Tónlistin græðir sálina og jurtirnar líkamann Það var fyrir átta árum að áhugi á blómum og jurtum frá barnæsku, ofnæmi fyrir fínum kremum og bók um þýska nunnu sem uppi var á 12. öld urðu þess valdandi að Gígja Kjartansdóttir í Fossbrekku á Svalbarðsströnd fór að búa til smyrsl, olíur og krem úr jurtum.

Tónlistin græðir sálina

og jurtirnar líkamann Það var fyrir átta árum að áhugi á blómum og jurtum frá barnæsku, ofnæmi fyrir fínum kremum og bók um þýska nunnu sem uppi var á 12. öld urðu þess valdandi að Gígja Kjartansdóttir í Fossbrekku á Svalbarðsströnd fór að búa til smyrsl, olíur og krem úr jurtum. Fyrst átti þetta að verða tómstundagaman, í mesta lagi henni sjálfri til heilsubótar, en eftir fimm ár varð ekki aftur snúið og hún stofnaði fyrirtæki um framleiðsluna sem ber nafnið Urtasmiðjan. Ásdís Haraldsdóttir og Kristján Kristjánsson ljósmyndari heimsóttu Gígju í Urtasmiðjunni fyrir skömmu.

ÞAÐ VAR hryssingslegt veður þegar við ókum í hlað í Fossbrekku. Húsið er umkringt gróðri og dyrnar á bílskúrnum stóðu opnar. Fyrir innan var Gígja innan um jurtir, olíur og krem. Þessi vinnuaðstaða var innréttuð fyrir þremur árum og þarna seyðir hún jurtir, blandar og pakkar. Á grind fyrir ofan eldavélina hanga jurtir. Þar má sjá vallhumal, ljónslappa, rauðsmára, gulmöðru, bleikan vallhumal og fleiri jurtir. Það er greinilegt að Gígja heldur mikið upp á vallhumalinn. "Ég nota hann mikið því þetta er dásamlega fjölhæf jurt." Risastór köttur laumast nú inn í vinnustofuna til að líta á gestinn. Þótt Gígja tali blíðlega til hans er greinilegt að hann er ekki velkominn inn í vinnustofuna. "Þú veist að þetta er bannsvæði fyrir ketti," segir Gígja. Köttinn Monsa fékk hún í Kattholti fyrir tveimur árum ásamt hvítri læðu sem hún kallar Fífu. Monsi hafði fundist á ruslahaugunum í Hafnarfirði, en þrátt fyrir þær hremmingar er hann rólegur og mannelskur. Fífa er aftur á móti vör um sig og er lítið um ókunnuga gefið. Enginn veit hvaða lífsreynslu hún lenti í áður en hún kom í Kattholt. Í túninu heima Í garðinum umhverfis húsið ræktar Gígja ýmsar jurtir sem hún notar. "Ég nota mikið morgunfrú og hana rækta ég sjálf ásamt systur minni og mágkonu. Ég hef reynt að rækta fleiri jurtir, svo sem lavendel og kamillu. Ég fékk svolitla uppskeru af lavendel, en það gengur illa að rækta kamillu. Ég fæ þessar jurtir lífrænt ræktaðar frá útlöndum og líka kjarnaolíur til að skerpa á virkninni. En hér í nágrenninu er af nógu að taka svo ég þarf ekki að spara jurtirnar sem ég nota í framleiðsluna. Það finnst mér gott. Ég legg mikla áherslu á að jurtirnar sem ég flyt inn séu lífrænt ræktaðar og geri miklar kröfur til fyrirtækjanna sem ég kaupi þær af." Í garðinum er líka að finna rósir sem notaðar eru í framleiðsluna. "Annars er sumarið ekki enn komið hér fyrir norðan," segir hún. "Ég er enn að bíða eftir því." Fossbrekka er í landi Mógils, en þar er Gígja alin upp. Systir Gígju og fjölskylda hennar sjá að mestu leyti um jurtatínsluna fyrir hana, en þau eru bændur á Mógili. Áhugi Gígju á jurtum nær alveg til barnæsku. Hún var dugleg að spyrja um nöfnin á blómum og jurtum og smám saman lærði hún þau. Hún minnist þess ekki að jurtir hafi verið notaðar heima hjá henni að öðru leyti en því að amma hennar bjó til vallhumalssmyrsli sem hún bar á eyrun á krökkunum þegar þau sólbrunnu. Auk þess var það notað mikið á skepnur, sérstaklega á spenana á kúnum. En þegar áhuginn vaknaði á ný og hún sökkti sér niður í fræðin voru hæg heimatökin því hún vissi nákvæmlega hvar hver tegund óx. Bókin um Hildigerði frá Bingen kveikti ljós ­ En hvers vegna kviknaði áhuginn á að fara að