleiðin milli Suður- og Norðurlands. Hann var notaður frá landnámi til loka 18. aldar. Þá urðu Reynistaðarbræður úti þar með sviplegum hætti.
Skátar á Kili

Frá Sveini Friðriki Sveinssyni:

NOKKRIR krakkar úr skátafélaginu Ægisbúum gengu Kjalveg hinn forna í ágúst. Hann liggur frá Hveravöllum að Hvítárnesi við Hvítárvatn, 44 kílómetrar. Til forna var vegurinn aðalsamgönguleiðin milli Suður- og Norðurlands. Hann var notaður frá landnámi til loka 18. aldar. Þá urðu Reynistaðarbræður úti þar með sviplegum hætti. Eftir það týndist leiðin vegna þess hörmulega atburðar og sagna um reimleika og útilegumenn. Í byrjun 20. aldarinnar var síðan gert átak í að finna leiðina aftur. Hún hefur ekki tapast síðan. Tvær fyrir eina Leiðin er venjulega löbbuð frá suðri til norðurs en við ákváðum að vera öðruvísi og ganga frá Hveravöllum. Tvær fyrstu dagleiðirnar skyldu labbaðar í einu þar sem fyrsti skálinn var ekki laus þetta kvöld. Þessi hluti leiðarinnar liggur m.a. um fjallið Stélbratt og yfir haft sem heitir Þröskuldur. Þaðan blasa við grösug daladrög sem heita Þjófadalir. Við vorum snögg í Þjófadali, aðeins 3 tíma. Kokhraust hugsuðum við með okkur að þetta væri nú ekkert mál og lögðum okkur í klukkutíma við skálann. Við vorum bjartsýn á að komast í næsta skála, Þverbrekknamúla, á góðum tíma þar sem fyrsti leggur ferðarinnar var svo léttur. Frá Þjófadölum er Fúlukvísl fylgt mikinn hluta leiðarinnar. Austan við okkur var Kjalfell. Eftir því sem við gengum lengra varð Kjalfell æ líkara báti á hvolfi. Talið er að nafnið Kjölur sé dregið af fellinu. Myrkrið skellur á Eftir drjúga göngu komum við að svokölluðum Hlaupum á Fúlukvísl. Þar rennur áin í svo þröngu gljúfri að hægt er að stökkva yfir hana. Tæpir tveir metrar eru milli bakka. Ekki er æskilegt að misreikna sig þar sem áin rennur straumþung og kolmórauð langt fyrir neðan. Við sáum okkur til undrunar þegar við komum að Hlaupunum að þar var búið að setja litla göngubrú, með tilheyrandi raski, og bolta hana í klöppina. Skátar eru náttúruvinir og þótti hópnum furðulegt að setja brú á slíkan stað. Dagleiðin var heldur lengri en við bjuggumst við. Byrjað var að rökkva, samræður að mestu hættar og allir gengu eins hratt og mögulegt var. Nokkrum sinnum héldu menn að við hefðum rambað framhjá göngubrúnni á Fúlukvísl. Loksins þegar myrkrið var orðið full mikið fyrir okkar smekk rak athugul stúlka augun í brúna. Þaðan marka stikur leiðina að skálanum. Skrefin frá brúnni voru þó þau erfiðustu í ferðinni. Við settumst fyrir utan skálann og elduðum okkur kvöldmat til að vekja ekki útlendinga sem steinsváfu inni. Klukkan hálf tvö læddumst við svo inn til að fara að sofa. Skálinn var almyrkraður og fólkið vaknaði þrátt fyrir ýtrustu aðgæslu.

Hefnigjarnir Svíar Morguninn eftir launuðu tveir Svíar okkur svo gauraganginn með því að fara á fætur klukkan sex um morguninn. Úti var rigning svo allir sváfu vel út. Síðan gengum við af stað í rigningu. Dagleiðin lá í Hvítárnes. Hún er mjög falleg, sérstaklega við ósa kvíslarinnar í Hvítárnesi. Þar er mikill gróður og fjöldinn allur af fuglum. Skálinn í Hvítárnesi er einn elsti skáli FÍ. Þar er sagt reimt. Kvendraugur ásækir karla sem sofa í ákveðinni koju þar. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir guðfræðinemans í hópnum til að verða fyrir barðinu á draugnum urðum við einskis vör. Vistin í Hvítárnesi var ágæt, þó að okkur þætti hún í dýrari kantinum. Hún kostar 1.200 kr. fyrir þá sem eru ekki í FÍ miðað við 500 kr. nóttin í Arnarsetri, sem Ægisbúar eiga, en hann ber af í samanburði. Sérstaklega var fúlt að útlendingar, sem gistu í tjaldi við skálann, höfðu komið sér fyrir í öðru herberginu. Þeir höfðu gashitarann inni hjá sér og töldu greinilega að íslenskir skátar væru slíkir harðjaxlar að þeir þrifust á kulda. Sem er auðvitað rétt. Að endingu yljuðu gönguprímusarnir okkur. Mánudagurinn rann upp með öskrandi norðanátt og sandstormi. Blindandi löbbuðum við niður að vegamótum, 8 kílómetra leið. Þar húkkaði einn úr hópnum far inn að Hveravallaafleggjara og labbaði þaðan á Hveravelli að ná í bílinn. Skemmtilegt skátastarf Þar sem engan langaði í bæinn kíktum við á Gullfoss og þaðan í sund á Laugarvatni. Síðan um Lyngdalsheiði til Þingvalla. Þar var slegið upp heljarinnar grillveislu í enda ferðar með tilheyrandi meðlæti og ís í eftirmat. Eftir að hafa rennt fyrir silung og sofið út var svo haldið heim á leið. Krakkarnir sem tóku þátt í ferðinni eru í dróttskátasveit Ægisbúa. Dróttskátastarf er ætlað krökkum eldri en 15 ára og byggist mikið upp á ýmiskonar ævintýramennsku. Allir voru mjög sáttir við ferðina þrátt fyrir að hún hefði verið í styttri kantinum og voru krakkarnir byrjaðir að skipuleggja þá næstu áður en komið var heim. SVEINN FRIÐRIK SVEINSSON,

aðstoðarfélagsforingi Ægisbúa.

HJÖRDÍS María Ólafsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir, Sigfús Kristjánsson og Sveinn Fr. Sveinsson.