nýta jurtir? "Það er nú svolítið skrýtið allt saman," segir Gígja. "Ég dvaldi í Þýskalandi við tónlistarnám í sex ár frá 1965 til 1971. Þá rakst ég á bók sem vakti athygli mína og ég keypti hana. Þetta var bókin Stóra apótekið hennar Hildigerðar eða Grosse Hildegard Apoteke. Hún fjallar um Hildegard von Bingen sem var uppi frá 1098 til 1179 og var nunna, tónskáld, listamaður og heilari eða læknir. Hún var talin hafa spádómsgáfu og var mikil grasakona og læknaði með jurtum. Hún skrifaði alltaf niður uppskriftirnar og á síðustu árum hafa rit hennar og tónlist verið gefin út. Vegna þess að áhugi á jurtum hefur alltaf blundað í mér hef ég líklega keypt bókina, en staðreyndin var sú að hún lenti ólesin upp í hillu þar sem hún gleymdist í mörg ár. Á þessum árum var náttúrulega aldrei tími til neins. Við fórum að að byggja og eignast börn og ég hellti mér auk þess út í tónlistarkennslu. En fyrir um það bil átta árum kom bókin allt í einu upp í hendurnar á mér. Ég fór að blaða í henni og þá kviknaði strax ljós. Í bókinni er sagt frá jurtum, hvaða virkni þær hafa og hvaða sjúkdóma þær hafa áhrif á. Það sem mér finnst merkilegast við þetta er að rannsökuð hafa verið virk efni sem þessar jurtir innihalda og hvaða áhrif þær hafa og það stenst sem þessi merka kona sagði á 12. öld." Eigið tilraunadýr Gígja segir að þetta grúsk hafi þó aldrei átt að vera annað en tómstundagaman. Þrátt fyrir það byrjaði boltinn að rúlla. "Ég var óheppin að hafa mikið ofnæmi fyrir fínum kremum, meira að segja þeim sem voru ofnæmisprófuð," segir hún. "Ég gat ekki notað neitt af þessu og húðin á mér var orðin mjög slæm. Ég byrjaði því á að prófa mig áfram með að gera smyrsl og reyndi þau á sjálfri mér. Það má segja að ég hafi kannski verið heppin að geta verið mitt eigið tilraunadýr. Það kom í ljós að ég þoldi þau vel. Ég er hrædd um að fjöldi fólks hafi ofnæmi fyrir kemískum rotvarnar- og lyktarefnum í þessum fínu kremu og reyni því að hafa mína vöru eins hreina og náttúrulega og hægt er." Þegar Gígja er spurð að því hvort það hafi ekki tekið mikinn tíma að þróa vörurnar hennar segir hún þær hafa verið í þróun frá því hún byrjaði fyrir átta árum. Þetta þróunarstarf fór fram á kvöldin þegar eldhúsið var laust og þar voru smyrslin og olíurnar framleidd fyrstu fimm árin. En fyrir þremur árum varð hún að taka ákvörðun um að hætta þessu eða hella sér út í framleiðsluna af alvöru og stofna fyrirtæki. Þakklátir viðskiptavinir "Ég valdi þann kostinn að halda áfram. Mér fannst ég vera búin að leggja allt of mikið í þetta ævintýri til að hætta. Fyrirtækið Urtasmiðjan var því formlega stofnað. Það sem skipti mestu máli í þessari ákvörðun minni var að fólkið sem hafði notað vörurnar var svo þakklátt og taldi sig fá bót meina sinna. Innan þess hóps er fólk sem hafði barist við ýmis húðvandamál í mörg ár og ekkert hafði dugað fyrr en það prófaði smyrslið frá mér. En auðvitað er misjafnt hvernig þetta virkar á fólk. Ég vil alls ekki halda því fram að það sé einhver töfralausn. En sumum batnar, í öðrum tilfellum er hægt að halda einkennunum niðri, en auðvitað eru líka tilfelli sem smyrslið virkar ekki á. Viðskiptavinahópurinn er fjölbeyttur og það fólk sem mest leitar til mín eru þeir sem sækjast eftir græðismyrslinu mínu gegn sóriasis og exemi. Ég byrjaði einmitt að framleiða það og það er orðið þekktast af vörum mínum nú. Síðan byrjaði ég að framleiða olíur. Hvatinn að því var að þeir sem höfðu verið að nota græðismyrslið gegn exemi og sóriasis í hársverði fannst óþægilegt að bera smyrsl í hárið á sér. Ég fór því að búa til olíu sem hefur sömu virkni. Fólk hefur mismikla trú á náttúrulegum smyrslum og olíum og það má ekki hafa ofurtrú á jurtum frekar en öðru. Sumir halda að hægt sé að framleiða krem sem tekur burtu hrukkur og ég hef verið spurð um slíkt. Ég svara því til að það sé ekki til neitt sem tekur burtu hrukkur, hversu dýr og fín sem kremin eru. Aftur á móti er hægt að hirða húðina sína vel og mýkja hana og næra. Þá verða hrukkurnar kannski minna áberandi. Ef hrukkurnar eru komnar verða þær víst að vera, nema við förum í aðgerð." Sannkallað fjölskyldufyrirtæki Gígja og eiginmaður hennar, Roar Kvam, reka Tónmenntaskólann á Akureyri og stunda bæði kennslu þar. Gígja kennir á orgel, píanó og hljómborð auk tónfræði en segist hafa minnkað við sig kennslu að undanförnu. Roar aðstoðar Gígju með alla tölvuvinnslu í sambandi við framleiðsluna, en auk þess hannaði sonur þeirra, Magne, sem er grafískur hönnuður, allar umbúðir Urtasmiðjunnar. Helga dóttir þeirra sem býr á Írlandi sér um allar enskar þýðingar. Það má því segja að Urtasmiðjan sé sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Gígja segir þetta henta mjög vel meðan fyrirtækið er af þessari stærð. En telur hún það hafa burði til að stækka? "Já. Á þessum þremur árum frá því að ég stofnaði fyrirtækið hefur salan aukist um 100% á milli ára. Það hefur því greinilega alla burði til að stækka. Ég ákvað að fara hægt í sakirnar í byrjun og taka eitt skref í einu. Ég vildi ekki taka fjárhagslega áhættu. Stærsti bitinn hingað til var þegar við tókum bílskúrinn í gegn og gerðum hann að vinnuaðstöðu. En það er ljóst að svona lítil fyrirtæki geta ekki steypt sér í miklar skuldir. Enn er ég að borga skuldirnar vegna bílskúrsins, en ef áfram gengur svona vel verð ég búin að greiða þær upp eftir örfá ár. Skiptir máli að hafa umbúðirnar fallegar Sumum finnst reyndar að ég hafi farið út í ýmsan óþarfa, eins og til dæmis með umbúðirnar. Þær vil ég hafa sérstakar. Ég vil hafa mynd af jurtunum sem varan inniheldur á hverri flösku og dós. Mér finnst skipta miklu máli að hafa umbúðirnar fallegar. Auðvitað skiptir mestu máli að varan sé góð, en það er nauðsynlegt að fallegt útlit veki athygli kaupandans. Það er eins með umbúðirnar og vöruna sjálfa. Maður á leggja alla sína alúð í það sem maður er að gera. Áhugi á jurtum og smyrslum ýmiss konar er að vakna víða og margar konur úti á landi eru að framleiða stórmerkilega hluti á heimilum sínum, meðal annars úr jurtum. Konur byrja oft í smáum stíl og fara varlega í sakirnar því þær vilja ekki hella sér út í skuldir. En hver veit hvað þessar tilraunir þeirra hafa í för með sér í framtíðinni? Í mörgum tilvikum geta orðið úr þessu blómleg fyrirtæki. Ég óttast ekki samkeppni og held að hún sé til góðs. Hún verður bara til þess að hver og einn vandar sig enn meir. Ég veit reyndar að enginn fer út í svona framleiðslu nema að hafa eitthvað fyrir sér og ég held ég að það sé erfitt að græða á þessu. Ekki nema um útflutning sé að ræða." Komu vel út í rannsóknum ­ Verður þú vör við að útlendingar prófi vörurnar þínar? "Já. Þær hafa verið seldar í ferðamannaverslunum og hafa selst vel." ­ Hafa útlendingar haft samband við þig? "Ekki þessir kaupendur, en við erum á Netinu og þar hafa komið fjölmargar fyrirspurnir. Fyrir um það bil ári fékk ég tilboð sem ég ætlaði nú ekkert að svara, en maðurinn minn hvatti mig til þess. Það var frá fyrirtæki sem gerir gæðakönnun á náttúrulegum húðsnyrtivörum og mér var boðið að taka þátt í gæðakönnun. Ég sendi þeim sýnishorn og er mjög ánægð með niðurstöðuna. Af fimm stjörnum mögulegum fengu vörurnar mínar þrjár og hálfa til fimm. Ég sendi líka græðismyrslið til rannsóknarstofu í Bandaríkjunum. Þar var innihaldið og virknin rannsökuð. Smyrslið var notað undir eftirliti lækna á exem- og sóríasis sjúklinga og varð útkoman gríðarlega góð. Hvað kemur út úr þessu veit ég ekki, en ýmislegt er verið að athuga í sambandi við það. Fyrir mig er nóg að fá að vita að niðurstöðurnar eru svona góðar. Þetta er staðfesting á því sem ég vissi af reynslu minni af vörunni." Snýst ekki bara um peninga ­ Værir þú tilbúin að hefja útflutning? "Ég er ekki farin að hugsa svo langt. En mér hefur verið boðið að selja uppskriftina að græðismyrslinu til aðila í útlöndum fyrir dágóða upphæð, en það ætla ég mér ekki að gera. Uppskriftina læt ég ekki frá mér fara. Þetta snýst ekki bara um peninga. Ég er búin að vera að þróa þetta og prófa í átta ár og er nú komin niður á rétta uppskrift. Ég vil halda áfram að búa smyrslið til sjálf. Uppskriftin er hvergi skrifuð og hún er bara í kollinum á mér. Ég gerði mistök með græðismyrslið í byrjun með því að nota í það vaselín. Eftir lestur margra bóka um náttúrulegar húðvörur komst ég að því að þetta er ekki gott efni á húðina. Það er hins vegar ágætt á vélar! Þessi viska er alls ekki frá mér komin. Nú nota ég aðallega bývax í staðinn. Bývaxið er náttúruafurð eins og hunang, húðvænt í sjálfu sér." Fyrir fjórum árum eða svo byrjaði Gígja að búa til krem. Hún segir að þau hafi valdið sér miklum höfuðverk og það hafi tekið töluverðan tíma að læra að búa þau til. Hún leitaði meðal annars til efnafræðinga og fleiri á þessum tíma. "Þótt ég sé ánægð með kremin hef ég samt meiri áhuga á smyrslunum. Þau gera fólki svo gott og eru svo ekta íslensk! Kremin eru meira unnin. Vörurnar skiptast í heilsulínu og snyrtilínu og ég viðurkenni að heilsulínan er í meira uppáhaldi hjá mér. En það er þó nokkur eftirspurn eftir kremunum og þess vegna held ég áfram að búa þau til. Nýlega byrjaði ég svo að fikta við að búa til sápur og það finnst mér mjög skemmtilegt. Ég bý þær til úr olíum, jurtaseyði og sóda og það er spennandi að sjá þegar þetta jukk breytist allt í einu í pottinum. Ég komst að því að ég þurfti að sjóða sápuna þrisvar til fjórum sinnum áður en réttu sýrustigi var náð. En smám saman lærist þetta. Og þá kem ég aftur að mikilvægi þess að vera í góðu sambandi við notendur vörunnar því í gegnum upplýsingar frá þeim hef ég meðal annars komist að því að sum kremin sem ég hef framleitt hafa betri og meiri virkni en ég hafði búist við. Eins hefur komið í ljós að engin vörutegund hefur vakið ofnæmisviðbrögð." Lífsfylling eins og tónlistin og kettirnir ­ Er áhuginn enn jafnmikill og þegar þú varst að byrja? "Já, og miklu, miklu meiri. Þetta starf er mér mikil lífsfylling, eins og tónlistin og kettirnir," segir hún hlæjandi. "Er ekki einmitt sagt að tónlistin græði sálina? Þetta á því vel saman því jurtirnar græða líkamann. Þrátt fyrir að þetta sé stundum einmanalegt starf vinnur sambandið við viðskiptavinina það upp. Það gefur mér mjög mikið þegar fólk hefur samband við mig og segir mér að vörurnar mínar hafi gert þeim gott. Mér finnst ég vera lánsöm að hafa þetta starf og það er gott að búa hér í sveitinni þar sem er óþrjótandi brunnur af jurtum. Við göngum varlega um jurtirnar, slítum þær aldrei upp með rótum heldur klippum af þeim þegar virkni þeirra er mest þar sem við vitum að engin mengun er. Það er með þetta starf eins og allt annað sem maður tekur sér fyrir hendur. Ef maður ætlar að ná góðum árangri verður maður að leggja sig allan í það. Maður verður að láta sér þykja vænt um starfið sitt og hafa ánægju af því."

Kristján Kristjánsson GÍGJA Kjartansdóttir í Urtasmiðjunni. GÍGJA og Roar Kvam á handverksýningu á Akureyri.